16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

270. mál, endurbygging Egilsstaðaflugvallar

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Framtíð Egilsstaðaflugvallar hefur lengi verið á dagskrá og var m.a. rædd mikið á árunum 1973–1974, þegar fóru fram miklar rannsóknir á nýju flugvallarstæði. Það hefur einkum verið talað um þrjá staði. Það er í fyrsta lagi á Snjóholti við Eiða, í öðru lagi á núverandi stað og í þriðja lagi vestan núverandi flugvallar á bökkum Lagarfljóts. Athugunin 1973–1974 leiddi í ljós ýmsa annmarka á Snjóholti. Ekki síst af veðurfarsástæðum var þá fallið frá þeirri hugmynd, enda er Snjóholt 180 fetum eða 60 metrum hærra í landi en núverandi svæði. Í skýrslu og tillögum flugvallarnefndar frá 1976 er gert ráð fyrir uppbyggingu flugvallar á núverandi stað.

Frá þeim tíma hefur lítið gerst þar til flugráð samþykkti á fundi sínum í mars s.l. í fyrsta lagi að gerður yrði ítarlegur samanburður á aðflugi á núverandi brautarstæði og nýju brautarstæði á bökkum Lagarfljóts eða vestar og yrði m.a. veðurfar skoðað í því sambandi. Flugöryggisþjónustudeild flugmálastjóra var falið að annast þessar athuganir.

Í öðru lagi var samþykki að fela verkfræðingunum Ólafi Pálssyni, Sveini Þórarinssyni og Gunnari Torfasyni að gera verkfræðilega úttekt og samanburð á því að endurbyggja gömlu flugbrautina eða byggja nýja vestar á flugbrautarsvæðinu. Samanburðurinn á að fela í sér grófa kostnaðaráætlun.

Í þriðja lagi var ákveðið að miða byggingu flugbrautarinnar við innanlandsflug, en gera þó ráð fyrir að flugvél á borð við Boeing 727–200 geti notað flugbrautina.

Niðurstöður af þessum rannsóknum eru væntanlegar um næstu áramót, en tekið skal fram að að þessu hefur verið unnið ötullega í sumar. Ráðgert er að halda almennan kynningarfund á Egilsstöðum um málið þegar niðurstöður liggja fyrir.

Það er að sjálfsögðu varla tímabært að draga neina ályktun nú af þeirri rannsókn sem þegar hefur farið fram, en ég vil nefna að það virðist vera álíka dýrt að endurbyggja núverandi flugbraut og byggja nýja braut á bökkum Lagarfljóts. Ný braut á bökkum Lagarfljóts mundi væntanlega gefa um það bil 200 fetum lægra aðflugslágmark og beinna aðflug en núverandi flugbraut. Hins vegar gæti braut á bakka Lagarfljóts krafist þess að ráðast yrði í mjög kostnaðarsama tilfærslu á farvegi Eyvindarár nema stefnu hennar verði breytt og þá lægi hún yfir núverandi þjóðveg og inn á land, sem ekki hefur verið athugað hvort fært væri í þessu skyni, það eru því kostir og gallar við þessar tvær hugmyndir. Aðalatriðið er að niðurstöður eiga að liggja fyrir um næstu áramót og verða þá vandlega kynntar heimamönnum.