13.12.1982
Neðri deild: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í B-deild Alþingistíðinda. (841)

93. mál, verðlag

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Á þskj. 95 hef ég leyft mér ásamt hv. þm. Magnúsi H. Magnússyni, Árna Gunnarssyni, Karvel Pálmasyni og Sighvati Björgvinssyni að endurflytja frv. um breyt. á lögum um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, en frv. þetta var flutt á síðasta Alþingi og hlaut þá ekki afgreiðslu.

Með leyfi forseta hljóðar frvgr. svo:

„Gjaldskrá og verðtaxtar, sem settir eru einhliða af einstökum stéttum, þjónustuaðilum, fyrirtækjum eða öðrum einkaaðilum, skulu vera undir sérstöku eftirliti.

Sérstakir starfsmenn Verðlagsstofnunar skulu sérhæfa sig í uppbyggingu slíkra gjaldskráa og verðtaxta og hafa reglulegt eftirlit með þeim.

Með þeim er skylt að senda rökstudda grg., þar sem á fullnægjandi hátt er gerð grein fyrir einstökum kostnaðarliðum. Ennfremur þarf að tilgreina sérstaklega þóknunar- eða álagningarhluta hverrar einstakrar verðlagningar.

Allar gjaldskrár og verðtaxtar þurfa að hljóta samþykki verðlagsráðs að fenginni umsögn Verðlagsstofnunar.

Óheimilt er að gefa út lágmarkstaxta eða ákveða lágmarksverð.

Gjaldskrár og verðtaxtar skulu hverju sinni auglýst á þann hátt að aðgengilegt sé almenningi.“

Þegar frv. þetta var til meðferðar á síðasta Alþingi sendi Verðlagsstofnun inn umsögn um málið, en þar kemur fram eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Eftirlit með verðtöxtum þessara aðila hefur að undanförnu falist í að fylgjast með að breytingar á töxtunum séu í samræmi við almennar kostnaðarhækkanir, en að öðru leyti hafa verðlagsyfirvöld lítil afskipti haft af þeim. Taxtagrunnurinn hefur því ekki verið kannaður og er ástæðan sú, að verðlagsyfirvöld hafa ekki haft sérhæfðan mannafla til að sinna því verkefni. Í frv. er réttilega bent á að þarna hefur verið um vissa mismunun að ræða, sumir þessara aðila hafi getað skammtað sér hærri laun en e.t.v. getur eðlilegt talist, en það hefur sýnt sig í nágrannalöndunum að lagfæring á þessum málum er ekki einföld viðureignar.“

Það kemur fram í umsögn Verðlagsstofnunar að taxtagrunnur þjónustuaðila sem einhliða setja sínar gjaldskrár hefur ekki verið kannaður. Hér er auðvitað um veigamikið atriði að ræða. Allir hljóta að sjá að nauðsynlegt eftirlit verður ekki haft með þessum gjaldskrám og verðtöxtum nema vitað sé hvernig verðmyndunargrunnurinn er byggður upp. Samkv. þessum upplýsingum Verðlagsstofnunar er ekki vitað hve stór hluti gjaldskrárinnar er rekstrarkostnaður eða fjármagnskostnaður eða hvað lagt er til grundvallar í því efni í gjaldskránni. Þegar ekki er vitað hvernig kostnaðarþættir í gjaldskrám eða verðtöxtum eru byggðir upp er einnig lítið vitað um hve stór þáttur launaliðurinn er í gjaldskránni. M.o.ö.: þessir aðilar skammta sér laun sjálfir án nokkurs eftirlits eða aðhalds.

Eins og fram kemur í grg. með þessu frv. er mjög misjafnt hvað gjaldskrár og verðtaxtar, sem settir eru af ýmsum þjónustuaðilum öðrum en hinu opinbera, eru undir virku eftirliti hjá Verðlagsstofnun. Þannig má benda á að hækkanir á útseldri vinnu, t.d. byggingarmeistara, rafverktaka og málm- og skipasmiða, þurfa að hljóta samþykki verðlagsráðs. Þjónustuaðilar, eins og hárgreiðslu- og hárskerameistarar, þurfa einnig að sækja um hækkanir á sínum gjaldskrám og fá þær samþykktar. sama gildir um þjónustufyrirtæki eins og efnalaugar og þvottahús svo og gjaldskrá leigubifreiðastjóra. Hins vegar má benda á þjónustuaðila sem setja einhliða sínar gjaldskrár og verðtaxta og lítið er fylgst með af Verðlagsstofnun. Þar má nefna lögfræðinga, arkitekta, verkfræðinga og kannske ekki síst tannlækna.

Það er auðvitað misjafnt hvað allur almenningur þarf oft að leita til þeirra aðila sem hér hafa verið tilgreindir og eru undir nánast engu eftirliti hjá Verðlagsstofnun. Tannlæknar eru þó tvímælalaust sá aðili sem allur almenningur þarf mikið að leita til. Í grg. hef ég því valið að taka dæmi af þeim aðilum, en ég sá ekki ástæðu til að tíunda það frekar en þar er gert.

Það er engum blöðum um það að fletta að þjónusta þeirra er mjög dýr, enda minnist ég þess að taxtar tannlækna og laun þeirra hafa oft komið til umr. hér í þingsölum. Erfitt hefur reynst að hafa nokkurt eftirlit með gjaldskrám tannlækna, ekki eingöngu hjá Verðtagsstofnun heldur einnig að því er varðar að fá fram sundurliðun á greiðslukvittun fyrir þjónustu sem þeir veita og greidd hefur verið af almannatryggingum. Þar að auki gefa þeir út lágmarkstaxta, þannig að erfitt er að henda reiður á hvað greiða þarf fyrir þessa þjónustu.

Það verður að segjast að vægast sagt er óeðlilegt að án nokkurs eftirlits hafi nokkrir aðilar í þjóðfélaginu þá sérstöðu að geta skammtað sér laun og tekjur fyrir sína þjónustu, sem oft hefur í för með sér mikinn kostnað fyrir allan almenning. Það er því skylda stjórnvalda að grípa inn í með ákveðnu, virku og skipulegu eftirliti til að tryggja eðlilega verðmyndun fyrir þá þjónustu sem veitt er samkv. gjaldskrám og verðtöxtum.

Eins og fram kemur í þessu frv., og raunar umsögn Verðlagsstofnunar einnig frá því á síðasta þingi, verður að líta svo á samkv. 2. og 4. gr. laga um verðlag og samkeppnishömlur að Verðlagsstofnun geti haft eftirlit með einhliða settum gjaldskrám og verðtöxtum. Ætla verður einnig, að það sé á hennar valdi að ákveða að allar gjaldskrár og verðtaxtar þurfi að hljóta staðfestingu verðlagsráðs, þó hvergi séu um það bein ákvæði í lögunum. Engu að síður tel ég nauðsynlegt að setja um það sérstakt ákvæði í verðlagslöggjöf til að tryggja í framkvæmd að verðtaxtar þessara aðila séu undir sérstöku eftirliti og sérstakt eftirlit verði einnig haft með verðmyndun á grunni gjaldskránna og úttekt fari fram á þeim þætti.

Í frvgr. er kveðið á um að sérstakir starfsmenn Verðlagsstofnunar skuli sérhæfa sig í uppbyggingu gjaldskráa og verðtaxta. Það er bæði umfangsmikið verk og flókið að fara ofan í saumana á öllum gjaldskrám svo að vel sé, en hjá því verður ekki komist. Ég tel að reynslan kenni okkur að Verðlagsstofnun fái ekki til þess nauðsynlegt starfslið nema til komi bein verðlagslagaákvæði sem tryggi það.

Í umsögn Verðlagsstofnunar frá síðasta þingi kom reyndar fram að Verðlagsstofnun treystir sér ekki til að fara út í umfangsmiklar athuganir á jafnflóknum töxtum og hér um ræðir nema fá til þess sérfræðilega aðstoð. Í því sambandi vil ég benda á, að þegar frv. þetta var til umr. á síðasta þingi upplýsti viðskrh. að Verðlagsstofnun hefði í hyggju að hefja athugun á verðmyndunartöxtum tannlækna. Rétt er það, að könnun þessari var hrundið af stað á vegum Verðlagsstofnunar, en vegna fjárskorts hefur Verðlagsstofnun ekki getað lokið þessu verkefni og óvíst hvenær það getur orðið. Er þetta auðvitað ein sönnun þess, að nauðsynlegt er að hafa skýr ákvæði um hvernig eftirliti skuli háttað með verðskrám og verðtöxtum.

Í frvgr. er einnig lagt til að með gjaldskrám og verðtöxtum verði skylt að senda inn rökstudda greinargerð. Til að auðvelda allt eftirlit er það fyrirkomulag nauðsynlegt, þannig að hægt sé að gera sér grein fyrir vægi einstakra kostnaðarþátta í gjaldskránni, svo að álagningarhluti hverra einstakra verðþátta í heildarverðmynduninni sé ljós.

Til að hægt sé að meta hvað réttlætir hækkanir á gjaldskrám og verðtöxtum er rökstudd greinargerð um hvern þátt fyrir sig í verðmynduninni því mjög nauðsynleg, enda mjög afgerandi þáttur í þeirri breytingu sem hér er lögð til.

Það fyrirkomulag, sem gilt hefur í sumum tilfellum, að gefnir séu út lágmarkstaxtar, er vægast sagt mjög óeðlilegt og lítt í samræmi við tilgang laganna frá 1978 um verðlag og samkeppnishömlur: Því er lagt til í þessu frv. að ekki sé heimilt að gefa út lágmarkstaxta eða ákveða lágmarksverð. Líta verði því á útgefna taxta sem hámarkstaxta. Þetta fyrirkomulag tryggir mun betur að neytandinn viti hverju sinni hvers hann má vænta í kostnaði þegar hann sækir sér þjónustu sem greiðsla er krafin fyrir samkv. einhliða settum gjaldskrám eða verðtöxtum. Einnig er kveðið á um það í frv. að gjaldskrárnar séu hverju sinni auglýstar á þann hátt að aðgengilegar séu almenningi, þannig að á hverjum tíma sé þeim ljóst, sem leita þurfi sér þjónustu sem greitt er fyrir samkv. gjaldskrám og verðtöxtum, hvert sé leyfilegt verð fyrir þá þjónustu. Er það vitaskuld stór þáttur í virku eftirliti að neytandanum sé kunnugt um leyfilegt verð fyrir þjónustu sem greitt er fyrir samkv. gjaldskrá.

Í frv. eru tekin af öll tvímæli um að allar gjaldskrár og verðtaxtar þurfi samþykki verðlagsráðs. Sýnir það sig að slíkt ákvæði er nauðsynlegt, þegar reynslan er að nokkrir aðilar þurfa ekki að leita til Verðlagsstofnunar til að fá samþykki eða staðfestingu verðlagsráðs á sínum gjaldskrám. Það kann að vera að flestar gjaldskrár þessara aðila séu sendar Verðlagsstofnun til kynningar, en ljóst er að þær hafa ekki þurft að hljóta samþykki Verðlagsstofnunar áður en farið er að vinna eftir þeim. Það liggur í hlutarins eðli að nauðsynlegt er að breyta því fyrirkomulagi þannig að allir aðilar sem setja gjaldskrár og verðtaxta búi við sömu skyldu í því efni og aðrir sem lúta eftirliti Verðlagsstofnunar.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta lengra mál og legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.