18.10.1982
Efri deild: 3. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (30)

11. mál, orkulög

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. gefur mér tilefni til þess að segja hér nokkur orð. Hann minntist á Rafmagnsveitur ríkisins og sagðist líta svo á, að það ætti ekki að vera sérstakt markmið að leggja þær niður. Ég er honum sammála um þetta. Það er ekkert sérstakt markmið að leggja Rafmagnsveitur ríkisins niður, enda tek ég skýrt fram að það ætti ekki og væri ekki hægt að leggja Rafmagnsveitur ríkisins niður nema í fyrsta lagi í áföngum og alls ekki neins staðar nema þar væru aðrir aðilar sem tækja við þessum verkefnum. En ef það eru aðrir aðilar, landshlutasamtök t.d. með aðild ríkisins eins og Orkubú Vestfjarða, sem tækju þetta að sér, þá tel ég að Rafmagnsveitum ríkisins sé á því svæði ofaukið eins og reynslan er á Vestfjörðum. Það er með tilliti til þessa sem ég tel að það eigi að leggja Rafmagnsveitur ríkisins niður í áföngum, eftir því sem tilefni er til, þ.e. ef á viðkomandi svæði eru aðrir aðilar fyrir hendi sem geta annast verkefni Rafmagnsveitnanna.

Hæstv. ráðh. ræddi þó nokkuð um Orkusjóð. Ég held að það hafi verið misskilningur hjá honum og að sjálfsögðu veit hann eins vel um þetta og ég. Hann sagði, ef ég skildi hann rétt, að Orkusjóður hefði ekki sérstaka stjórn (Iðnrh.: Umfram orkuráð.) Já, umfram orkuráð. En það er tekið fram í orkulögunum að orkuráð, eins og það er orðað, sé stjórn Orkusjóðs. Það fer því ekki á milli mála að Orkusjóður hefur stjórn, hefur orkuráð sem stjórn. En það eru mjög takmörkuð viðfangsefni sem orkuráð hefur nú. Í frv. því sem við nú ræðum er gert ráð fyrir að auka hlutverk orkuráðs með því að gera orkuráð einnig að stjórn Orkustofnunar, sem ég kem nánar að.

Hæstv. ráðh, sagði ýmislegt um Orkusjóð, sem mér finnst ástæða til að gera athugasemdir við og væri hægt að flytja langt mál um á þeirri forsendu, að það hlýtur að vera svo í orkumálunum eins og í öðrum málaflokkum, að sá fjárfestingarsjóður sem á að þjóna þeim hlýtur að skipta miklu máli. En nú skildist mér á hæstv. ráðh. að við hefðum kannske ekki sömu skoðun á því hversu miklu hlutverki Orkusjóður ætti að gegna. Hann orðaði þetta m.a. þannig, að það ætti að grynna á upphæðum sem rynnu í gegnum sjóðinn. Ég held þvert á móti að meiri upphæðir þurfi að renna í gegnum sjóðinn, það þurfi að efla hann á alla vegu og Orkusjóður hljóti eðli málsins samkv. að hafa mjög mikil verkefni og þýðingarmikil. Þetta gengur þvert á hugsun hæstv. ráðh. því að hann tók svo til orða á einum stað í máli sínu: elgi sjóðurinn að starfa áfram. Hann getur hugsað sér að sjóðurinn starfi ekki áfram.

Hæstv. ráðh. vék aðeins lítillega og réttilega að ástandi Orkusjóðs í dag og hve það er slæmt. Hvers vegna er það slæmt'? Er það stjórn sjóðsins að kenna'? Nei, svo er ekki og því heldur enginn fram. Höfuðorsökin — og mér liggur við að segja eina orsökin fyrir slæmri fjárhagsstöðu Orkusjóðs í dag er sú að stjórnvöld hafa haft þá skipan á að gera á Orkusjóði að taka verðtryggð lán og ráðstafa fjármagninu sem óafturkræfum framlögum. Á síðustu árum hefur þetta skipulag verið tekið upp, sem er algert ábyrgðarleysi og er raunar ekki hægt að fara nógu hörðum orðum um. Hver ber ábyrgð á þessu? Það er hæstv. ríkisstj. og yfirmaður sjóðsins, hæstv. iðnrh. Þó held ég að mér sé alveg óhætt að fullyrða að við allar fjárlagaafgreiðslur og allar afgreiðslur á lánsfjárlögum hef ég m.a. borið fram tillögur um að breyta þessu. Ég hef lagt til við fjárlagaafgreiðsluna að það yrði — eins og áður var — óafturkræft framlag úr ríkissjóði til Orkusjóðs til þess að hann gæti ráðstafað því sem óafturkræfu framlagi við sveitarafvæðinguna. Þetta er einfalt mál og þetta er augljóst mál. En menn hafa bara barið höfðinu við steininn og vaðið fram í þessari ósvinnu og blekkingarvef. Og mér finnst nú farið að kasta tólfunum, ef svo á að draga þá ályktun af því ástandi sem þetta framferði hefur skapað, að Orkusjóður sé kannske alveg óþarfur, það eigi bara að leggja hann niður. Þá er nú farið að ganga nokkuð langt.

Hæstv. ráðh. fór nokkrum orðum um Orkustofnun og það atriði í frv. að gert er ráð fyrir að Orkustofnun hafi þingkjörna stjórn. Ég skal ekki fara að flytja hér tölu um það hvers vegna æskilegt er og sjálfsagt að mínu viti að hafa þingkjörna stjórn í svo þýðingarmikilli stofnun. Ég minni aðeins á að það er í samræmi við ýmislegt annað. Við höfum þingkjörnar stjórnir, og ég get talið upp ýmsar stofnanir. Hæstv. ráðh. segir að betur fari á því að framkvæmdavaldið skipi stjórn. Nú þykir mér það þó betra að framkvæmdavaldið skipi stjórn heldur en Orkustofnun hafi enga stjórn. Orkumálastjóri heyrir beint undir ráðh. Það er engin stjórn sem fjallar um málefni Orkustofnunar. Það er kannske engin fjarstæða, sem lagt er til í þessu frv., að sett sé stjórn yfir þessa þýðingarmiklu stofnun, sem gegnir lykilhlutverki í öllum orkumálum landsins, eða á að gera það. Þetta gefur mér tilefni til beinnar spurningar. Það eru tvö ár síðan hæstv. ráðh. skipaði að ég hygg einhverja ráðuneytismenn eða einhverja sér handgengna menn í stjórn yfir Orkustofnun. Ég man eftir því að mér fannst full ástæða til að taka málið fyrir á hv. Alþingi utan dagskrár og við hæstv. ráðh. töluðum mikið um þetta mál þá. Ég ætla ekki að rifja það upp en ég spyr hæstv. ráðh. að gefnu tilefni: Er þessi stjórn enn við lýði? Mig minnir að hann hafi sagt fyrir tveimur árum að hún væri skipuð til eins árs. Hver er reynslan af þessari stjórn? Ég vænti þess að hæstv. ráðh. geri grein fyrir þessu.

Hæstv. ráðh. sagðist vera sammála mér um það að eðlilegt væri að gera orkumálaáætlanir. Ég held að allir geti tekið undir það. En hæstv. ráðh. var að tala um að hann eða núv. ríkisstj. hefði fengið ýmsar ákvarðanir samþykktar á undanförnum mánuðum og misserum. Hann vék að virkjanafrumvörpum og heimildarlögum. Það er alveg rétt. En ég held að bæði í því sem hæstv. ráðh. sagði um þetta og í fleiri efnum, sem hann kom inn á varðandi orkumálaáætlun, gæti nokkurs misskilnings. Ákvæði um orkumálaáætlun er ákvæði um skipulag sem á að vera til staðar sem vettvangur til að fást við þessi mál. En í lögum um skipulag setjum við ekki ákvæði um það hvað á að gera. Það er annað mál.

Mér finnst líka í því sem hæstv. ráðh. sagði um skipulag orkumálanna gæta hliðstæðs misskilnings. Þegar við erum að tala um að setja lög um skipulag orkumála erum við að móta þær leiðir sem á að fara eftir. En við erum ekki að ákveða hvaða framkvæmdir eigi að ráðast í eða ákveða. Þetta er sitt hvað. Hæstv. ráðh. lét að því liggja, ef hann sagði það ekki beinlínis eða meinti það, að ekki hefði verið hægt að setja lög um skipulag orkumála af því að það hefði ekki verið séð fyrir hvað skeði í tilteknum málum, eins og t.d. í sambandi við sameiningu Landsvirkjunar og Laxárvirkjunar. Þetta er alger misskilningur. Í skipulagslögum setjum við ekki ákvæði um það hvað á að gera við sérstök orkufyrirtæki. Það er allt annað mál. Hæstv. ráðh. mótmælti því ekki heldur, sem eðlilegt var, að sameining Landsvirkjunar og Laxárvirkjunar gat átt sér stað, eins og hefur alltaf verið tekið fram í grg. með þessum lögum, hvort sem búið var að samþykkja þessi lög eða ekki, vegna þess að slíkar aðgerðir voru framkvæmanlegar innan ramma laganna. Við þurfum einmitt að haga skipulagi orkumálanna þannig, að á hverjum tíma gefi það rúm til þess að gera þær ráðstafanir varðandi einstök fyrirtæki, varðandi einstakar framkvæmdir sem þarf að gera.

Hæstv. ráðh. var svo vænn að gera það sem mér láðist, að vekja athygli á að með þessu frv. eru tvö ný fskj., sameignarsamningur Landsvirkjunar, ríkisins og Laxárvirkjunar og svo samningurinn um yfirtöku Landsvirkjunar á virkjunarframkvæmdum og byggðalínu. Ég hefði átt að vekja athygli á þessu í tali mínu áðan en mér láðist það. En hæstv. ráðh. hefur vikið að þessu og ég legg áherslu á það, að þessi fskj. eru lögð fram til þess að allir megi sjá að það sem hefur verið gert með þessum samningum rúmast innan ramma orkulaganna eins og þau yrðu, ef frv. þetta yrði samþykkt.

Við hæstv. iðnrh. erum sammála — eins og ég hygg að allir hér — um að það þurfi að setja ný lög um skipulag orkumála, ný orkulög. Hæstv. ráðh. hefur alltaf sagt þetta þegar við höfum verið að ræða þessi mál. Og ég man ekki betur en ráðh. hafi á fyrri þingum, þegar við höfum rætt þetta, verið svo bjartsýnn að hann hafi gert ráð fyrir því að á því sama þingi kæmi frá honum frv. til orkulaga. Það var heldur ekki óeðlilegt, því að í sjálfum stjórnarsamningnum segir að það sé verkefni sem ríkisstj. ætli að vinna að, að fá sett ný orkulög. En það hefur ekkert orðið af þessu. Kannske er það í þessum umr. sem hæstv. ráðh. kveður sterkast að orði í þessu efni, því að ég get ekki skilið hann öðruvísi en svo að hann sé búinn að lofa okkur frv. um orkulög fyrir jól. Það virðist þá ganga í þessum efnum í öfugu hlutfalli við gengi ríkisstj. um þessar mundir. Ekki hef ég á móti því að slíkt frv. líti dagsins ljós og raunar vænti þess. Og ég verð að segja að ég fagna því að sjá það og kynna mér þann mun, sem verður á því og því frv. sem hér er til umr. Mér segir svo hugur um að það sé einungis í undantekningartilfellum sem þess sé að vænta að mikill ágreiningur verði í þessum efnum. Meira að segja það sem hæstv. ráðh. hefur síðustu misseri einkum byggt á til þess aðviðhalda ágreiningi í þessum efnum er á slíkum brauðfótum sem ég hef áður lýst. Á ég þá sérstaklega við vangavelturnar um 5 megawatta mörkin og svo það að ekki hefði verið hægt að sameina Landsvirkjun og Laxárvirkjun ef frv. þetta hefði verið orðið að lögum.