19.10.1982
Sameinað þing: 4. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

13. mál, stefna í flugmálum

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði að samþykki þessarar till. væri stórlega til bölvunar fyrir Vestfirði. Það er auðvitað rangt. Það er til hagsbóta fyrir Vestfirði að það séu stórar og öruggar flugvélar í förum. Ef það er ekki hægt með góðu móti að komast á milli fjarða er auðvitað flogið til Reykjavíkur. Það er ekki verið að útiloka neitt frá því sem er.

Hann spurði hvað þau þyrftu að hækka mikið í prósentum fargjöldin í innanlandsflugi samkv. þáltill. Það er auðvitað erfitt að svara því. Hitt er annað mál, að það má sýna það með mörgum dæmum og við höfum dæmi um það frá mörgum stofnunum, t.d. frá Hitaveitu Reykjavíkur, að með því að svelta þjónustustofnanir svo að þær fá ekki eðlilegan kostnað greiddan erum við að velta vandanum yfir á framtíðina. Ef við segjum að í dag þurfi að hækka um 10%, en það fæst ekki, þá þýðir það að öðru jöfnu að hækka þyrfti þessa þjónustu um 20% á næsta ári. Það sem frestað er í dag kemur á okkur seinna.

Hv. þm. talaði um að við værum að ganga af Arnarflugi dauðu, ef það fengi ekki heimildir til áætlunarflugs milli landa. Ég vil minna á að það er ekkert land í Evrópu sem treystir sér til þess að hafa tvö flugfélög í áætlunarflugi á milli landa, nema hvað Bretar og Frakkar gera eitthvert lítilræði af því. Meira að segja Norðurlöndin þrjú, skandínavísku löndin, eru með eitt flugfélag í áætlunum á milli landa, fyrir öll löndin, og telja að það sé ekkert vit í því að minnka þessa einingu. Það er einu sinni svo, í þessum rekstri ekki síður en öðrum, og frekar í þessum en flestum öðrum, að hagkvæmni stórrar rekstrareiningar er mjög augljós. Stærri flugvélar eru miklu ódýrari pr. farþega en minni vélarnar. Ef hv. þm. heldur að við séum að drepa Arnarflug með þessu, ef það eða eitthvert annað álíka félag fær ekki áætlunarflug milli landa, hvernig skýrir hann það þá, að áður en Arnarflug fékk þessa áætlunarheimild var verulegur rekstrarafgangur af leigufluginu, verulegur, í tugum milljóna, þrátt fyrir tap á innanlandsfluginu. Hann var í tugum milljóna króna rekstrarafgangurinn hjá þessu að mörgu leyti ágæta félagi. Núna er óttast um rekstrarafkomuna. Það skyldi þó ekki vera vegna þess að það er komið í áætlunarflug á milli landa.

Þessi þáltill. er auðvitað fyrst og fremst tilraun til að búa til opinbera stefnumótun, skynsamlega stefnumótun, í flugmálum, svo að ekki sé verið að breyta henni frá ári til árs. Hvaða vit er í því að halda uppi þeirri stefnumótun fyrir nokkrum árum að sameina flugfélögin til þess að losna við banvæna samkeppni og fara svo að taka upp þessa sömu samkeppni rétt á eftir, bara eftir því hvað ráðh. dettur í hug í það og það skiptið? Auðvitað verðum við að búa til einhverja skynsamlega stefnu í þessum málum og framfylgja henni, ekki hringla með hana fram og til baka öllum til skaða.