25.11.1982
Sameinað þing: 21. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

101. mál, umferðarmiðstöð á Egilsstöðum

Guðmundur Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langa tölu hér um þessa till. Ég vil lýsa eindregnum stuðningi mínum við þetta mál sem ég tel mjög mikilsvert. Það kom fram í máli hv. flm. fullkominn rökstuðningur fyrir þessu og eins hefur hv. þm. Skúli Alexandersson bent á hversu nauðsynlegt er að taka þessi mál til heildarskoðunar yfir landið. Ég vil taka undir það. En það er einn þáttur, sem ég vil sérstaklega vekja athygli á, sem fléttast óneitanlega inn í þessa umræðu. Það eru hinar staðbundnu flugsamgöngur innan héraða. Það hefur mátt lesa um það fréttir nú að undanförnu í blöðum að þessi landshlutaflugfélög, sem við getum kallað svo, eigi í stöðugt vaxandi erfiðleikum með sína starfsemi. Má þar benda á flugfélagið Erni á Ísafirði, sem nú hefur hætt póstflutningum að því að mér skilst, vegna þess að þeir treysta sér ekki til að inna þá starfsemi af hendi fyrir það gjald sem Póst- og símamálastofnun er tilbúin að reiða fram.

Á Austurlandi er starfandi Flugfélag Austurlands. Ég vil halda því fram að starfsemi þess sé gífurlega þýðingarmikil fyrir allt samgöngulíf innan fjórðungs á Austurlandi. Það er nú einu sinni þannig, að Austurland er að nokkru skipt í samgönguleg svæði. Má þar telja Vopnafjörð nokkuð afskiptan og eins suðursvæðið, fyrir sunnan Berufjörð. En það er einmitt einna helst Flugfélag Austurlands sem hefur tengt þetta svæði saman. Ég vil koma því hér á framfæri að hið háa Alþingi hugsi vel um starfsemi þessara félaga og standi þar að baki.

Annað vil ég nefna. Það er varðandi vörudreifingarmiðstöðina á Reyðarfirði. Hún hefur tvímælalaust mjög mikið gildi hvað það varðar að létta undir með versluninni í dreifbýlinu, sem á nú ekki sjö dagana sæla. Það gæti tvímælalaust lækkað mjög mikið vaxtakostnað verslunarinnar að hafa slíka aðstöðu, að geta tollafgreitt varning nær markaði og dreift honum þaðan.

Það voru einna helst þessi atriði sem ég vildi minna á. Ég lýsi svo ítrekuðum stuðningi mínum við þessa till.