16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (390)

40. mál, Kvikmyndasjóður Íslands

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Aðeins örfá orð, herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þær upplýsingar að væntanlegt sé að þm. fái að sjá frv. um Kvikmyndasjóð og Kvikmyndasafn. Ég fagna því svo sannarlega, enda tími til kominn, því að eins og ég sagði hér í fsp. minni var öðru frv. um breytingu á lögum um Kvikmyndasafn Íslands og Kvikmyndasjóð vísað til ríkisstj. vorið 1980 í trausti þess, að síðar á því ári yrðu einhverjar þær aðgerðir framkvæmdar sem mættu verða til eflingar þessum sjóði.

Ég hlýt þrátt fyrir þessar upplýsingar að undrast nokkuð þær aðferðir sem hér eru hafðar í frammi. Þegar þingskipuð nefnd hefur unnið drög að frv. og hlýtur að eiga allan rétt á því, sé frv. í einhverri skoðun — eða drögin — í ráðuneytinu, og þau hljóti af einhverjum ástæðum ekki náð fyrir augum hæstv. ráðh., að þau eðlilegu vinnubrögð væru viðhöfð að kalla nefndina saman að nýju og ræða við hana um það sem hæstv. ráðh. getur ekki fellt sig við.

Ég verð að upplýsa það hér að grunur minn er sá, að ráðuneytið hafi nú ekki setið þéttingsfast að störfum við að skoða þetta frv. fyrr en fsp. mín kom hér fram. Ég hef nokkuð rökstuddan grun um að hæstv. fjmrh. hafi fremur orðið til þess að ýta á eftir því að frv. liti dagsins ljós heldur en hæstv. menntmrh. Og það þykir mér nokkuð alvarlegt mál. Það getur að vísu verið heppilegt að hæstv. fjmrh. skilji vanda hæstv. menntmrh. vegna eigin setu í því rn., og er svo sem ágætt ef sú samvinna tekst, að fjmrh. sinnir menningarmálum landsins jafnvel betur en menntmrh. En heldur vil ég nú að menn annist það sem þeim er falið.

Ég held að hér sé á ferðinni mál sem á vissulega skilið að því sé sýndur fullur sómi. Fulltrúarnir, sem sátu í þessari nefnd, vilja áreiðanlega allir sjá framan í þetta frv. áður en þessu þingi lýkur. Og ýmislegt bendir nú til að þá sé rétt að fara að hafa hraðar hendur. Að öðru leyti þakka ég hæstv. ráðh. fyrir að tilkynna nú komu frv.