16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

40. mál, Kvikmyndasjóður Íslands

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Án þess að blanda mér í þá gagnrýni sem hér hefur verið lögð fram á hæstv. menntmrh. varðandi þau frumvarpsdrög, sem allt er nú fundið til foráttu eftir 14 mánaða bið í rn. við afgreiðslu þeirra, vil ég nota þetta tækifæri til að mótmæla þeirri kratísku hugmynd sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanninum, að það væri alveg sjálfsagt að leggja skatt á erlendar kvikmyndir í íslenskum kvikmyndahúsum, þótt kvikmyndahúsin kvörtuðu sáran undan of háum skatti. Hvers konar hugsunarháttur er þetta eiginlega? Það vita allir að kvikmyndahúsin eru nú rekin með bullandi tapi vegna þess að stjórnvöld hafa látið það líðast að hér hafa risið upp sjóræningjamyndbandaleigur, sem fara með ólöglegt efni og moka saman fé án þess að yfirvöld geri nokkurn skapaðan hlut í því, en kvikmyndahúsin, sem greiða háa skatta, eru rekin með bullandi tapi. Ég bendi á það jafnframt, að ágóði og skatthluti fjöldamargra kvikmyndahúsanna er notaður til góðra málefna, til framkvæmda sem verður að reyna með einhverju móti að styðja. Þess vegna mótmæli ég því að slíkar hugmyndir séu bornar á borð fyrir okkur alþm. (Gripið fram í.)