02.12.1982
Sameinað þing: 25. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

101. mál, umferðarmiðstöð á Egilsstöðum

Flm. (Sveinn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka þeim hv. þm. sem hér hafa komið og talað og tjáð stuðning sinn við þá till. sem hér er fram borin.

Það er fullkomlega rétt ábending sem hv. 1. þm. Austurl. Guðmundur Gíslason kom hér að varðandi Flugfélag Austurlands. Till. þessi og minn málflutningur náðu að vísu ekki til þess þáttar í samgöngumálum okkar Austfirðinga. sá þáttur, sem Flugfélag Austurlands þjónar þar, er trúlega einn af þeim allra mikilvægustu í okkar byggðamálum. Í rauninni er það forsenda þess að byggð haldist á sumum þessum stöðum að við getum haldið uppi þeim flugsamgöngum sem við höfum þó barist við að halda uppi á undanförnum árum. Ég segi „barist við“ því að þetta litla flugfélag hefur orðið fyrir verulegum áföllum og tapað sínum flugvélum á undanförnum árum, en á nú tvær litlar vélar sem þó þjóna sínu hlutverki mjög vel.

Rekstursmöguleiki þessa fyrirtækis, sem Flugfélag Austurlands er, er enginn. Velta fyrirtækisins er ekki meiri en svo, að hún rétt stendur undir reksturskostnaði og ekki er til króna umfram það til að standa skil á þeirri fjárfestingu sem í vélunum liggur. Það segir sig náttúrlega sjálft að slík starfsemi getur varla gengið til lengdar og það hlýtur að koma að því að þm. og einhverjir aðrir þurfi að taka verulega alvarlega á þessu máli. Ég verð að viðurkenna að mér er ekki fyllilega kunnugt um það í rauninni hvernig þessu máli er komið, en mér er þó tjáð að það sé að sigla í mikið óefni og spurning um hversu lengi flugreksturinn geti haldið áfram.

Ég ítreka að flugfélagið er ein af aðalforsendum þess að byggðin haldist á sumum þeirra staða sem eru í mikilli einangrun fyrir austan. Það verður kannske best skýrt þegar maður nefnir að svo daglegar nauðsynjar sem mjólk og brauð eru fluttar til staðanna með þessum vélum oft í viku. Þetta er lífæð, má segja, fyrir hin litlu byggðarlög. Auk þess er þarna séð fyrir öllum póstflutningum og öðru slíku, sem menn hafa þó lengi sætt sig við að vera án og lengi búið við lélega þjónustu á því sviði.

En ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég ítreka þakklæti mitt og lýsi von minni um að þetta mál og þau mál sem þm. Vesturl. hafa flutt hér inn í þingsali og nefnd voru í framsöguræðu nái öll fram að ganga og þm. geti sameinast um að sinna þessu mjög svo brýna og bráða verkefni fyrir landsbyggðina alla.