11.11.1982
Sameinað þing: 16. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

Um þingsköp

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það getur aldrei orðið neitt stórmál úr því til hverrar nefndar þessari till. verður vísað. En ástæður fyrir till. minni, að vísa málinu til utanrmn., eru í stuttu máli þessar:

Svipuð eða sams konar till. hefur komið fram hér áður og henni var vísað til utanrmn. Verktakastarfsemin á Keflavíkurvelli heyrir undir utanrrn. Utanrrh. skipar formann í stjórn Aðalverktaka. Utanrrh. skipar endurskoðanda Aðalverktaka. Það er með ýmsum hætti af hálfu utanrrn. og varnarmáladeildar haft eftirlit með Aðalverktökum. Og þessi till. fjallar um rannsókn á Aðalverktökum en ekki á þeim einstöku aðilum sem standa að Aðalverktökum. Þess vegna er náttúrlega alveg óþarfi að nefna Regin í þessu sambandi. (Gripið fram í: Það stendur í till.) Stendur Reginn í till.? Er ekki ástæða til að lesa betur? (ÓRG: Já, já, við skulum lesa þetta á eftir bara. ) Já, það skiptir ekki máli. — En till. er um rannsókn á Íslenskum aðalverktökum fyrst og fremst a.m.k., það er ekki of mikið sagt, og þess vegna tel ég eðlilegt að málinu sé vísað til utanrmn.

Annars get ég endurtekið það sem ég sagði, að auðvitað er ekki stórvægilegt mál til hvorrar nefndarinnar till. fer. Og þó að þetta sé einkennileg till. að mörgu leyti, en um það ætla ég ekki að ræða í sambandi við þingsköp, efast ég ekki um að allshn. ráði við hana. En ég tel réttara að vísa henni til utanrmn. Ég hef fullan rétt til að gera tillögu um til hvaða nefndar máli er vísað og neyti þess réttar míns. Svo er þingsins að skera úr því. Það er svo sem ósköp einfalt mál og þarf ekki að verða neitt kappsmál hjá einum eða neinum hvað meiri hluti þingsins vill gera í þessu efni. Mér er nákvæmlega sama hvor er borin upp fyrr, allshn, eða utanrmn. Ég legg það algerlega á vald forseta.