19.10.1982
Sameinað þing: 4. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

Um þingsköp

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Í þinglegum skilningi erum við auðvitað að tala um hörmungaratburð, hörmulega ákvörðun, sem meiri hl. Alþingis tók. Ég skil forseta svo núna, að það verði ekki gerðar frekari tilraunir til að hefta það að mál séu hér rædd. Þeim sinnaskiptum er út af fyrir sig ástæða til að fagna.

En að því er þessa aths. hæstv. forseta varðar vil ég lesa fyrir hv. þm. upp úr 32. gr. þingskapalaga. Þar er því fyrst lýst hvernig fsp. eigi að vera. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fyrirspurn skal vera skýr, um afmörkuð atriði eða mál, sem ráðherra ber ábyrgð á, og sé við það miðað, að hægt sé að svara henni í stuttu máli.“ Og síðar segir: „Alþm. segir til um það, hvort hann óskar skriflegs svars.“ Þetta þekkja menn.

Síðan segir, herra forseti, og ég bið menn að hlýða vel á: „Forseti ákveður samdægurs, hvort fsp. skuli leyfð eða ekki. Ef vafi er, getur forseti þó borið málið umræðulaust undir atkv. á næsta fundi í Sþ. Skal það einnig gert, ef fyrirspyrjandi óskar þess, er forseti synjar fsp.

Er þetta ekki alveg ljóst? Fsp. sú, sem hér um ræðir, var lögð fram til skjalavarðar á fyrsta degi þings, á mánudegi. Forseti hafði samband við flm. og óskaði eftir orðalagsbreytingu og ég skal skýra frá hver hún var; að sagnorðið „áminna“ væri hlutdrægt og í staðinn yrði notað „að gera aths. við“. Ég féllst fúslega á þetta og skrifaði spurninguna upp á nýtt í skrifstofu forseta og vildi engan frekari málarekstur um það. Það dugði ekki og lagt var fyrir mig, með hendi forseta, nýtt handrit að nýrri spurningu og ég sagði: Nei, þetta er allt önnur spurning og ég flyt hana ekki. — Það var boðaður forsetafundur í hádeginu. Hann sátu hv. þm. Sverrir Hermannsson, hv. þm. Jón Helgason, hv. þm. Helgi Seljan og hv. þm. Karl Steinar Guðnason. Þeir ákváðu 3: í að leggja það til að fsp. minni væri hafnað. Og úr því að þeir ákváðu það í þessu gefna hádegi á miðvikudegi bar þeim að leita atkv. um það samdægurs á næsta fundi. Það er tvítekið í lagagr.

Og hvernig má það vera verk mitt þó að ég sendi forseta þingsköpin með undirstrikunum, sem ég gerði, og benti honum á hvernig ætti að fara með málið? Það er þetta sem ég er að segja og þetta eitt. Ég sé ekki hvernig hægt er að kalla það að kröfu minni. Er það sekt ef ég, 4. þm. Reykv., krefst þess að lög séu ekki brotin á Alþingi? Þingsköp eru lög.

Það er þetta sem gerðist: “Til mín komu sendiboðar og báðu um að ég frestaði málinu. Og mér er það alveg óskiljanlegt. Það komu sendiboðar og báðu 4. þm. Reykv. að fallast á lögbrot og hann sagði nei. Herrar mínir, þið eruð að neita, en af hverju hafa menn þennan hraða á framgangi málsins í þingsköpum? Vegna þess að neitun er alvarlegt mál og ekki leikfang og ekki til þess fallin að draga upp mynd af einstökum þm. sem einangraðir eru hér í húsinu. Þingsköpin gera ráð fyrir því að þetta sé alvörumál, en ekki leikfang í valdatafli. Ég vil greina þinginu frá því, sem er mín persónulega skoðun, og ég hef ekkert á bak við mig, að ég held að þeir sem fyrir þessu stóðu hafi ekki þekkt þingsköp og ekki vitað að um neitun átti að greiða atkv. samdægurs. Þess vegna greinir forseti þinginu frá því að það sé að kröfu 4. þm. Reykv. sem þetta sé gert samdægurs. Krafan var fólgin í því að halda lögin, sem þetta hús óðrum húsum fremur ætti að halda á loft. Ég veit að mönnum er brugðið og mér þykir vænt um að svo skuli vera, en þessa menn, sem stöðugt hafa virðingu Alþingis á orði, sem stöðugt tala í nafni lýðréttinda og mannréttinda og því um líks, bið ég að gæta sín.

Ég er sannfærður um að það efni, sem við hér höfum verið að ræða, verður skráð í þingsögunni sem fordæmi til að varast, því að það hafa skeð skelfilegir atburðir. Hugsum okkur 32ja manna stjórn — (Forseti: Ég bið hv. þm. að stytta mál sitt.) Eina setningu. — tæki þá línu að meina hinum 28 með atkvgr. dag eftir dag að spyrja. Hugsið ykkur hvaða fordæmi þið hafið gefið.

Ég vil þakka hv. formanni þingflokks Alþb. fyrir hans málefnalegu aths. við þetta og þann áhuga, sem hann hefur sýnt á málefninu sjálfu, og sýnir það satt að segja að margir hér inni mættu af honum læra hvað sem menn hafa að segja að öðru leyti.