30.11.1982
Sameinað þing: 23. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (615)

60. mál, rafvæðing dreifbýlis

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Það verður örstutt ræða út af atriðum sem til mín hefur verið beint í umr.

Hv. 11. landsk. þm. Egill Jónsson, sem hér var að ljúka máli sínu, sagði í sinni fyrri ræðu að honum fyndist að í huga mér væru einhverjar efasemdir um þann þunga sem ég teldi að bæri að leggja á mál þetta. Ég vil reyna að fullvissa hann um að svo er ekki. Það eru engar efasemdir í huga mér um þá þýðingu sem rafvæðing hefur fyrir þetta fólk sem býr við þær aðstæður að hafa ekki rafmagn frá samveitu. Það eru engar efasemdir í huga mér um hvað þetta er mikils virði fyrir það fólk.

Varðandi það, sem hann sagði einnig, að hann ætlaði að sleppa allri umfjöllun um stöðu mála í fjvn. og öllum úrtölum um málið, þá er það rétt hjá honum að ekki er ástæða til að vera hér að fjalla um stöðu í fjvn., en ég vil samt leyfa mér að vera það raunsær í minni hugsun að vera ekki búinn að gleyma því sem ég ræði þar um á morgnana þegar ég kem upp í ræðustól úti í þingi eftir hádegi. Ég held að við eigum að hafa í huga hvernig ástandið er þar. Ég sagði áðan að ég vonaðist jafnan til þess að það næðist samstaða um að lagfæra þetta mál eitthvað svo hægt yrði að þoka málunum í þá átt sem við höfum lagt til í þessari þáltill.

Væri hægt að gera þetta á einu ári væri auðvitað vel. Ég leyfi mér að efast um að svo verði. Það kostaði á áætlun í mars s.l. um 16.5 millj. Við vitum að vísu samkv. upplýsingum frá hæstv. iðnrh. að eitthvað hefur verið unnið nú þegar þannig að nú hefur um hægst, þ.e. að ekki eru eins miklar framkvæmdir óunnar, en auðvitað verður þetta verk miklu dýrara á næsta ári. Upphæðin verður þá auðvitað miklu hærri. (StefG: 19 nú.) 19 nú, segir hv. 1. flm. till.

Hv. 11. landsk. þm. sagði einnig að það væri ekki mikils virði að vera að tína til fjölda notenda til að breyta röð á áætluninni. Ég get fallist á að það hefur kannske ekki mikinn tilgang. Þó er kostnaður á býli frá 300 þús. og upp í 700 þús. á hvert einstakt býli deilt með fjölda notenda. Ég býst því við að það sé nokkurs virði að vita hvað kostar fyrir hvert einstakt býli að tengja það við samveiturnar og þykir ekki ólíklegt að það muni hafa einhver áhrif á röð verkefna, ef ekki tekst að klára þetta allt á næsta ári, sem hann hefur þó látið í ljós að væri auðvelt. Ekki er ég alveg sannfærður um að svo sé, en sjálfsagt væri æskilegt, ef menn dyttu í slíkan sjóð, að geta framkvæmt rafvæðinguna á svo skömmum tíma.

Varðandi þær tvær áætlanir sem ég gat um í minni fyrri ræðu og hv. 4. þm. Vestf. vék að aftur í sinni seinni tölu, þá kann að vera að á þeim sé enginn forgangshraði. Ég býst við að það sé rétt. Þó röð þeirra hafi eitthvað breyst innbyrðis, önnur er dags. 15. maí 1981 og hin 14. apríl 1982 — er ekki þar með sagt að þar sé endilega verið að raða upp í forgangsröð. Þá er það misskilningur hjá mér, hafi ég álitið fyrr að svo væri.

Hv. 4. þm. Vestf. var líka eitthvað að velta fyrir sér í hvaða tilgangi ég hefði spurt um afstöðu hans til þessara mála á árabilinu 1974–1978. Það skal ég segja honum. Það var spurt aðeins vegna þess að hann sagði í sinni fyrri ræðu að hans brtt við afgreiðslu fjárl. s.l. 2 eða 3 ár hefði verið felld af stjórnarliðum. Þess vegna spurði ég um afstöðu hans og annarra stjórnarliða á því árabili. Hvaða tilgangi það þjónaði í umr.? Það má kannske liggja á milli hluta. Það var spurt fyrir forvitni sakir af minni hálfu. Sjálfsagt hefur stundum verið spurt óviskulegar og um eitthvað sem hefur verið fjær umr. en þessi spurning (ÞK: Var þessu ekki samviskulega svarað?) Jú, ég ætlaði að þakka hv. þm. fyrir það svar sem hann gaf mér. Hann taldi að á þessum árum hefði einmitt mest átak verið unnið í sveitarafvæðingunni. Kann það vel að vera. Ég verð að játa vanþekkingu mína í því sambandi. Ég ætla ekki að rengja hann. Mig langar samt til að segja honum og öðrum stutta sögu. — Ég vona að það taki ekki of langan tíma.

Á framboðsfundum fyrir kosningarnar til Alþingis 1979, þegar ég fór fyrst að hugleiða þessi mál verulega í alvöru, var ég á fundi austur á Melrakkasléttu, þar sem þessi mál brenna heitt á ýmsum ábúendum jarða. Þeir lögðu mikla áherslu á að þessum málum yrði fylgt fram. Á svipuðum fundi næsta vor, eftir að ég hafði setið á þingi frá því í desember 1979 og fram til vors 1980, var ég að því spurður hvað ég vissi um málið. Ég gaf þær upplýsingar að ég hefði fengið þau svör hjá orkuráði að nú væri þetta allt í rétta átt. Þetta væri komið í forgangsröðun og lína til þeirra væri á þriðja áfanga í áætlun orkuráðs. Þá vildi svo til að þeir þar austur frá hlógu að mér og sögðu að ég hefði líklega ekki spurt hversu lengi það verk væri búið að vera á þriðja áfanga og hversu langan tíma tæki að framkvæma. Þeir afhentu mér bréf, sem ég vitnaði til áðan, með undirskriftum 9 eða 10 aðila sem höfðu skorað á orkuráð að hraða framkvæmdum. Bréfið er dags. 27. okt. 1977 og ég er með það fyrir framan mig, þeir sögðu mér að þá hefðu þeir fengið það ágæta svar að þetta væri allt að koma, þetta væri á þriðja áfanga. Hvort það hefur verið á þriðja áfanga á áætlun hjá orkuráði öll árin, frá 1974–1978, veit ég ekki. Það fylgdi ekki með. En ég vildi aðeins að þetta kæmi hér fram.