07.12.1982
Sameinað þing: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 995 í B-deild Alþingistíðinda. (726)

269. mál, verðmyndunarkerfi landbúnaðarins og endurskoðun útflutningsbótakerfisins

Fyrirspyrjandi (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Áður en ég geri þessa örstuttu aths. vil ég í tilefni af ummælum hv. þm. Péturs Sigurðssonar vekja athygli á því, að í 32. gr. þingskapa er kveðið á um það, að ráðh. hafi 10 mínútur til að fala tvisvar til svara við fsp. og fyrirspyrjandi 5 mínútur til að tala tvisvar. Hins vegar hefur þessu ákvæði verið beitt þannig hér í dag, að eingöngu fyrirspyrjandi hefur verið áminntur um að hann hefði einungis heimild til að gera örstutta aths., þegar hann hefur beðið um orðið á eftir. Ráðh. hefur hins vegar fengið að tala án slíkra fyrirmæla. Ég vil spyrja hæstv. forseta: Er það ekki þannig, að þessar reglur í 32. gr. nái bæði yfir ráðh. og hv. fyrirspyrjanda? Ég biðst ekkert undan því að ég sé beittur þeirri reglu að gera bara örstutta aths., en óska þá eftir því að sú regla sé líka látin gilda gagnvart hæstv. ráðh. samkv. þessari grein.

Ég vil aðeins í lok umr., sem orðið hafa vegna fsp. minnar, vekja athygli hæstv. landbrh. á því, að talsmenn allra flokka, sem þátt hafa tekið í þessari umr., hafa lagt ríka áherslu á að hér væri um víðtækt vandamál að ræða, sem þyrfti að skoða mjög gaumgæfilega. Ég vona að þessi umr. verði til þess, að hæstv. landbrh. skipi þá nefnd sem hér hefur verið óskað eftir að hann skipi, til þess að viðræður geti farið fram í samræmi við þann vilja sem talsmenn allra flokka hafa lýst hér.

Að lokum, herra forseti, væri fróðlegt að fá svör við því einhvern tíma, hvort hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, sem er ekki í salnum, ætlar í framboði í Norðurl. v. í næstu kosningum að styðja landbúnaðarstefnu Egils Jónssonar eða landbúnaðarstefnu Pálma Jónssonar.