02.12.1982
Sameinað þing: 24. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (634)

64. mál, umferðaröryggisár

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Spurt er hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar af hálfu yfirvalda til að auka öryggi í umferðinni í tilefni norræna umferðaröryggisársins 1983. Eins og kunnugt er var að tillögu Norðurlandaráðs ákveðið að helga árið 1983 umferðaröryggi á Norðurlöndum. Í byrjun þessa árs fól dómsmrn. umferðarráði að sjá um undirbúning vegna þessa. Er fsp. sú, sem hér er til umr., kom fram var fengin greinargerð frá umferðarráði og er hún svohljóðandi með leyfi hæstv. forseta:

Með bréfi dómsmrn. dags. 18. jan. s.l. til umferðarráðs ákvað rn. að hafinn yrði undirbúningur norræns umferðaröryggisárs 1983. Var umferðarráði falin umsjón þessa verkefnis í samráði við rn. Var þess óskað að leitað yrði sem víðtækastrar þátttöku stofnana, samtaka og annarra aðila í þjóðfélaginu sem ætla má að stuðlað geti að auknu umferðaröryggi með einum eða öðrum hætti. Samráð skyldi haft við norræna undirbúningsnefnd umferðaröryggisársins og undirbúningsnefndir annars staðar á Norðurlöndum. Norrænu umferðaröryggisári er ætlað að auka öryggi vegfarenda og vekja fólk til umhugsunar um þátt hvers og eins í umferðinni. Sérstök áhersla skal lögð á vandamál svokallaðra óvarðra vegfarenda, þ.e. gangandi manna og hjólandi, og hvað þeir ásamt bifreiðastjórum geta gert til þess að koma í veg fyrir umferðarslys.

Í framhaldi af bréfi rn. sendi umferðarráð bréf dags. 5. febr. s.l. til kynningar á norrænu umferðaröryggisári. Var bréf þetta sent á fjórða hundrað aðilum, stofnunum, samtökum og einstaklingum og reynt að sjá svo um að engar stofnanir eða félagasamtök, sem hugsanlega gætu lagt hönd á plóg, yrðu út undan. Var þar hvatt til þess að allir þeir, sem hlut eiga að máli, íhugi með hverjum hætti þeir geta hver fyrir sig eða í samvinnu við umferðarráð eða aðra aðila stuðlað að bættu umferðaröryggi hér á landi á árinu 1983. Til að tryggja sem best samræmingu og samhæfingu aðgerða var þess óskað að umferðarráði yrði gerð grein fyrir hugmyndum og tillögum sem fram koma og yrði síðan haft nánara samráð við viðkomandi aðila.

Jafnframt þessu var dómsmrn. sent bréf þar sem sagði: Augljóst er að undirbúningur norræns umferðaröryggisárs 1983 er tímafrekt starf sem ekki má bitna á almennu starfi umferðarráðs eða fjárveitingum til þess. Brýna nauðsyn ber því til þess að umferðarráði verði veitt í ár sérstakt fjárframlag í þessu skyni. Rík áhersla er lögð á að eigi verði hjá því komist að ráða þegar í stað starfsmann, er sinni verkefni þessu, auk þess sem leggja þarf í annan kostnað til þess að vænta megi árangurs hér á landi af sameiginlegu norrænu átaki til að afstýra umferðarslysum. Með tilvísun til framanritaðs fer umferðarráð þess hér með á leit við rn. að það hlutist til um að veitt verði viðbótarframlag til ráðsins á þessu ári sem nemur 50 þús. kr. vegna undirbúnings norræna umferðaröryggisársins 1983.

Þessu erindi var svarað með bréfi fjárlaga - og hagsýslustofnunar dags. 23. mars s.l. þar sem tilkynnt var að ákveðið hefði verið að heimila aukafjárveitingu að fjárhæð 100 þús. kr. í þessu skyni.

Hugmyndir og tillögur hafa borist frá ýmsum aðilum er lýsa sig reiðubúna til samstarfs en ljóst er að fjármagn þarf að vera fyrir hendi til aðgerða. Við gerð fjárlagatillagna umferðarráðs var einnig farið fram á 1500 þús. kr. til framkvæmda norræns umferðaröryggisárs 1983 og voru þar með áætluð laun eins starfsmanns. Í greinargerð með tillögunum sagði: Án sérstakrar vænnar fjárveitingar og starfsmanns er helgað getur sig þessu starfi er borin von að ætlast til að einhver mynd verði á framkvæmd þessa merka máls.

Svar við þessu erindi kemur fram í frv. til fjárlaga fyrir árið 1983. Eru umferðarráði þar ætlaðar 2 498 þús. kr. og eru þar af 500 þús. kr. veittar vegna norræns umferðaröryggisárs. Fram komnar hugmyndir og tillögur hafa verið til athugunar í umferðarráði og framkvæmdanefnd þess. Er unnið að því að fastmóta þær miðað við knappan fjárhag en aðgerðir allar hljóta óhjákvæmilega að mótast af því fjármagni sem til ráðstöfunar verður. Er gert ráð fyrir að umferðarráð ljúki tillögugerð um þetta efni á næstu vikum.

Gert er ráð fyrir nánu samstarfi umferðarráðs við skólayfirvöld og löggæslu, fjölmiðla, svo sem útvarp og sjónvarp, sveitarstjórnir, tryggingafélög og ýmis samtök, fyrirtæki og stofnanir sem starfa að umferðarmálum og umferðaröryggi. Bryddað verður upp á ýmsum nýmælum í umferðarfræðslu en að öðru leyti er byggt á hefðbundnum aðgerðum og þær tengdar umferðaröryggisárinu, m.a. með því að nota merki ársins til hvatningar og umhugsunar. Áhersla verður lögð á tillitssemi af hálfu allra vegfarenda, málefni gangandi manna og hjólandi og notkun bílbelta.

Umferðarráð hefur ritað útvarpsráði og leitað aukins samstarfs á umferðaröryggisárinu. Af hálfu menntmrn. eru fyrirhugaðar teikni- og ritgerðasamkeppnir um umferðarmál í grunnskólum. Þá hefur dómsmrn. komið á fót starfshópi lögreglumanna til að vinna að undirbúningi og framkvæmd samræmdra aðgerða lögreglunnar í landinu. Gengið er út frá því að það norræna efni, sem í undirbúningi er, m.a. fyrir sjónvarp, verði notað hér. Er þar um að ræða stutta kvikmynd um vandamál ungra vegfarenda og fjóra stutta innskotsþætti er fjalla um ökumenn bifhjóla, hjólreiðamenn, gangandi vegfarendur og aldraða í umferðinni. Er þess að vænta að það efni henti miðað við íslenskar aðstæður. Fyrirhugað er að halda á árinu ráðstefnu um umferðarmál og umferðaröryggi, svo og norræna ráðstefnu læknasamtaka um umferðarmál. Ýmislegt annað mun og verða gert til að minna á umferðaröryggisárið beint eða óbeint og hvetja til umhugsunar um umferðaröryggi.

Þetta var greinargerð umferðarráðs dags. 9. nóv. Síðan hefur umferðarráð haldið undirbúningi áfram og á fundi í ráðinu 18. nóv. voru kynntar ýmsar tillögur og hugmyndir um viðfangsefni og aðferðir í tilefni umferðaröryggisársins svo og drög að dreifingu áhersluatriða á einstaka mánuði ársins. Tillögur þessar koma á ný til meðferðar umferðarráðs fyrir miðjan des.

Þessar tillögur hef ég kynnt mér og kennir þar margra grasa. Af einstökum atriðum, sem fyrirhuguð eru auk þess sem nefnt er í þeirri greinargerð sem ég hef þegar rakið, má nefna að haldnar verða ráðstefnur um umferðarmál og umferðaröryggi, svo sem um aldraða í umferðinni í janúar í kjölfar árs aldraðra í samráði við Öldrunarráð Íslands, um skipulagsmál og umferð í febrúar í samstarfi við Samband ísl. sveitarfélaga og við skipulagsyfirvöld. Einnig er fyrirhuguð ráðstefna um ökukennslu í samstarfi við Ökukennarafélag Íslands. Norræn ráðstefna læknasamtaka um umferðarmál verður haldin í ágústmánuði. Þá verða umferðarnefndir sveitarfélaga gerðar enn virkari og komið á umferðarvitum í einstökum sveitarfélögum. Enn má nefna að leitað verður eftir því að listamenn taki umferð og umferðaröryggismál sérstaklega til meðferðar.

Ýmislegt fleira er á döfinni hjá umferðarráði sem hér verður ekki upp talið og enn er í mótun. Er umferðarráð enn opið fyrir hugmyndum og tillögum, er stuðlað geta að auknu umferðaröryggi á norrænu umferðaröryggisári, og fagnar sérhverju framlagi í því efni.

Eins og fram hefur komið hljóta allar aðgerðir á vegum umferðarráðs eða annarra að mótast af því fjármagni sem til ráðstöfunar verður. Fulltrúar umferðarráðs hafa nýlega gengið á fund hv. fjvn. og gert henni grein fyrir nauðsyn þess að auknu fjármagni verði veitt til ráðsins vegna umferðaröryggisársins. Hefur umferðarráð lagt á það áherslu í erindi til nefndarinnar að til þess að norrænt umferðaröryggisár verði annað og meira en nafnið eitt sé nauðsynlegt að ná fram sameiginlegu átaki allra þjóðfélagsþegna. Til að ná slíku marki telur umferðarráð brýna nauðsyn að það hafi tök á að ráða sérstakan starfsmann til að vinna að umfangi verkefna og tengslum við félög, stofnanir og almenning. Jafnframt sé nauðsynlegt að stofna til útgjalda við útgáfu fræðsluefnis prentaðs og í myndformi. Til þess að svo geti orðið þurfi að hækka fjárveitingu þá sem ráðinu er ætluð í fjárlagafrv.

Umferðarráð er fáliðuð stofnun. Þrátt fyrir það hefur þar margt verið vel gert til að vinna að bættri umferð og umferðaröryggi. Á norrænu umferðaröryggisári er nauðsynlegt að styrkja þá stofnun svo að hún geti gegnt forustuhlutverki í sameiginlegu átaki allra landsmanna til aukins umferðaröryggis. Á þessu er ekki vanþörf eins mikill bölvaldur og umferðarslysin eru í þjóðfélagi okkar.

Ég fagna því að þessi umr. hefur farið fram og vænti þess að hún verði til að stuðla að aukinni umræðu um umferðaröryggi og vandamál umferðarinnar og að hv. alþm. styðji óskir um aukið fjármagn til að standa að aðgerðum á norrænu umferðaröryggisári.