16.11.1982
Sameinað þing: 18. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í B-deild Alþingistíðinda. (407)

32. mál, hafsbotnsréttindi Íslands í suðri

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Hér er um að ræða stórt mál. Eftir að samningar hafa náðst um Jan Mayen-svæðið verða þau tvö landgrunnsvæðin sem við Íslendingar getum átt réttindatilkall til. Það er hið svokallaða Rockall-svæði og það er Reykjaneshryggurinn.

Að því er varðar Rockall-svæðið, þá eru það fjögur ríki eða fjórar þjóðir sem gera kröfur til réttinda þar. Það er Ísland, það er Danmörk fyrir hönd Færeyinga skulum við segja, það er Bretland og það er Írland.

Ég vil nota þetta tækifæri til að gera grein fyrir því hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar af Íslands hálfu til að reyna að tryggja rétt okkar til þessa svæðis eða treysta okkar réttarkröfur til þess svæðis.

Hv. flm. gerði grein fyrir þeim viðræðum sem tvívegis hafa farið fram á milti fulltrúa á hafréttarráðstefnunni að því er varðar Breta og Íslendinga og Dani, fyrst í New York og síðan í Genf. Ég skal ekki fara nánar út í að tala um þá fundi af því að hv. flm. gerði grein fyrir þeim og las upp minnisblað með frásögn um fundinn í New York. En ef ég vík fyrst að Bretum og Írum, þá var það svo, að af utanrrn. var skrifað bréf til þeirra beggja, Breta og Íra, og óskað eftir því að þeir tækju upp viðræður við Íslendinga um þessi mál. Frá Bretum barst jákvætt svar, sem fól það í sér að þeir væru reiðubúnir til viðræðna um málið. Frá Írlandi barst hins vegar neikvætt svar, að þeir væru ekki á þessu stigi reiðubúnir til beinna viðræðna um málið.

Þegar forseti Íslands fór í opinbera heimsókn til Bretlands á s.l. vetri tók ég í framhaldi af þessum bréfaskriftum upp viðræður við þáv. utanrrh. Breta, Lord Carrington, um þessi mál og það fóru þar fram viðræður um þetta mál í fullri vinsemd. Niðurstaðan varð sú, að samkomulag varð um að setja á því stigi sérfræðinga í að kanna þetta mál, bæði út frá þjóðréttarlegu sjónarmiði, jarðfræðilegu sjónarmiði og landfræðilegu, og fela þeim að gera skýrslu um málið.

Í framhaldi af því samkomulagi fór svo Guðmundur Eiríksson þjóðréttarfræðingur í utanrrn. til Bretlands og átti fund með starfsbróður sínum í breska utanrrn. 9. júlí s.l. Ég vil ekki fara út í þær viðræður nánar á þessum vettvangi, en það varð niðurstaðan að slíkum viðræðum skyldi haldið áfram og unnið að málinu á þeim grundvelli sem samkomulag hafði orðið um í viðræðum á milli okkar Lord Carringtons. Það var að vísu sá hængur á í sambandi við þennan fund við Breta, að sá maður, sem hafði farið með þessi mál í breska utanrrn. og sat þennan fund með Guðmundi Eiríkssyni, var þá innan skamms að hverfa frá sínu starfi og taka við starfi við Sameinuðu þjóðirnar. En nú einmitt í þessum mánuði fór Guðmundur Eiríksson aftur til Bretlands og átti þá fund 4. og 5. nóvember með starfsbróður sínum í utanrrn. breska, þeim manni sem tekið hafði nú við því starfi, David Andersen, og sem áður hafði starfað að þessum málum á vegum Sameinuðu þjóðanna eða hjá sendinefnd Breta þar og var þessum málum kunnugur. Þessar viðræður fóru fram í vinsemd og það var rætt um þau atriði sem þyrfti að taka upp í þá skýrslu sem þeir ætla að gera um málið. Það er gert ráð fyrir að þeir hittist svo síðar, og væntanlega áður en langur tími líður, og það sé unnið að því að gera skýrslu um málið.

Um Íra er hins vegar það að segja, að eins og ég drap á áðan neituðu þeir að taka upp viðræður og þess vegna hafa ekki formlegar viðræður átt sér stað við þá. Hins vegar var haldinn óformlegur fundur með Guðmundi Eiríkssyni og þjóðréttarfræðingi írska utanrrn. einmitt í ferðinni sem Guðmundur fór til Bretlands í hið fyrra skipið, en vitaskuld var það sem þar fór fram án allra skuldbindinga þar sem það lá fyrir að formlega höfðu Írar neitað að taka þátt í viðræðum. Eigi að síður tel ég það feng að komist hafi á þetta samband og orðið viðræður á milli þjóðréttarfræðinganna um þessi mál. Í síðari förinni, sem farin var í þessum mánuði, átti Guðmundur aftur fund með þessum þjóðréttarfræðingi. Það er kannske ekki rétta orðið að kalla það fund af því að þetta eru alveg óformlegar viðræður og án allra skuldbindinga af Íra hálfu eins og málið er í pottinn búið. En hann ræddi aftur við þennan þjóðréttarfræðing, Skinner í írska utanrrn., og þá ásamt jarðfræðingi. Ég álít að þessar viðræður, þó alveg óformlegar séu og með þessum annmarka, sem ég sagði, að þetta eru bara embættismennirnir sem þar ræðast við án þess að hafa til þess umboð og gera það í vissum trúnaði, hafi verið til gagns og skýrt viðhorf hvors aðila fyrir sig.

Það sem Írar setja fyrir sig í þessu efni er það, að það hefur verið samið um gerðardóm á milli Bretlands og Írlands um þessa deilu. Allt er það þó nokkuð í lausu lofti enn þá og t.d. hefur ekki verið gert samkomulag enn um hvernig gerðardómurinn skuli skipaður. En gert er ráð fyrir að það verði eitthvað farið að huga meira að því máli einmitt í þessum mánuði eða á næstunni. Og meðan málin standa þannig og Írar eru með þennan gerðardóm í huganum gagnvart Bretlandi, þá er það eins og það sé í þeirra huga þröskuldur fyrir því að taka upp formlegar viðræður við okkur um þetta efni og það jafnt fyrir það þó að auðvitað sé augljóst mál að gerðardómur á milli þessara tveggja aðila getur ekki bundið þriðja aðila. — Þetta var nú um Breta og Íra að segja.

Um Dani er það hins vegar að segja, að það var sett fram þessi ósk á fundi, sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson gerði grein fyrir áðan, með dönsku sendinefndinni eða fulltrúa hennar, Nordsø, í New York, að það væri sett niður sameiginleg nefnd Íslendinga og Dana vegna Færeyinga til að fjalla um málið. Í framhaldi af þessari málaleitan, sem þarna var sett fram, var það svo, að þegar Anker Jorgensen þáv. forsrh. Danmerkur kom hingað í opinbera heimsókn í sumar tók ég þetta mál upp í viðræðum við hann og gerði það þá fyrst og fremst að minni tillögu að sett yrði niður slík samstarfsnefnd. Danski forsrh. kannaðist við málið, en auðsætt var að það gætti þegar tregðu hjá honum um það að setja niður svona formlega samstarfsnefnd í málinu og taldi hann slíkt ekki tímabært. Hann lofaði hins vegar að taka málið upp, þegar hann kæmi heim, í dönsku ríkisstjórninni og sömuleiðis gerði ráð fyrir því að ég mundi ræða við þáv. utanrrh. Danmerkur, sem gert var ráð fyrir að ég hitti þá innan skamms. Hvort tveggja gekk þetta eftir þó að það væri að vísu mjög skammt þá í það að sú stjórn hyrfi frá völdum í Danmörku. En það varð niðurstaðan, að Danir voru reiðubúnir að setjast niður og kanna mátið með svipuðum hætti og gert hafði verið við Breta, að setja sérfræðinga í málið og kanna ýmsa þætti þess og gera um það greinargerð. Þó að ný stjórn kæmi til valda í Danmörku breyttist þetta viðhorf ekki. Það varð svo, að hinn 15. okt. komu hingað tveir Danir, þ.e. forstöðumaður réttardeildar danska utanrrn. og aðstoðarmaður með honum, og hitti ég þá að sjálfsögðu að máli. Þeir áttu svo fund með Guðmundi Eiríkssyni og Guðmundi Pálma

syni, sem unnið hefur einnig að þessum málum, og það varð niðurstaðan af þeim fundi, — það voru auðvitað rædd þar ýmis atriði sem ég fer ekki heldur út í að ræða hér og mun ekki gera að umræðuefni opinberlega á þessu stigi, — en það varð niðurstaða hans að þeir skyldu hittast aftur. Og það varð svo. Í þessum mánuði, 9. þ.m., átti Guðmundur Eiríksson fund með þessum sömu aðilum í Kaupmannahöfn og þar voru málin rædd enn rækilegar og útskýrð.

Ég verð að segja það, án þess að ég vilji nokkuð láta uppi um efni þeirra viðræðna, að eftir þann fund er ég heldur bjartsýnni á að það hafi tekist að eyða vissum misskilningi, sem mér virðist að Danir hafi verið haldnir og kannske Færeyingar þá líka, um að við legðum eingöngu áherslu á að koma fram okkar rétti, en hirtum ekki um rétt Færeyinga. Ég held að það hafi kannske tekist að koma inn skilning um það einmitt í samræmi við ályktun Alþingis á sínum tíma og umr., sem þá fóru fram um það efni, að það væri fyrst og fremst áhugi Íslendinga að ná saman við Dani og Færeyinga í þessum efnum og að það gæti skapast samstaða á milli þeirra aðila í sókn þessa máls, en við værum reiðubúnir að viðurkenna rétt Færeyinga, ef það kæmi fram að hann reyndist vera meiri og betri en okkar Íslendinga í þessu sambandi. Ég er sem sagt öllu vonbetri að því er þetta atriði varðar eftir þennan fund í Kaupmannahöfn. Það var ákveðið að framhald yrði á þessum viðræðum.

Hér er að sjálfsögðu ekki um neinar samningaviðræður að tefla, heldur könnunarviðræður og í þeim tilgangi að skýra málin og gera ljósari vissar undirstöður sem þurfa að vera fyrir hendi áður en menn geta tekið ákvarðanir á skynsamlegum grundvelli, því auðvitað er það ekki nóg að við séum alveg sannfærðir um okkar rétt, heldur þarf fleira til að koma og það verður að hafa í huga. Jafnframt vil ég geta þess að Hans G. Andersen, sem hefur tekið þátt í þessum viðræðum varðandi sendinefnd Bretanna á hafréttarnefndarfundunum og sem er auðvitað reyndur og þekktur þjóðréttarfræðingur, hefur verið falið að gera greinargerð um rétt Íslands á Rockallsvæðinu. Ég vænti þess að sú greinargerð muni koma áður en langur tími líður.

Eins og ég sagði er hér ekki um samningaviðræður að tefla og þess vegna ekkert um það að ræða að það fáist niðurstaða í þeim á þá lund að Íslendingar fái viðurkenndan rétt í þeim. Þar á eftir. Þegar þessi gögn og skýrslur liggja fyrir, sem hér er verið að reyna að ná saman, verða það auðvitað samningamál með öðrum hætti sem koma til greina, ef menn fást þá til þess að setjast að samningaborði. Þá er auðvitað eðlilegt að pólitískir aðilar komi þar til ráðuneytis eða til þess að taka þátt í slíkum samningaviðræðum, ef til kemur. Að því leyti til hef ég síður en svo nokkuð við það að athuga að Alþingi kjósi nefnd til að starfa með ríkisstj. að framgangi þessa máls. Hitt getur verið spurning og verður sjálfsagt athugað nánar í þeirri nefnd,-það er vafalaust utanrmn. er það ekki, — sem till. átti að fara til, hvenær það sé tímabært að setja niður slíka nefnd og þá með hvaða hætti.

Ég hef hér stuttlega gert grein fyrir því hvernig hefur verið unnið að þessu máli af hálfu utanrrn., hvernig sem með málið verður farið síðar, hvort sem hægt verður að fá aðila til þess að setjast að samningaborði eða settur yrði niður gerðardómur til að fjalla um það. Ef menn gætu komið sér saman um það álít ég þennan undirbúning og þá gagnasöfnun, sem hér hefur verið reynt að vinna að, alveg óhjákvæmilegan og nauðsynlegan undirbúning undir frekari meðferð málsins.

Ég er þeirrar skoðunar, að við eigum að framfylgja hugsanlegum rétti okkar til þessa svæðis. Ég segi „hugsanlegum“ af því að ég vil ekki vera með neinar fullyrðingar á essi stigi, en þeim rétti eigi að framfylgja af fullri festu. Á hinn bóginn getur það verið álitamál, hvernig að því skuli nánar staðið, og það getur í því sambandi e.t.v. þurft að sýna nokkra þolinmæði.

Í þessari ályktunartill. er gert ráð fyrir að Alþingi feli ríkisstj. að láta nú þegar á það reyna hvort samkomulag geti náðst við Færeyinga um sameiginlega réttargæslu á Rockall-svæðinu. Þetta þarf nú þegar e.t.v. athugunar við og einmitt í ljósi þess sem ég hef rakið varðandi undirbúning þessa máls. Það verður að sjálfsögðu líka athugað í utanrmn., sem fær málið til meðferðar, og ég skal ekki tefja tímann með því að ræða nánar um það. En það var kannske okkar styrkur líka í Jan Mayen-málinu að það var undirbúið þannig að hægt var að festa hönd á vissum rökum sem hægt var að bera fram. Það er ákaflega þýðingarmikið í svona máli, að mínum dómi, að það séu ekki teknar ákvarðanir sem gætu kannske knúið fram alveg neikvæð svör, heldur getur þurft að beita þarna nokkurri lipurð samfara festu. Ég vil segja það sem mína skoðun, að í svona stórmáli, sem hér er um að tefla, varðar það meira máli eða varðar jafnvel mestu að það gangi, eins og segir í gömlum málshætti að ég held, að nógu fljótt skilar ef vel skilar. Það er höfuðatriðið í þessu máli að haldið sé þannig á því að að lokum verðum við sigursælir.

Eins og ég hef tekið fram get ég náttúrlega ekki á þessum vettvangi farið út í að rekja það sem komið hefur fram í þessum viðræðum, en auðvitað er það svo, að viðræðuaðilar okkar líta öðrum augum á málið en við og telja sýnilega ýmis rök sem þeir benda á haldbær.

Herra forseti. Ég tel sjálfsagt að þessi till. fari í nefnd og sé þar athuguð og ég er algerlega sammála þeim anda sem í henni felst, en með fyrirvara um viss atriði sem þyrfti að athuga nánar í n. En ég tek vissulega undir það með hv. flm. að hér er um stórmál að tefla. Og það skiptir ekki höfuðmáli hvort við náum okkar máli fram í ár eða á næsta ári, heldur hitt, að við náum því fram sem við getum að athuguðu máli talið okkar rökstuddan rétt í því. Þá getum við sagt, sjálfsagt með fullum rétti: Við skulum spyrja að leikslokum, en ekki að vopnaviðskiptum.