14.12.1982
Sameinað þing: 29. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

Um þingsköp

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það voru orð hæstv. fjmrh. hér áðan, þar sem hann var að svara mjög réttmætri gagnrýni hv. 3. þm. Norðurl. e., sem urðu þess valdandi að ég kveð mér hér hljóðs um þingsköp.

Hæstv. ráðh. lauk máli með því að tala um málefnafátækt hjá stjórnarandstöðu, þegar einn af fjárveitingarnefndarmönnum Alþingis kemur hér fram og gerir kröfur til þess að ríkisstj. fari að lögum landsins.

Ég veit ekki hvernig hægt er að kalla það málefnafátækt þegar alþingismenn gera kröfu til þess að stjórnvöld, þ.e. ríkisstj. fari að lögum og leggi fyrir Alþingi þau gögn sem talið er að á þurfi að halda við ákvarðanatöku í ekki veigaminna máli en þegar afgreiðsla fjárlagafrv. fer fram. Hæstv. ráðh. sagði að mjög oft eða oftast nær hefðu lánsfjárlög verið afgreidd á öðrum tíma en fjárlög. Það er rétt að eftir að farið var að afgreiða lánsfjáráætlun í þeirri mynd sem hún er nú lögð fyrir Alþingi og lánsfjárlög henni tilheyrandi hefur það komið fyrir í fjögur skipti að lánsfjárlög hafa ekki verið afgreidd með fjárlögum. Í þrjú skipti hafa lánsfjárlög verið afgreidd á sama tíma og fjárlög. Og ég vil vekja athygli hæstv. fjmrh. á því, að það er eftir að hann og hans flokkur komast til áhrifa að lánsfjárlög eru ekki afgreidd með fjárlögum.

Lánsfjárlög fyrir árin 1976, 1977 og 1978 voru afgreidd með fjárlögum, að vísu lögð fram nokkuð seint, það skal viðurkennt. Það voru gerðar athugasemdir við það af fulltrúum stjórnarandstöðunnar á þeim tíma og þess vegna að sjálfsögðu sett þau lög um stjórn efnahagsmála nr. 13 1979 sem samþykkt voru. En síðan hafa lánsfjárlög í hvert einasta skipti verið afgreidd á allt öðrum tíma og miklu seinna en fjárlög.

Hæstv. ráðh. vék að því hér áðan, að draga þyrfti úr erlendum lántökum. Það er einmitt þess vegna sem lánsfjárlög þarf að afgreiða á sama tíma og fjárlög ríkisins. Það er einmitt þess vegna sem við þurfum að hafa yfirsýn á sama tíma yfir fjárlög ríkisins og lánsfjárlög, en ekki haga verkum eins og verið hefur, að draga afgreiðslu lánsfjárlaga fram eftir árinu til þess að hægt sé að koma þar að meiri erlendum lántökum en rétt er og skaplegt.