18.11.1982
Sameinað þing: 19. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (451)

34. mál, hafsbotnsréttindi Íslands á Reykjaneshrygg

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það hefur nú verið gerð till. um að vísa þessari þáltill. til utanrmn. og þar verður hún að sjálfsögðu athuguð og þar hef ég tækifæri til að koma á framfæri þeim skýringum og ábendingum sem ég kynni að geta látið í té. Þess vegna get ég verið stuttorðari hér en ella, en tel samt rétt við 1. umr. þessa máls að koma fram með nokkrar ábendingar.

Það er rétt, eins og fram kom hjá hv. flm., að landgrunn strandríkis er skilgreint í 76. gr. væntanlegs hafréttarsáttmála, og það er sömuleiðis rétt, eins og kom fram hjá honum, að meginreglan er sett fram í 1. tölulið, þar sem segir að það nái utan 200 mílna að ytri mörkum landgrunnssvæðisins þegar um er að ræða náttúrlega eða eðlilega framlengingu á því. En það eru margar frekari skýringar gefnar í framhaldi greinarinnar á þessu þannig að það kann að verða svo, að það verði deilt um sitthvað í túlkun á þessari grein.

Það er enn fremur rétt, eins og fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, að ég lét þess getið við umr. hér í fyrradag, að eftir að samið hefur verið við Norðmenn um Jan Mayen-svæðið kæmu aðeins til greina tvö svæði sem gætu talist til íslenska landgrunnsins samkv. 1. tölul. 76. gr. og nánari skilyrðum sem í greininni segir, þ.e. Rockall-svæðið svokallaða og Reykjaneshryggurinn. Í 4. tölul. 76. gr. væntanlegs hafréttarsáttmála eru sett ytri mörk landgrunnsins og er þá miðað við 4 a—i við þykki setlaga í 4 a2—i við 60 sjómílna fjarlægð frá brekkufæti landgrunnsins eða „foot of the continental slope“. Í 5. tölul. eru sett frekari skilyrði um hámarksfjarlægð frá landi og eins og hv. flm. drap á 350 sjómílur, þ.e. 250 sjómílur frá miðlínum, en 100 sjómílur frá 2500 metra dýptarlínu. Á hafréttarráðstefnunni var fulltrúum ljóst að með því að beita þessum lið, sem ég nefndi, 4 2—i, og 2500 metra dýptarlínu + 100 mílur á hryggnum, gæti lögsaga náð langt á haf út. Sérstaklega munu hafa verið hafðir í huga við þetta ákvæði hryggur í Indlandshafi og Mið-Atlantshafshryggur svokallaður. Þess vegna var einmitt sett þetta skilyrði í 6. tölul., að á hryggnum yrðu ytri mörk væntanlega 350 sjómílur frá landi, og svo er nú í síðari setningu 6. tölul. ákvæði um að jarðmyndanir, sem þar eru fram teknar, teljist til landgrunnssvæðanna, en séu undanteknar. Þessi ákvæði 76. gr. eru því talsvert flókin og eins og ég drap á má vel vera að menn vilji túlka þau með mismunandi hætti.

Í umr. um þetta mál á ráðstefnunni samþykkti Hans G. Andersen þetta ákvæði fyrir Íslands hönd og lýsti því jafnframt yfir að lögsaga Íslands á Reykjaneshrygg næði að 350 sjómílum. Engar sendinefndir mótmæltu þessu opinberlega, þannig að þessi yfirlýsing er að mínum dómi mjög þýðingarmikil. Hins vegar er vitað mál að t.d. bandarískir sérfræðingar telja eðlilega framlengingu Íslands á Reykjaneshrygg ekki ná upp í 350 sjómílur frá landi, heldur miða þeir við 150 sjómílna fjarlægð frá landi, þannig að eftir þeirri skýringu ættu réttindi Íslands á hryggnum ekki að ná út í 200 sjómílur. Það er vitað mál að stórveldum er kappsmál að takmarka réttindi strandríkja á svona hryggjum sem mest og kemur þar til viss herfræðilegur hugsunarháttur, sem ég skal ekki fara út í.

Ég skal ekki fara nánar út í 76. gr. Það er eins og ég sagði dálítið flókið að gera sér grein fyrir því og rekja það, en hins vegar má benda á að svipað ákvæði og er að þessu leyti í hinum væntanlega hafréttarsáttmála var og er í Genfarsamningnum frá 1958 um landgrunnið. Samningurinn frá 1958 gerði ráð fyrir réttindum eins langt frá landi og hægt væri að nýta auðlindir. Þó hefur nú verið deilt um áhrif ákvæðisins sem skilgreinir landgrunnið sem aðliggjandi svæði. Að mati sumra a.m.k. er nýi samningurinn þrátt fyrir allt öllu gleggri og takmarkaðri að vísu en samningurinn frá 1958.

Það er ekki beint skilyrði fyrir réttindum þessum, að það komi til neinar aðgerðir fyrr en samningurinn öðlast fullt gildi. En hafréttarsáttmálinn er, eins og ég sagði, væntanlegur vegna þess að enn hefur hann ekki verið undirritaður. Hann verður undirritaður 10. des. n.k. af mjög mörgum ríkjum, en þó standa utan við og munu þá ekki undirrita líka nokkur ríki og það þýðingarmikil ríki í þessu sambandi. Hann öðlast auðvitað ekki gildi við undirskriftina eina frekar en aðrir milliríkjasamningar, heldur þarf að koma fullgilding til, og það verður auðvitað ekki fullyrt um hvenær slík fullgilding verður komin þannig að samningurinn taki endanlegt gildi, en auðvitað er það von okkar allra að það verði sem fyrst. Þá þarf að sjálfsögðu að huga að því að gefa út einhverja yfirlýsingu varðandi það efni sem hér er um rætt vegna þess að þrátt fyrir ákvæði 3. tölul. 77. gr. hafréttarsáttmála um að yfirlýsingar af hálfu strandríkis sé ekki þörf er í 8. tölul. 76. gr. gert ráð fyrir alþjóðlegri nefnd til að fjalla um kröfur strandríkja til réttinda utan 200 mílna. Hún á að starfa samkv. heimildarlögum í samningi. Þar segir í 4. gr., að strandríki er hyggst setja ytri mörk landgrunnsins utan 200 mílna beri að koma upplýsingum um mörkin, þar á meðal vísindalegum og tæknilegum gögnum, til nefndarinnar svo fljótt sem auðið er og allavega innan 10 ára frá gildistöku samningsins.

Ég taldi rétt að taka þetta fram núna í 1. umr. að það er ekki um það að ræða að við höfum týnt niður neinum rétti í þessu sambandi af því að það hefur engin þörf verið á því hingað til að gefa út yfirlýsingu varðandi yfirráðin og þess verður fyrst þörf innan þeirra tímamarka sem ég nefndi, en það verður að sjálfsögðu að vera á verði í þessu máli og fylgjast með og gæta þess að gera þær ráðstafanir sem þarf í tíma. Eins og ég hef tekið fram verða þetta út af fyrir sig dálítið flókin lögfræðileg atriði sem þarna þurfa skýringar við. Ég tel út af fyrir sig mjög mikilsverða þá yfirlýsingu sem Hans G. Andersen gaf á sínum tíma á sjálfri ráðstefnunni og ekki var mótmælt. Samt sem áður þurfum við sjálfsagt að búa okkur undir að leggja grundvöll að ítarlegri rökum undir okkar mál og undir þá stefnu í þessu efni. Ég fyrir mitt leyti teldi ekki óeðlilegt að utanrmn. t.d. færi fram á að Hans G. Andersen, sem er nú þekktur og virtur þjóðréttarfræðingur, léti í té álit um þetta efni og jafnvel mætti hugsa sér til öryggis að leita til erlendra sérfræðinga í þessu sambandi. Mér kemur í hug á stundinni t.d. Norðmaðurinn Jens Evensen, sem er mjög þekktur þjóðréttarfræðingur. Það er auðvitað gott, þegar að því kemur að við gefum slíka yfirlýsingu sem gert er ráð fyrir í sáttmálanum að gera verði innan 10 ára frá gildistöku hans, að þá höfum við sem styrkastar stoðir og sterkust rök fyrir okkar yfirlýsingu.

Um Reykjaneshrygg og ýmis atriði þar hefur verið skrifuð ágæt ritgerð, sem Karl Gunnarsson hefur gert og ég sé að hv. meðflm. að till. þessari, hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson, hefur í höndunum.

Herra forseti. Ég skal ekki fara fleiri orðum um þessa till. á þessu stigi. Hún hlýtur sína athugun í utanrmn. og það er sjálfsagt að sú athugun sé rækileg. Við erum ekki að missa neinn tíma í þessu efni þannig að við getum gefið okkur góðan tíma til að athuga allt þetta mál. Og það tel ég alveg sjálfsagt að gera.

Það er auðvitað æskilegt og nauðsynlegt að a.m.k. eins mikil samstaða og unnt er myndist á meðal þjóðarinnar um mál eins og þetta. Þess vegna ætla ég að leiða alveg hjá mér þær hnútur, sem er að finna í grg. með þessari þáltill., en ég tel vera óþarfar.

Það er alveg laukrétt, eins og fram kom hjá hv. flm., að það stendur öðruvísi á að ýmsu leyti varðandi þetta svæði, sem hér er um að ræða, Reykjaneshrygginn, en Rockall-svæðið, þar sem fleiri aðilar gera tilkall til þess svæðis, en ég held að því geti varla verið til að dreifa að nokkur annar aðili geti gert tilkall til þess að gera Reykjaneshrygginn að sínu sérstaka yfirráðasvæði. Að þessu leyti til stendur þarna talsvert ólíkt á.

Hv. flm. minntist á fiskveiðarnar, en það er annað mál og ég ræði það ekki í þessu sambandi.