19.10.1982
Sameinað þing: 4. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

13. mál, stefna í flugmálum

Flm. (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Erindi mitt í ræðustól nú er fyrst og fremst að þakka hæstv. samgrh. mjög góðar undirtektir við þessa þáltill., sem ég vona að sé upphafið að breyttum og bættum háttum í íslenskum flugmálum.

Mig langar aðeins að gera nokkrar athugasemdir við orð hans. En okkur kom saman um það, hæstv. ráðh. og mér, að það væri allt í lagi að ég gerði það að honum fjarstöddum. Hann les það þá væntanlega þegar þar að kemur. Hins vegar vil ég ekki skorast undan því að svara spurningum hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar, sem ég verð nú að játa að ég skildi ekki að fullu, ekki allar. (ÓÞÞ: Er svona erfitt að svara þeim?) Ég mun gera það sem ég get til að svara því sem ég skildi af hans spurningum.

Nú veit ég ekki hvort hv, þm. Ólafur Þ. Þórðarson í öllu sínu veldi reiknar með daglegu þotuflugi frá Holti í Önundarfirði til Reykjavíkur eða hvaða hugmyndir hann hefur um áætlunarflug yfir höfuð. En til þess að útskýra fyrir honum, eins og líklega kennari mundi gera í barnaskóla, þá vil ég segja honum það að hugmyndin á bak við þessa grein er sú einfaldlega, að öryggi flugsins verði betur tryggt með því að hafa stærri og fullkomnari vélar, sem fljúga á milli stærri og fullkomnari flugvalla, og í tengslum við það meginflug geti farþegar átt kost á því að nota smærri flugvélar frá smærri völlum til þess að komast inn á þessa aðalvelli í veg fyrir það flug sem tengir þessa staði við aðra aðalflugvelti í landinu. Vona ég nú að þetta skiljist. Sjálfur er ég fæddur á Ísafirði og þekki talsvert til staðhátta svo að hv. þm. þarf ekki að taka mig í kennslustund í þeim efnum.

Hv. þm. spurði hvað við vildum að fargjöld yrðu hækkuð. Þetta er í sjálfu sér eðlileg spurning. Það sem við höfum á bak við eyrað í þessum lið till. er það að innanlandsflug hefur verið svo svelt á undanförnum árum að þar hefur eðlileg endurnýjun ekki getað átt sér stað. Og það vita allir, sem hafa verið með atvinnurekstur, að þegar tæki eru orðin gömul kostar meiri fjármuni að halda þeim gangandi. Þetta eru ákveðin lögmál sem ganga yfirleitt í gegnum allan atvinnurekstur í landinu og þó víðar væri leitað. Það er m.a. af þessum sökum að reksturinn á hinum gömlu Fokker Friendshipflugvélum Flugleiða er orðinn ákaflega dýr og miklu dýrari en hann þyrfti að vera ef endurnýjun hefði átt sér stað hraðar og á eðlilegri hátt en raun ber vitni. M.ö.o., nýjar flugvélar, minni tilkostnaður vegna minni bilana, eldri flugvélar, meiri tilkostnaður vegna meiri bilana. Svo einfalt er það mál.

Í sambandi við öryggisþáttinn í fluginu er það kunnugt öllum mönnum, sem hafa viljað vita, að tekið hefur verið upp nýtt kerfi í sambandi við skoðun þessara flugvéla. Áður tíðkaðist það að farið var reglulega yfir allar flugvélar og skipt um tæki eftir ákveðnu kerfi, skipt um tæki, skipt um vélarhluta og annað eftir ákveðnu kerfi. Nú hefur orðið nokkur breyting á þessu og annað kerfi tekið upp sem er þess eðlis að nú er skipt þegar viðkomandi tæki bila. Ég er þeirrar skoðunar að þetta nýja kerfi sé lakara en hið eldra, en það er kostnaðarminna. Það hefur í sjálfu sér ekki meiri hættur í för með sér, en engu að síður er það skoðun mín að með þessu sé öryggi skert vegna skorts á fjármagni.

Vegna orða hæstv. samgrh. verð ég að fagna því að hann tók undir nánast hvern einasta lið þeirrar þáltill., sem hér er til umr. nema þann sem okkur hefur greint á um og að öllum líkindum mun greina á um um ókominn tíma — eða þar til það sannast, sem ég hef haldið fram, að samkeppni af því tagi sem hæstv. samgrh. hefur efnt til fær ekki staðist.

Ég vil minna á það sem hæstv. ráðh. sagði við umr. á síðasta þingi, með leyfi forseta: „Flugleiðir fljúga á þessa staði, þ.e. Amsterdam og Düsseldorf, sem eru tveir af þessum þremur stöðum, aðeins yfir hásumarið, Arnarflug telur sér kleift að bjóða flug á þessa staði allan veturinn. Hér er vitanlega um töluverða útvíkkun að ræða frá því sem þarna hefur verið um að tefla til þessa.“

Hvað hefur nú breyst síðan hæstv. ráðh. sagði þetta? Jú, það hefur breyst, að Arnarflug treystist ekki til þess að fljúga yfir veturinn nema til Amsterdam. Düsseldorfleiðin er dottin upp fyrir.

Síðan sagði ráðh., með leyfi forseta: „Ég geri mér vonir um að í utanlandsfluginu takist að koma fram þeirri stefnu sem skapar samanburð og nokkra samkeppni, en leyfir samt sem áður tveimur flugfélögum að starfa og kippir á engan máta grundvelli undan Flugleiðum.“

Hæstv. ráðh. efndi til þessarar samkeppni og hann stöðvaði hana líka. Hann stöðvaði hana með því að skipta upp flugleiðum. Hæstv. ráðh. sagði hér í ræðu sinni rétt áðan að hann hefði talið að þessi samkeppni væri komin út í öfgar. En hver af talsmönnum frjálsrar samkeppni ætlar að draga þá markalínu sem þarf að draga á milli óheppilegrar og ósæmilegrar samkeppni og þeirrar samkeppni sem er það ekki? Ég held að um þetta muni okkur greina á og, eins og ég sagði áðan, það verði svo þar til það kemur í ljós, sem ég hef sagt hér á þingi og stend ennþá við, að þessi samkeppni gengur ekki og mun ekki ganga.

Ráðherrann fór hér nokkrum orðum um breyskleika Flugleiða í sambandi við stundvísi og annað við brottför héðan af landinu á morgnana, sem hann sagði að væri á tímabilinu 7–7.15, þá færi fjöldi af flugvélum og mikil örtröð skapaðist í flugstöðinni. Auðvitað er þetta rétt.

En af hverju er þetta? Ég hélt nú að hæstv. samgrh. vissi ástæðuna fyrir þessu. Það er verið að reyna að nýta til fleiri flugferða þann litla flugflota sem þetta flugfélag á. Svo einfalt er þetta mál. Þess vegna er morgunninn tekinn snemma. Auk þess vil ég benda á að vegna tímamismunar er það fjöldi manna sem þarf að ná flugvélum skömmu eftir hádegi í öðrum borgum. Heimsborgin er ekki bara Reykjavík eða Keflavík og Kaupmannahöfn annars vegar. Það eru fleiri borgir á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum.

Þá fagnaði ég einlæglega þeirri hugarfarsbreytingu sem hafði orðið hjá hæstv. ráðh. í sambandi við 2. lið till. minnar. Hann sagði nú að sá liður væri bæði athyglisverður og skynsamlegur. En á síðasta þingi sagði hann orðrétt, með leyfi forseta: „Í sambandi við 2. liðinn verð ég að segja að þar finnst mér koma fram æðimikil fávísi hv. flm.“ Hér hefur því greinilega orðið umtalsverð hugarfarsbreyting.

Ég endurtek það að ég fagna þessum undirtektum hæstv. samgrh. og ég vil segja við hann að hann getur lesið það í þingtíðindum að þau snörpu orðaskipti, sem fóru okkar á milli á síðasta þingi í sambandi við þessa till., voru ekki út af till. sjálfri heldur út af þriðja flugfélaginu, sem kom til sögu, og vegna kaupa sem þá fóru fram og ég ætla ekki að gera að umræðuefni núna en gefst kannske tækifæri til að gera síðar.

Ég hef aðeins eitt, herra forseti, að lokum um þetta að segja. Ég endurtek ósk mína um að þessi till. fái skjóta meðferð í nefnd, enda hafi allir ræðumenn, sem um hana töluðu á síðasta þingi og hæstv. samgrh. nú, lýst stuðningi við langflesta liði hennar. Fagna ég því mjög að svo mikill áhugi og svo mikil samstaða skuli hafa tekist á hinu háa Alþingi um jafn veigamikla tillögu.