02.12.1982
Sameinað þing: 25. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (653)

45. mál, stefnumörkun í húsnæðismálum

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að verða langorður um þessa þörfu till. Þó er það mjög athyglisvert við svona mikilvægt mál að mér sýnist að í þingsölum sitji mikill meiri hluti aukaþm., eins og ég hef áður kallað okkur sem erum varaþingmenn, en aðeins tveir aðalþingmenn, og sýnir það raunverulegan áhuga fyrir jafnmikilvægu máli þegar sex varaþingmenn hlýða á ræðu, en ekki aðrir og enginn hæstv. ráðh. Þetta hefur þó verið í gegnum tíðina eitt þeirra mála sem hvað mestu varða, eins og frsm. benti á, hverja fjölskyldu í landinu. En stundum er það ekki þess virði að fylgja eftir áhugamálum sínum og orðum, heldur leggja aðeins fram till. til að sýnast og láta þar við sitja.

Það merkilega skeði hjá flm. og frsm. þessarar ágætu till., að í framsögu hans er fullt af mótsögnum og í till. líka. Má aðeins benda á hversu ónákvæmlega er í málið farið. Með leyfi forseta vil ég lesa upphaf till.:

„Alþingi ályktar að sú stefna verði lögð til grundvallar í húsnæðismálum, að sérhverri fjölskyldu verði gert kleift að eignast og búa í eigin húsnæði.“

Stórkostleg setning þetta. En hvað segir þetta? Á húsnæðið að vera 70 m2, 200 m2 eða eins og suður í Garðabæ núna 400 m2? Og hvað á það að kosta? Síðan er lagt til að lána 80%. Gerið svo vel og byrjið að byggja. — Hvaða tekjur þurfa menn nú að hafa á Íslandi til að standa undir svona? Ekkert kom fram um að það væri nein vitglóra í þessu. Það eru ekki nema sérstakir tannlæknar og ónefndir aflaskipstjórar sem geta staðið undir þessu. Engir venjulegir þm. hafa t.d. þessi laun. Ekki er minnsti möguleiki að lána 80% út á svona húsbyggingar. Menn verða að vera eilítið nákvæmari í framsögn, er mín afstaða og skoðun á málinu, ef menn eru að meina eitthvað með því sem þeir eru að segja. Hugmyndin er ágæt svo langt sem hún nær, en hún er bara óframkvæmanleg. Hún er svo einföld. Hún er gersamlega óframkvæmanleg.

Auðvitað mætti benda á þversagnir í bæði tillögugerðinni og grg. Tökum aðeins einn lið: „5. Framlög ríkissjóðs til Byggingarsjóðs verði ekki minni en sem svarar einu launaskattsstigi.“ Tökum lið 13: „Kannaðar verði leiðir til þess að lækka byggingarkostnað, m.a. með lækkun aðflutningsgjalda á byggingarefni, lækkun launaskatts“ — Við hvað á að miða ef búið er að afnema launaskattinn? — „og aðstöðugjald.“ Það hefur verið krafa frá atvinnulífinu og var við henni orðið, og það er gagnrýnt á bls. 3, að launaskattur væri lækkaður. Svo varð eftir mjög hörð átök, eins og segir í grg. Ég þarf ekki að lesa ef hv. þm. vilja líta á þetta. Á sínum tíma var stórmál að koma launaskatti á. Ákveðnir aðilar í þjóðfélaginu hafa æ ofan í æ gagnrýnt samkomulagið sem gert var við verkalýðshreyfinguna á sínum tíma til lausnar á viðkvæmu deilumáli og kjarasamningum og hefur verið Byggingarsjóði ríkisins gífurleg búbót lengi. Svo eru til hörku sjálfstæðismenn sem segja: Burt með þetta allt saman. Aðrir segja: Miðum við og leggjum fram eitt stig a.m.k. — Er þetta nokkur mótsögn í sjálfu sér? Ég kann ekki við svona málflutning. Af því að menn eru hér með gott mál verða menn að halda sig við jörðina og koma með tillögur sem eru raunhæfar og duga sem lausn.

Ef við viljum standa að því að gera unga fólkinu, sem er að byggja í fyrsta skipti, mögulegt að byggja yfir sig verðum við að hafa þor til þess að segja: Við lánum út á íbúðir sem eru 70, 90, 110 eða 120 m2 stórar og ekki krónu fram yfir. Það sem fram yfir er skuluð þið fjármagna sjálf. — Það væri þá raunar lausn og þá væri myndarlega gert við þetta fólk. Það hafa margar aðrar þjóðir gert. Það má kalla það sósíalisma eða hvað sem vera skal. Ég hef undir höndum viðamikla skýrslu frá Danmörku um 50 ára sögu lánasjóðskerfis þar. Þar þorðu menn að taka afstöðu til þess hvað á að lána og ekki lána. En hér er slegið fram: Gerið þið svo vel og byggið. Við lánum 80%. — Ég tel að svona málflutningur þjóni engum, þó að ég styðji þessa stefnumörkun, nema við séum svo ákveðnir að við þorum að segja hvað við viljum og hvað við ætlum að fara að gera, en gerum ekki eitthvað annað.

Hv. frsm. kom að því að í deiglunni væru tvær þjóðir í þessu landi. Þeir sem hefðu byggt og búa í eigin íbúð lifðu öðruvísi en hinir sem væru að byggja núna. Þetta getur vel verið. Ég þekki ekki svo vel til að það sé hægt að staðhæfa þetta. Hann hlýtur að þekkja það miklu betur en ég. Ég dreg þetta samt mjög í efa. Hins vegar er rétt að vek ja athygli á að ríkisvaldið, og þar með hv. Alþingi, og bæjarfélög hafa í sívaxandi mæli gert erfiðara fyrir fjölskylduna, eins og hann drap þó nokkuð á, og kunningja að hjálpast að um að byggja. Og í hverju eru þeir erfiðleikar fólgnir? Þeir eru fólgnir í því, að það er alltaf krafist meiri og meiri réttinda, fleiri og fleiri pappíra og gífurlegt eftirlit og vesen fylgir þannig að þetta er að verða öllu venjulegu fólki bókstaflega ofviða. Það má gagnrýna þetta. Mér fannst að till. gerði það að hluta. En ég vil herða á þeirri gagnrýni. Í því plássi sem ég kem frá og dvaldist í fram yfir miðjan aldur hjálpuðust menn mjög að við að byggja yfir sig með góðum árangri. Þau hús standa vel fyrir sínu. En hér a.m.k. á þéttbýlissvæðinu og viða annars staðar á stærri stöðum er þetta orðið vonlaust verk lengur. Það verða allir pappírar að fá hina bestu uppáskrift hinna bestu sérfræðinga og hvað það nú heitir og ekkert dugar þó til. Ef samt koma fram einhver mistök er enginn ábyrgur fyrir þeim eftir alla þessa uppáskrift nema sá sem er að byggja og á að borga brúsann. Ábyrgðin er ekki meiri þegar á reynir.

Það mætti fjalla hér um margt annað, en vegna þess að það er bæði áliðið dagsins og fáir í salnum ætla ég ekki að eyða miklum tíma í það. Hitt kemur mér nokkuð undarlega fyrir sjónir, sem ég sé á bls. 4, og mér fannst liggja í því að núv. fjmrh. ætti þar nokkra sök á, en það er um skattalögin í þessu ágæta landi. Ég var á þinginu fyrir fjórum árum og þá var fjmrh. Matthías Á. Mathiesen. Hann er að vísu ekki flm. að þessari till., en hann var fjmrh. þá og hvolfdi við öllum skattalögum á Íslandi. Ég held að það sé rétt munað hjá mér, að samkv. nýju lögunum mega menn velja á milli hvort þeir telja fram meiri háttar viðgerðir og láta skjöl fylgja sínum framtölum eða áætla vissa upphæð. Hæstv. núv. fjmrh. ber ekki neinar sakir í því efni á baki sér, að mínu mati. Og það er alls ekki rétt, eins og frsm. sagði, að skattkerfið, þó erfitt sé, vilji ekki hlusta á neitt í því efni. En það getur vel verið að það sé þungt í vöfum og strangt. Ég er inni á því, að þegar menn gera átak til viðhalds á sínu húsi, og er alveg rétt hjá frsm. að slíkt verður að eiga sér stað, eigi að fylgja skjöl um allt sem gert hefur verið. Þá er sanngjarnt að hafa það frádráttarbært að mestu eða alveg. En ekki er ég sammála því sem hann var að gagnrýna og taldi vanta. Því væri miklu erfiðara að koma við. Ég tek ekki undir þá gagnrýni. Ég held einnig að ásökun hans á hendur núv. hæstv. fjmrh. hafi verið byggt á misskilningi.

Í grg. er staðhæfing sem ég kann varla við að standi öðruvísi en málinu sé þá betur fylgt eftir. Með leyfi forseta stendur:

„Vitað er að mikið er um það, að viðgerðir á mannvirkjum eru ekki gefnar upp til skatts þar sem greiðandi hefur engan hag af því. Hér er því um að ræða að uppræta skattsvik í þjóðfélaginu.“

Það er ágætt að setja svona setningar í þskj., en ég vil ekki standa að þvílíku því slíkt er ásökun á vissa starfsstétt í landinu og því verður að finna stað. Það getur vel verið að einhver brögð séu að þessu, en að lýsa þessu svona fortakslaust yfir, og það af fjölda þm., tel ég nokkurn ábyrgðarhluta.

Ég gæti gagnrýnt ýmislegt fleira í þessari ályktun þó að efnislega sé hún mjög góð. Við getum sjálfsagt allir staðið efnislega að því að gera stærra átak í húsnæðismálum, en það verður að hafa ákveðið samræmi í því átaki og framkvæmanlegt sé að standa við slíkt.

Í ályktuninni segir í upptalningu: „Leitað verði eftir frjálsu samstarfi við lífeyrissjóði í landinu um fjármögnun húsnæðislána.“ Hv. þm. Sverrir Hermannsson sagði á sínum tíma að nauðsynlegt væri að ríkisvaldið réði yfir allt að helmingi af þessu fjármagni. Nú kemur annar ungur þm. og segir: Frjálst samkomulag. — Þannig eru mótsagnir í till. alltof miklar. Auðvitað geta menn skipt um skoðun, það er allt í lagi, og fundist að allt eigi að vera frjálst, en þá skulum við ekki vera að leiða í lög að það sé alger skylda ríkisvaldsins að lána 80% og án þess að taka nokkuð fram um hvað íbúðin á að vera stór eða hvað hún á að kosta. Það er mjög misjafnt hvað íbúð kostar, jafnvel þó að hún sé af sömu rúmmetrastærð, vegna hégómlegrar kröfu um hvað á að vera í eldhúsi, hvað á að vera í anddyri og hvað á að vera í baðherbergi. Ég tek undir þá skoðun að staðla íbúðir, en setjum þá fram hvernig við ætlum að staðla.