16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

270. mál, endurbygging Egilsstaðaflugvallar

Sveinn Jónsson:

Herra forseti. Það mál, sem hér er hreyft, er eins og fram hefur komið afskaplega mikilvægt fyrir okkur Austfirðinga alla og þó það láti lítið yfir sér hér er það engan veginn nægilega undirstrikað hvaða mikilvægi það er í rauninni sem þarna er um að ræða. Þarna er um að ræða höfn okkar Austfirðinga í tengslum við aðra landshluta.

Fjárveitingar til flugvallamála á Austurlandi voru lengi vel nokkuð litlar, voru 5.9% árið 1978, en hækkuðu í 19.8% árið 1981 og fóru í 21% á árinu 1982. Það eitt undirstrikar að ástand þessara mála var orðið í ólestri á Austurlandi, en nú er, sem betur fer, verið að ráða þar nokkra bót á.

Flugvöllurinn á Egilsstöðum þjónar þarna sérstaklega miklu hlutverki og það er miður að það skuli hafa dregist hartnær 10 ár að draga fram ákvörðun um hvar og hvernig þar skuli að málum staðið. Það er rétt, sem hæstv. samgrh. sagði, að málum var hreyft um flugvöll við Snjóholt. Ég held að þar hafi í sjálfu sér verið að því unnið að dreifa áhuga manna fyrir málinu og því stöndum við nú frammi fyrir því að þetta mál er í miklum ólestri.

Umferð um Egilsstaðaflugvöll er mjög mikil og það svo að við erum í röð þeirra valla sem hafa hvað mesta umferð, bæði hvað varðar flughreyfingar, farþegafjölda og vöruflutning. Varðandi vöruflutninga erum við í 3. sæti, varðandi farþegafjölda erum við í 3.–4. sæti og sömuleiðis erum við hvað fremstir hvað flughreyfingar varðar.