11.03.1983
Neðri deild: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2969 í B-deild Alþingistíðinda. (3016)

248. mál, samkomudagur Alþingis

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það gerist nú ekki á hverju kvöldi að ég sakni hv. 1. þm. Vestf. En það vekur undrun mína, jafn glaðhlakkalegur og hann var fyrir nokkrum kvöldum og vorkenndi mönnum ekki að vera hér á þingfundum, ef hann er nú horfinn á burt úr þingsölum á kvöldfundi. Ég óska eftir að það verði upplýst af hæstv. forseta hvort hann hefur fjarvistarleyfi. (Forseti: Hann hefur það, já.) Það var fróðlegt að fá upplýsingar um að hann hafi fjarvistarleyfi.

Það mætti þá jafnframt spyrja hvort aðrir flm. hafi fjarvistarleyfi. Ég kann því illa, að menn flytji hér mál sitt og hverfi svo úr sölum, þannig að þegar lagðar eru fyrir þá spurningar fáist engin svör. Það er eins og menn eigi aðeins að tala þá við stólana. Það kom hvergi fram í máli hv. þm. hvort hann væri að tala fyrir munn nefndarinnar eða fyrir sig sem einstakur þm. og var þó ekki svo lítil traustsyfirlýsing sem fólst í upphafi hans málflutnings. Ég tel það mjög bagalegt, forseti, ef haldið er áfram umr. um þetta dagskrármál meðan 1. flm. þess er fjarverandi — það er raunverulega fátítt að slíkt gerist — að hann sé ekki hafður við til að svara fsp. Er það virkilegt, að forseti telji þetta eðlileg vinnubrögð? (Forseti: Hv. þm. og ýmsir fleiri hv. þdm. hafa hér fullyrt að mér áheyrandi að þetta væri afar ómerkileg og einföld og auðskilin till. Hvað er það sem hv. þm. þarf að fá útskýrt?)

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að vitna í Morgunblaðið 11. mars 1983. „Stjórnarskráin og formaðurinn“ heitir textinn.

„Stjórnarskrárnefnd undir formennsku Gunnars Thoroddsens hóf störf 1. des. 1978 og samkv. ályktun Alþingis átti hún að ljúka störfum innan tveggja ára. Hinn 8. febr. 1980 settist formaður stjórnarskrárnefndar í stól forsrh. og þá var því jafnframt lýst yfir í stjórnarsáttmála, að stjórnarskrárnefnd lyki störfum fyrir árslok 1980, „þannig að Alþingi hafi nægan tíma til þess að ljúka afgreiðslu stjórnarskrár- og kjördæmamálsins fyrir lok kjörtímabilsins“ eins og það var orðað.

Hinn 11. jan. 1983 sendi formaður stjórnarskrárnefndar og forsrh. þingmönnum skýrslu nefndarinnar með bréfi, þar sem sagði að skýrslan ætti að vera grundvöllur umræðna í þingflokkum. Engar slíkar umræður hafa farið fram vegna brýnna úrlausnarefna.

Hinn 9. mars 1983 leggur forsrh. fram á Alþingi frv. að nýrri stjórnarskrá. Þar er komið álit stjórnarskrárnefndar án þess að nefndin hafi samþykkt þessa meðferð á niðurstöðum sínum.

Aðeins nokkrir dagar eru til þingslita og gersamlega vonlaust um framgang stjórnarskrármálsins, þegar formaður stjórnarskrárnefndar, Gunnar Thoroddsen, veitir forsrh., Gunnari Thoroddsen, einhliða heimild til að hafa einkaafnot af fjögurra ára opinberu starfi þingkjörinnar nefndar.“

Það liggur ljóst fyrir að allt frá því á árinu 1978 hafa flm. þessar þáltill. sem hér liggur fyrir haft möguleika á því að bera fram við stjórnarskrá Íslands þá brtt. að Alþingi skuli kalla sjálft sig saman. Það skuli ekki vera á valdi forseta. Hvers vegna hafa þeir ekki flutt þessa brtt. í stjórnarskrárnefnd? Það er sú spurning sem ég þarf nauðsynlega að fá svar við hjá 1. þm. Vestf., sem sat í nefndinni allan tímann, en hann ku vera farinn að sofa. Mér finnst það dálítið skrýtið, þar sem öll þessi mikla vinna hefur verið lögð í stjórnarskrána, ef það er tilfellið að þáltill. ryðji burtu ákvæðum stjórnarskrárinnar hvenær sem mönnum dettur í hug.

Herra forseti. Hefur það þá ekki verið sóun á störfum manna allt frá því 1978 að hafa þá í þessari nefnd? Er hér ekki um einhvern voðalegan misskilning að ræða? Hvernig stendur yfir höfuð á þessum vinnubrögðum? Er það tilfellið, að menn hafi verið að hafa sig að þeim fíflum að útbúa lög, sem séu víkjandi fyrir stjórnarskránni? Þetta væri alveg stórkostleg niðurstaða. En hvernig í dauðanum dettur mönnum í hug, fyrst þeir efa það að þingreyndasti maður Alþingis, hæstv. forsrh., muni gæta virðingar þingsins í sínu sæti, að það þurfi að útbúa eitthvert keyri á hann til að þingið verði kallað saman? Ef þeir yfir höfuð trúa þessu, flm., hví í dauðanum bera þeir þá ekki upp vantraust á manninn? Hann hlýtur að vera hættulegur þingræðinu í landinu með stjórnarskrána á bak við sig. (ÓE: Hvað með Framsfl.? Hvenær vill hann að þingið komi saman?) Framsfl. hefur lítið svo á, að forseti hefði þetta vald samkv. stjórnarskránni. Og við höfum ekki flutt neina brtt. í stjórnarskrárnefnd um að þetta vald verði af forseta tekið. Þannig stendur málið.

Það er ekki skrýtið þó að menn hristi hausinn. Þetta er stórkostlega flókið mál. Nefndin er búin að starfa frá því 1978 og það hefur engin till. komið fram um það að Alþingi kalli sjálft sig saman. Þetta er dularfull niðurstaða. En hitt finnst mér ennþá skrýtnara, eftir að yfirlýsingar hafa gengið hér í þinginu um hverjir séu stuðningsmenn ríkisstj., og það liggur ljóst fyrir samkv. þeim yfirlýsingum sem hér hafa verið gefnar, m.a. af hv. 8. landsk. þm., að hún beri enga ábyrgð á þessari ríkisstj., svo það liggur ljóst fyrir að stjórnarandstaðan getur borið upp vantraust, að hún þorir ekki að gera það. Hvers vegna? Er það minningin um það sem gerðist þegar þeir fólu krötum bráðabirgðastjórnina hérna um árið og allar skoðanakannanir sýndu stórsigur hjá Sjálfstfl. og þeim tókst með leiftursókn undir stjórn kratanna á landsmálunum að glutra því fylgi niður? Eru það þessar minningar sem þeir hræðast svo að þeir telji betra að hafa forsrh.?

Ég verð að segja eins og er að mig undrar það, að formaður Bandalags jafnaðarmanna, sem hefur talað hér hvað ákveðnast fyrir hugmyndum um aðskilnað framkvæmdavaldsins og löggjafarvaldsins, — hann hefur nú talað um dómsmál líka — skuli ekki taka til máls og vekja athygli á því að þetta mál heyrir ekki undir löggjafarvaldið. Málið heyrir ekki undir löggjafarvaldið, svo einfalt er það. Hvers vegna dettur mönnum í hug að það sé brýnasta verkefnið að reyna með þáltill. að narta í vald sem heyrir ekki undir þingið? Ég verð að segja eins og er, að þegar maður verður vitni að svona hlutum, þá hlýtur maður að hugleiða hvort eitthvert stórkostlegt hernaðarplat sé á bak við þessar útskýringar. Ef hugsunin er álíka rökrétt eins og hjá hv. 1. þm. Vestf. hér á bls. 23 í Morgunblaðinu 11. mars 1983, þá skal mig ekki undra þó að það sé skrýtið sem kemur frá öðrum stöðum. Þar ráðlagði hv. 1. þm. Vestf. mönnum að skríða undir borð og láta ekki sjá sig fyrr en fundi væri slitið. Ég veit ekki hvort hann hefur farið eftir fyrri ráðleggingunni, en það liggur ljóst fyrir að hann hefur farið eftir þeirri síðari, herra forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir. Ég vek athygli á því að hann kvartar undan því einnig, að það sé allt of mikill vindur, menn séu að gleypa hér vind. Það er misjafnt hvernig loftleysið hefur farið með menn, ég segi nú ekki annað. Það virðist eins og sumir hafi þurft að fara eftir lofti. (Forseti: Gæti hv. ræðumaður hugsað sér að geyma okkur eitthvað af ræðu sinni þangað til síðar?) Ef forseti hefur áhuga á að fresta þessari umr., þá er ég reiðubúinn að verða við þeim óskum. (Forseti: Ég var að tala um það.) Ég verð við þeirri ósk. (Forseti: Það var ekki hægt að misskilja þetta.)