20.10.1982
Neðri deild: 4. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

26. mál, Olíusjóður fiskiskipa

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er nú kannske ekki ástæða til við 1. umr. um þetta mál að eyða löngum tíma í það. Það skal ekki heldur verða gert af minni hálfu, þar sem ég á sæti í þeirri nefnd sem kemur til með að fjalla um málið. Það eru þó tiltölulega fá atriði sem ég vildi aðeins víkja hér að.

Ég vil taka undir það, sem fram kom áðan hjá hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, að það skýtur nokkuð skökku við að þessi brbl., sem útgefin eru mánuði á eftir hinum fyrri, sem menn kalla nú aðalbrbl., skuli koma til umr. á þessum tíma, svo að segja strax á fyrstu dögum þingsins, en ekki er að sjá að neitt bóli á aðalmálinu sem um er að ræða, þ.e. brbl. um efnahagsráðstafanir, sem menn kalla svo, sem í raun og veru eru svo sem engar nema kaupskerðingin. Og það er ástæða til þess að spyrjast fyrir um það, hæstv. sjútvrh., aðrir eru víst ekki hér af hæstv. ráðh. — (Gripið fram í: En Tómas?) Jú, hæstv. viðskrh., fyrirgefðu. Ég spyr þá hæstv. viðskrh. líka og ætlast til að hann svari, fyrst hann biður um að hann sé spurður: Hvað líður framlagningu brbl. um efnahagsráðstafanirnar? Hæstv. ráðh., báðir tveir: Er ekki þess að vænta að menn fari að sjá það plagg hér á borðum þannig að menn geti í raun og veru farið að ræða um efni þess á þeim stað sem það á að ræða á? (Viðskrh.: Það veit forsrh.) Hæstv. viðskrh. bað um spurninguna og hann biðst greinilega undan því að svara henni þá. (Gripið fram í: Hann vill ekki svara henni.) Viljann hefur lengst af vantað í þeim herbúðum. Ef engin svör fást við þessu er auðvitað augljóst hvað er á ferðinni. (Gripið fram í: Hvað er það?) Það er fyrst og fremst það, að hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkar koma sér ekki saman um hvernig það mál skuli afgreitt hafa ekki meiri hl. til þess að afgreiða það eins og þeir vildu gjarnan gera það. A því strandar málið. Kannske upplifum við kaupskerðingu 1. des. útgefna með brbl. án þess að meiri hl. Alþingis sé fyrir hendi til að staðfesta slíkt. Það væri vissulega upplifun að sjá framan í þm. Alþb. eftir að hafa staðið þannig að málum. — Er hv. skrifari að yfirgefa salinn? — En væntanlega fara mál að skýrast að því er þetta varðar.

Ég vil taka undir það, sem hv. þm. Matthías Bjarnason sagði einnig, að ekkert samráð var haft við stjórnarandstöðuna í sambandi við það mál, sem hér er nú til umr., og hæstv. sjútvrh. lét ekki svo lítið, það ég best veit, að láta þm. í té þessi brbl., sem út voru gefin 21. sept. Hæstv. ráðh. hafði ekki svo mikið við. Það má þó hæstv. forsrh. eiga að hann sendi hin lögin, a.m.k. fékk ég þau í hendur. (Gripið fram í: Ekki allir.) Ekki allir, nei. Það er úrvalið líklega.

Hæstv. sjútvrh. talaði mikið um það áðan, eins og raunar allir ráðh. gera nú og stjórnarliðið í heild, að allt það sem nú væri verið að gera væri vegna stórkostlegs aflabrests, þrátt fyrir þá staðreynd að árið í ár er annað eða þriðja aflahæsta ár sem komið hefur í sögu þjóðarinnar, og öll þau vandkvæði, sem nú eru fyrir dyrum og fyrirsjáanleg, eiga að þeirra dómi að vera vegna þess, sem er auðvitað alrangt. Meginorsök þess vandamáls, sem þjóðin stendur nú frammi fyrir, er auðvitað kolvitlaus stjórnarstefna. Meginorsökin er sú og það er yfirklór af hálfu hæstv. ráðh. og stjórnarliða að telja alla orsökina vera vegna aflabrests, þegar það liggur fyrir að um er að ræða eitt af tveimur eða þremur aflabestu árum sem þjóðin hefur upplifað. Það er því ástæða til að undirstrika það sérstaklega, að þau brbl., sem hér er verið að ræða, og ekki síður hin, sem væntanlega fást rædd innan ekki langs tíma um efnahagsaðgerðir, eru vegna rangrar stjórnarstefnu í efnahagsmálum.

Hæstv. ráðh. sagði áðan að það hefði þurft að grípa til aðgerða til að rétta við halla útgerðar. Út af fyrir sig er það rétt. Það er búið að lofa útgerðinni því alla sjútvrh.tíð núverandi hæstv. ráðh. að rétta hennar hlut, en sáralítið hefur miðað í þá átt. En hæstv. sjútvrh. og hæstv. ráðh. aðrir hafa gleymt að tala um að rétta við halla heimilanna í landinu. Það er ekki síður ástæða til að huga að því hvernig rekstur heimilanna í landinu gengur heldur en t.d. útgerðarinnar og annarra aðila, en á það minnast ekki hæstv. ráðh.

Varðandi þetta mál er auðvitað einvörðungu um að ræða enn eina bráðabirgðalausnina í þessum efnum — bráðabirgðalausn sem kemur til með að standa í 2–3 mánuði og þá er allt málið aftur í hnút. Það liggur a.m.k. fyrir, að sjómannasamtökin eru farin að ókyrrast. Ég hygg að ég muni það rétt að hæstv. sjútvrh. hafi lofað sjómannasamtökunum enn eina ferðina að sjá til þess að olíugjaldið svokallaða verði a.m.k. lækkað ef ekki fellt niður um n.k. áramót. Það er því ástæða til að spyrja, þegar þessi mál ber á góma hér og nú: Hvað er að gerast í sambandi við þau málefni, um lækkun eða jafnvel niðurfellingu á hinu margumtalaða olíugjaldi til fiskiskipa, eins og ráðh. hefur lofað?

Ég held, og það er rétt að komi fram í þessum umr., að það sé kominn tími til þess fyrir stjórnvöld að athuga sinn gang í þeim efnum sem að útgerðinni snúa og raunar öðrum atvinnurekstri, og þá á ég við þá reglu sem virðist vera við lýði um meðaltalsútreikninginn. Í raun og veru virðist ekkert fyrirtæki í þjóðfélaginu, hvorki í útgerð, fiskvinnslu, verslun né neinum öðrum atvinnugreinum, það illa rekið að það fari á hausinn. Það má segja að það sé lögbannað að menn fari hér á hausinn, hvernig sem þeir reka fyrirtæki. Ég held að ein af meginmeinsemdunum að því er þetta mál varðar, stöðu útgerðar og aðgerðir til að koma í veg fyrir að öngþveiti komi upp með tveggja eða þriggja mánaða millibili, sé að dregist hefur að endurskoða þetta grundvallaratriði og reikna ekki alltaf út frá ákveðinni meðaltalstölu sem fundin er.

Eins og hér kom fram áðan er í 2. gr. þessa frv. og brbl. gert ráð fyrir að Olíusjóði sé heimilað að taka 30 millj. kr. lán og ríkisstj. er heimilt að veita sjálfskuldarábyrgð fyrir láninu. Hvað þýðir þetta í raun og veru? Þýðir þetta ekki einvörðungu að það er ríkissjóður sem ætlar að borga þetta? Ef það þýðir það, sem ég tel raunar víst, af hverju eru menn þá með þennan feluleik, af hverju er það þá ekki ríkissjóður sem tekur þetta lán og setur það í sjóðinn í staðinn fyrir að vera með þessa blekkingu, ef það er á annað borð meiningin að ríkið taki þetta lán og borgi það? Hv. þm. Matthías Bjarnason spurðist fyrir um þetta og ég tek undir þá fsp. og ítreka hana. Er ekki í raun og veru verið að bjóða upp á að ríkissjóður sjálfur standi skil á þessum peningum?

Herra forseti. Ég heyri að hv. þm. Garðari Sigurðssyni, formanni sjútvn., er farið að leiðast undir þessari umr. og enginn skyldi verða hissa á því, enda skal ég ekki hafa um þetta öllu fleiri orð á þessu stigi máls. Það kemur væntanlega að því síðar, eftir að nefnd hefur fjallað um málið, að tilefni gefst til að ræða það frekar. Ég er í sjálfu sér ekki að lýsa andstöðu við þetta mál, eins og málum er komið og það í pott búið, en ég ítreka að hér er enn ein bráðabirgðalausnin á ferðinni — bráðabirgðalausn sem er fyrst og fremst af orsökum rangrar stjórnarstefnu í efnahagsmálum hjá hæstv. ríkisstj. (PS: Rangri ríkisstj.) Rangri ríkisstj., segir hv. þm. Pétur Sigurðsson. Það má rétt vera. Auðvitað er það mál málanna, að ríkisstj., sem þannig hefur teflt málum þjóðarinnar nánast í það foræði sem þau eru í í dag, víki og við taki heilsteypt stjórnarstefna, sem er þess megnug að leiða þjóðina út úr þeim vítahring sem stjórnarstefna núv. ríkisstj. hefur leitt hana í.