09.12.1982
Sameinað þing: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í B-deild Alþingistíðinda. (797)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Við höfum hér hlýtt á ítarlegar ræður hæstv. iðnrh. annars vegar og hins vegar hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar, 12. þm. Reykv. Hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson ræddi málið allítarlega efnislega, fór yfir alla þætti þess, en mér fannst hins vegar ræða hæstv. iðnrh. vera frekar í vígorðastíl. En það mál sem hér er til umfjöllunar er í hnotskurn svolítið annað en beinlínis kemur fram í málflutningi þessara tveggja manna.

Það sem hefur gerst er að einn af þm. Framsfl., fulltrúi stærsta stjórnarflokksins, hefur í rauninni lýst vantrausti á iðnrh. í þessu máli. Hann hefur gert það með atbeina og stuðningi síns flokks. Hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson, stjórnarsinni, segir að hæstv. ráðh. Hjörleifur Guttormsson geti ekki eða vilji ekki semja við Alusuisse. Hann segir að hæstv. iðnrh. taki ekkert tillit til viðræðunefndarinnar og þeirra sjónarmiða sem þar koma fram. Og hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson segir að hann taki ekki ábyrgð á meðferð ráðh. á þessu máli. Á mannamáli þýðir þetta að þm. Framsfl. er að lýsa því yfir að hann telji hæstv. iðnrh. óhæfan til að fara með þessi mál. Svo einfalt er það sem felst í málflutningi hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar. Hann segir að hann vantreysti ráðh. Þetta er þess vegna ótvíræð vantraustsyfirlýsing frá sérfræðingi Framsfl. á þessu málasviði á hendur hæstv. iðnrh.

Við höfum heyrt það í máli þeirra hér á undan, hvernig þeir hafa sakað hvor annan um ósæmilegt framferði og brigslyrðin ganga á víxl. Hæstv. iðnrh. talar um dæmalaust framferði hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar. Hann talar um að þm. og Framsfl. séu farnir á taugum og hann talar um að hér sé efnt til óvinafagnaðar. Hv. þm. Framsfl. Guðmundur G. Þórarinsson margítrekaði áðan að ráðh. færi með ósatt mál í málflutningi sínum, færi með rangt mál og útúrsnúninga og hann gæti ekki búist við því að þær fregnir sem ráðh. bæri af fundum með fulltrúum Alusuisse væru réttar. Hann gaf sem sagt í skyn að það væri allt eins líklegt að það sem ráðh. flytti af viðræðufundunum til viðræðunefndarinnar væri ekki rétt. Þetta eru alvarlegar ásakanir.

Ég tók eftir því í blöðunum í morgun að hæstv. iðnrh. talaði um að hann mundi auðvitað taka þetta mál fyrir í ríkisstj. í dag. Fáum við ekkert að frétta af þessum ríkisstjórnarfundi? Stundum hefur það nú verið tilefni hjá hæstv. ráðh. hér að standa upp og lesa tilkynningar eða samþykktir frá ríkisstj. (EKJ: Er þá sett ráðherranefnd í þetta?) Var engin afstaða tekin til málsins í ríkisstj. í morgun?, spyr ég. Hér er um harla alvarlegt mál að ræða og hefði ekki verið óeðlilegt að ríkisstj. hefði gert einhverja samþykkt í málinu, að það bærist einhver tilkynning frá ríkisstj. En þessum miklu boðunum ráðh. í gær um að hann mundi auðvitað bera þetta mál upp í ríkisstj. í dag og fá þaðan atbeina í málinu fer ekki mikið fyrir í dag.

Um þetta mál er það að segja, að Alþfl. hefur verið og er reiðubúinn til samstarfs við aðra flokka um hvernig skuli halda á þessum málum og um samningaviðræðurnar. Með úrsögn fulltrúa Framsfl. úr þeirri viðræðunefnd sem hér um ræðir er hins vegar ljóst að grundvöllurinn fyrir nefndinni og nefndarstarfinu er gjörsamlega brostinn. Þá nefnd á þess vegna að leggja niður. Hún er ekki til neins lengur. Það eru engar forsendur fyrir áframhaldandi starfi hennar.

Vitaskuld verður að finna samningaumleitunum nýjan farveg og nýtt form. Till. okkar er sú, að það verði gert með því að setja á fót sérstaka samninganefnd sem taki við málinu. Við erum reiðubúnir til þátttöku í slíkri nefnd. Hins vegar liggur fyrir að hæstv. iðnrh. er ekki lengur málsvari ríkisstj. í þessu máli, hann nýtur ekki stuðnings stærsta stjórnarflokksins. Ríkisstj. stendur því frammi fyrir því, að hún verður að velja sér nýjan málsvara til að hafa þessi mál á hendi — málsvara sem getur talað í nafni allrar ríkisstj., nýtur trausts hennar allrar og sem getur tekið ábyrgð á þessu máli og haft á því forræði. Með þeim hætti að skipa hér nýja samninganefnd og ríkisstj. tilnefni fulltrúa af sinni hálfu, sem hún ber traust til, ætti að vera hægt að ná samstöðu um framhald málsins, en meðan allt er í óvissu um afstöðu ríkisstj. er málið auðvitað í uppnámi. Ríkisstj. verður að gera hreint fyrir sínum dyrum. Afstaða ríkisstj. verður að liggja fyrir. Afstaða ríkisstj. verður að vera klár.

Það er í þessum anda sem þingflokkur Alþfl. hefur gert samþykkt í dag, sem ég ætla að leyfa mér að lesa, með leyfi forseta. Hún er þannig:

„Þingflokkur Alþfl. telur óhjákvæmilegt að viðræðunefnd við Alusuisse undir forræði iðnrh. verði lögð niður eftir að fulltrúi Framsfl. hefur sagt sig úr nefndinni og lýst vantrausti á forustu og forræði iðnrh. á málinu.

Þingflokkur Alþfl. telur rétt að nú verði skipuð sérstök samninganefnd, sem fari með samningaumleitanir við Alusuisse undir forustu aðila sem nýtur óskipts trausts ríkisstjórnarinnar og sé tilnefndur af hennar hálfu.“

Þetta ætti að vera skýrt. Ég tel að það sé eindreginn meiri hluti í þinginu fyrir því að reyna til þrautar að ná samningum í þessu máli. Ég tel að það hafi komið fram í málflutningi allra flokka, en ríkisstj. verður að gera upp hug sinn um hver skuli bera ábyrgð í þessu máli, því að undir forræði og forustu ríkisstj. á málið auðvitað að vera. Sumir orða það svo, að Alþb. eigi e.t.v. tveggja kosta völ eins og málin standa nú, annaðhvort að fórna ríkisstjórninni fyrir Hjörleif eða Hjörleifi fyrir ríkisstjórnina. Má vera að það láti nærri.

Ég ætla ekki að rekja aðdraganda þessa máls í löngu máli, en ég hef áður oft og tíðum á s.l. vetri og fram á vor vakið athygli á því hversu mikilvægt væri að ná samningum og hvað töf á samningum væri dýr þegar hvert mill svarar til um 1 millj. dollara í tekjum til Landsvirkjunar.

Hæstv. iðnrh. hóf þetta mál með miklum hvelli eins og kunnugt er. Ég sagði að þeir yrðu að halda fast og vel á þessu máli, en það væri líka hættulegt ef úr því yrði vindhögg. Þær 47 millj. dala sem iðnrh. nefndi „svik í hafi“ á sínum tíma eru nú orðnar að 1 millj. dollara í skattakröfum, en á meðan vitum við að 1 mill í raforkuverði er um 1.3 millj. dollara. Þetta mál má ekki tefjast og flækjast svona öllu lengur. Það eru rétt um tvö ár síðan málið hófst og menn geta dundað sér við að reikna út hversu mikið hafi tapast á þeim tíma.

Við Alþfl.-menn leggjum þess vegna áherslu á að það verði tekið rösklega á þessu máli, því verði fundinn nýr farvegur og nýtt form og það verði þrautreynt að ná samningum.

Ég les það í blöðunum í dag að iðnrh. kunni nú þau ráð ein sem muni duga. Hann lýsti því yfir áðan að hann mundi gera tillögu um einhliða aðgerðir um hækkun raforkuverðs. Auðvitað hafa menn rætt sín í milli að það kynni að vera þrautalending, en ég er æðihræddur um að það veiki stöðu okkar mjög ef forsendan fyrir því að leggja út í einhliða aðgerðir sé sú að fulltrúi stjórnarflokksins hafi sagt sig úr viðræðunefnd. Það finnst mér ekki góður aðdragandi að því að leggja í einhliða aðgerðir. Það finnst mér ekki góð forsenda undir einhliða aðgerðum. Ég held að tímasetning hæstv. iðnrh. á þessari yfirlýsingu sé því ekki til þess að þjóna málstað okkar með besta hætti, þó að vitaskuld hafi þetta verið rætt manna á meðal og menn hafi talið að viðbrögð af þessu tagi gætu komið til greina.

Ég skal ekki fjölyrða öllu meira um þetta, en við Alþfl.-menn teljum að það sé augljóst að hér hafi verið lýst yfir vantrausti á hæstv. iðnrh. af einum stuðningsflokka ríkisstj. Af stöðu málsins verður ekki dregin nema ein ályktun: Viðræðunefndin getur ekki starfað lengur.

Hana á að leggja niður. Það verður að finna nýtt form til þess að starfa að samningum og það getur gerst með því og á að gerast með því að ríkisstj. ákveði hver njóti trausts hennar til að hafa forræði og bera ábyrgð á þessu máli. Síðan á að skipa samninganefnd sem allir flokkar geta gjarnan átt aðild að. Við Alþfl.-menn eru tilbúnir að starfa í slíkri nefnd með sama hætti og við höfum starfað í þeirri viðræðunefnd sem nú er orðin ónýt.