11.11.1982
Sameinað þing: 16. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

Um þingsköp

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil frábiðja mér allar undirtektir við hv. 4. þm. Reykv. hvað varðar ádeilur á forseta Sþ., sem eru orðnar vikulegar. Ádeilur hv. þm. eru orðnar nokkuð vikulegar senur hér í þessari hv. samkomu. Ég harma það.

Ég veit ekki hvort ég tala eingöngu innan þingskapa, mér er ekki alveg ljóst hvað ég má segja innan þingskapa, en ég vil þó segja að þessi þáltill., sem nú á að koma undir atkv., gerir ekki ráð fyrir neinu öðru en hér segir, með leyfi forseta: „Till. til þál. um úttekt á verktakastarfsemi við Keflavíkurflugvöll.“ Þar er takmarkað hvað gera skuli og það er ekkert sem fylgir í skrifuðu máli á þessu plaggi annað en að rannsaka skuli Íslenska aðalverktaka og starfsemi þeirra og vita hvort hægt er að koma henni haganlegar fyrir — rannsaka framkvæmd á samningi, sem gerður er við erlenda aðila, sem standa í framkvæmdum hérlendis samkv. milliríkjasamkomulagi um varnir Íslands. Þessi samningur er gerður á vegum utanrrn. og síðan á að rannsaka framkvæmdina. Ég er alveg sammála því. En ég vil geta þess, að hvort sem till. fer til utanrmn. eða allshn. er það samþykkt Alþingis, sem hlýtur að ná til utanrmn., að rannsóknin og niðurstöður hennar verði kynntar almenningi og þá eftir að Alþingi hefur fjallað um þær. Þannig er ekkert lokaðra að ræða þetta mál í utanrmn. en í allshn. Þarna er líka um milliríkjasamning að ræða. Ég vil því styðja þá munnlegu till. sem hæstv. utanrrh. lagði fram um að þáltill. yrði vísað til utanrmn. Hér er um utanríkismál að ræða. Samkv. till. er það eingöngu verktakastarfsemin við Keflavíkurflugvöll sem á að rannsaka og hún heyrir alfarið undir utanrrn. Um allar aðrar framkvæmdir, hvort sem fyrirtækið heitir Reginn eða eitthvað annað, gegnir allt öðru máli vegna þess að þar er um að ræða ráðstöfun á ágóða þeirra fyrirtækja sem standa að Íslenskum aðalverktökum. Þá er komin mjög djúp gjá á milli verktakaframkvæmda og verklegra framkvæmda á Keflavíkurflugvelli og svo aftur þess hvernig hinir íslensku verktakar nota sitt fjármagn, sinn ágóða, á innanlandsmarkaði.