29.11.1983
Sameinað þing: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

398. mál, Áburðarverksmiðja ríkisins

Fyrirspyrjandi (Kristín S. Kvaran):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. svörin þó að heldur hafi mér nú fundist þau vera úr takt við það sem ég var að spyrja um. Þetta voru einungis svör um það að leitað hefði verið eftir starfsleyfi. Ég var að spyrja um það hvort Áburðarverksmiðjan hefði leyfi til starfrækslu gömlu framleiðslurásarinnar. Það kemur að vísu í ljós að hún hefur það ekki og það kemur ekkert sérstakt fram um það hvort landbrh. hæstv. ætli sér að ganga eftir því og þá sérstaklega ekkert um það hvort það er hans skoðun að gamla framleiðslurásin eigi að hafa starfsleyfi. En það er alveg á hreinu að afleiðingar köfnunarefnistvísýrings eru ekkert litlar. Það eru höfuðverkur, lystarleysi, meltingartruflanir og sáramyndun í munni og nefi. Það hefur ekki farið fram, eftir þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér, nein athugun á því hvernig það fólk sem vinnur í Áburðarverksmiðjunni kemst af gagnvart þeirri mengun sem þarna á sér stað. Þess vegna er full ástæða til að leita svara við þeirri spurningu hvort hæstv. landbrh. hugsar sér að ganga eftir því að ekki verði veitt starfsleyfi fyrir gömlu rásina vegna þeirrar mengunarhættu sem hún skapar og eingöngu stuðst við þá nýju.