05.12.1983
Neðri deild: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (1171)

40. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. til l. um breytingu á lögum nr. 73 frá 1980, um tekjustofna sveitarfélaga, sem hér er til umr. er orðið þekkt í þingsölum.

Í 1. gr. frv. er lagt til að í 3. gr. laganna í 2. mgr. komi nýr liður sem verði a-liður og hljóði svo:

„1/4% af fasteignamati sumarbústaðalóða og mannvirkja á þeim, enda sé ekki um að ræða sumarbústaði sem notaðir eru til íbúðar allt árið.“

Í öðru lagi að í samræmi við þetta breytist röð liða í 2. mgr. þannig að a-liður verði b-liður og núverandi b-liður verði c-liður.

Í 2. gr. frv. er svo lagt til að lög þessi öðlist þegar gildi.

Í grg. með frv. segir að frv. þetta hafi verið flutt á síðasta þingi en hafi þá ekki náð fram að ganga og sé því endurflutt nú.

Ég tel nauðsynlegt að þessu fylgi nokkur saga, m.a. vegna þeirra mörgu nýju hv. þm. sem nú sitja á Alþingi í fyrsta sinn. En mig minnir að þetta frv. sé nú flutt í þriðja ef ekki fjórða sinn hér á Alþingi. Í fyrra var þetta mál meðal síðustu mála þingsins sem tekin voru á dagskrá þótt það væri tölusett sem 22. mái. Ég rak á eftir málinu við þáv. forseta og viðkomandi þingnefnd hv. deildar og fann að þeim drætti sem varð á málsmeðferðinni. Samt sem áður fékkst það ekki tekið fyrir frá n. fyrr en nokkrum vikum fyrir þinglok.

Á þessu sést að sjálfsögðu sú gamalkunna aðferð hér í þinginu að andstæðingar máls tefja það eins og þeir mest geta og reyna að svæfa það í n. Það var reynt í sambandi við þetta mál á síðasta þingi en tókst ekki að fullu hér í hv. Nd. Alþingis. Málið var afgreitt frá félmn. deildarinnar með undirskrift sex nm. af sjö. Þrír höfðu engan fyrirvara um málið, hv. þm. Steinþór Gestsson, Guðmundur J. Guðmundsson og Friðrik Sophusson. Með fyrirvara um samþykkt málsins voru hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Jóhann Einvarðsson og Eggert Haukdal.

Einn þm. skilaði minnihlutaáliti. Það var Alexander Stefánsson, nú hæstv. félmrh., sem lagði til að málið yrði fellt. Hans röksemdir voru þær að sveitarfélögin ættu að ráða sjálf tekjustofnum sínum og það ætti að vera á valdi hverrar sveitarstjórnar að veita síðan afslátt eða lækka álagningu fasteignagjalda. Ég benti á þá staðreynd að sveitarfélögin byggðu sína gjaldtöku á lögum sem Alþingi setti og að þetta lagaákvæði Alþingis hefði verið óréttlátt frá því að það var samþykkt í byrjun. Því bæri Alþingi að breyta lagaákvæðinu. Til þess hefðu sveitarfélögin engan möguleika né vald, enda hefði hvergi á öllu landinu verið gefinn sérstakur afsláttur af þessum skatti hjá sveitarfélögunum, heldur væru dæmi þess að þau hefðu nýtt ýtrustu heimildir til hækkunar í sambandi við þessa skattálagningu.

Við afgreiðslu málsins á síðasta þingi kom fram brtt. frá þáv. hv. þm. Magnúsi H. Magnússyni þess efnis að í stað þess að leggja til að hámark þessa gjalds verði 1/4 %, eins og lagt er til í frv., verði hámarkið 1/2%. Á þetta var ekki fallist í deildinni og við afgreiðslu málsins við 2. umr. var brtt. Magnúsar felld. Frv. gekk síðan án breytinga til 3. umr. Við 3. umr. í Nd. var viðhaft nafnakall um afgreiðslu málsins. Fyrir þá hv. þm. sem hér eiga sæti nú er fróðlegt að sjá hvernig atkvæði féllu um málið. Geta þm. flett því upp í þingtíðindum, og séð afstöðu einstakra þm. Úrslit urðu þau að já sögðu 18, 14 voru á móti, 4 sátu hjá og greiddu ekki atkv. en 4 voru fjarverandi. Frv. var því samþykkt óbreytt frá Nd. og vísað til Ed. með 18:14 atkv.

Þegar málið kom til Ed. hófust mikil átök um málið. Þeir sem voru andstæðir málinu gerðu þá allt sem hugsast gat til að stöðva það. Jafnvel fór svo að þeir þm. sem kannske síst hefðu átt að ganga gegn málinu, ef þeir hefðu verið að hugsa um meiri hluta kjósenda sinna, tóku frekar afstöðu með örfáum hagsmunaaðilum úr röðum bænda og byggðu afstöðu sína á þeirra einkahagsmunum.

Til þess m.a. að tefja fyrir þessu máli var tekið fyrir í Nd. frv. frá ríkisstj. um sýsluvegagjald, sem annars átti að svæfa, en það var 201. mál þingsins. Samkvæmt því frv. átti að undanskilja vegaskatti samkv. 23. gr. laganna, svokölluðu sýsluvegasjóðsgjaldi, allar kirkjur, skóla og félagsheimili, vita og enn fremur orlofsheimili í eigu stéttarfélaga launþega á svæðum sem sérstaklega eru skipulögð fyrir orlofsstarfsemi. Þetta frv. var tekið til afgreiðslu með brtt. sem var þess efnis að bætt var inn í þessa till. sumarbústöðum.

Með þessari breytingu á frv. var því lagt til að sýsluvegasjóðsgjald yrði einnig fellt niður af sumarbústöðum. Á þetta var að sjálfsögðu fallist af öllum sem vildu lækka hið óréttmæta fasteignagjald af sumarhúsum, sem er helmingi hærra en má taka af íbúðum í viðkomandi sveitarfélögum, enda hafði það verið yfirlýst af mér sem 1. flm. málsins að þetta ætti að sjálfsögðu að fella niður líka.

Í flestum tilfellum eru það sumarbústaðaeigendur sjálfir sem hafa lagt dýra vegi um jarðir eða að lóðum sínum og þeir hafa haldið þessum vegum við að öllu leyti án þess að tæki viðkomandi sýslu eða Vegamálastofnunar kæmu þar nokkuð nærri. Því er óþarft að taka sérstakt gjald af þeim til þess að nota svo í aðra vegi fyrst svo er um búið gagnvart þessum einkavegum. Verður að sjálfsögðu að hafa í huga að þessir sumarbústaðaeigendur borga vegna sinna ferða síst minna en aðrir landsmenn í sameiginlega sjóði, í sköttum af bensíni, olíu og öðrum búnaði til ökutækja, er ganga á til nota allra landsmanna jafnt að því að talið er.

Með því að gera þessa breytingu á lögunum um sýsluvegasjóðsgjaldið tókst að tefja málið um fasteignaskattinn í Ed. svo lengi að það fékk ekki afgreiðslu fyrir þinglok frá n. Þó hafði 1. minni hl. félmn. í Ed. skilað nál. til að flýta fyrir afgreiðslu málsins. Þennan minni hl. skipuðu þm. Þorv. Garðar Kristjánsson, Eyjólfur Konráð Jónsson og Karl Steinar Guðnason. Mæltu þeir með samþykkt frv. allir þrír.

Nú vil ég skýrt undirstrika, eins og reyndar hefur komið fram áður, að ég hef reynt sem 1. flm. þessa frv. að leita samstarfs við þm. úr öllum flokkum og samtökum sem eiga sæti á Alþingi. Eru þessir aðilar meðflm. að frv. nú, utan Samtök um kvennalista, og er ætlan okkar flm. sú sama og áður, að freista þess með flutningi frv. að ná fram lækkun á þessu óréttmæta fasteignagjaldi. Ég hef undirstrikað það í fyrri ræðum mínum um þetta mál að það sé sjálfsagt að greiða fasteignagjald af þessari eign þéttbýlisbúa í öðrum sveitarfélögum. En það á ekki að leyfast að það gjald sé svo óréttlátt að það sé helmingi hærra en það fasteignagjald sem heimamenn sjálfir greiða eins og það er ákveðið í gildandi lögum. Að heimamenn greiði sjálfir helmingi lægra gjald af fasteign sem þeir búa í allt árið en þéttbýlisbúar, sem koma til stuttrar dvalar sumir hverjir og kannske að vetri til enn skemmri dvalar, borga af sinni eign, það á ekki að liðast.

Ég hef áður orðað það hér í þessum ræðustól að ég væri einn þeirra þm. þéttbýlisins sem væru heils hugar fylgjandi því að stuðningur væri veittur við nýjar búgreinar og aukabúgreinar þeim sem í sveitum búa. En ég hef líka sagt — og stend við það — að ég tel að ekki eigi að stefna að því að gera þéttbýlisbúa í Reykjavík og nágrenni, sem sumarbústaði eiga, að sérstakri aukabúgrein fyrir bændur, fólk sem hefur leitað eftir því að kaupa sér aðgang að rándýrri aðstöðu í sveitum landsins, helst þeim sem næst liggja Reykjavík, að blettum úr löndum bænda eða félagssamtaka, sem ekki verða nýttir til búskapar, eru í flestum tilfellum grjót, holt og heiðar eða kjarri vaxin lönd sem ekki hafa verið tekin undir ræktun, en bændur talið sig fá miklu meira fyrir með því í fyrsta lagi að selja af leigurétt fyrir gífurlegar fjárhæðir, í sumum tilfellum til nokkurra ára, og taka auk þess til viðbótar sérstakt leigugjald árlega fyrir afnot af viðkomandi lóðum. Í flestum tilfellum eru þessar lóðir hálfur hektari að stærð en í nokkrum tilfellum allt að einn hektari. Ekki er mér kunnugt um hvernig skattgreiðslur innheimtast af þessari leigu til viðkomandi sveitarfélaga eða til annarra opinberra aðila.

En auk þessa vilja landeigendur og talsmenn þeirra hér á Alþingi láta eigendur sumarbústaða borga helmingi hærri fasteignagjöld en þeir sjálfir greiða. Og enn vil ég benda á að í mörgum sveitahreppum, sem hafa sumarbústaðabyggðir innan vébanda sinna, er nú svo komið að farið er að nýta mestu hækkun leyfilegs fasteignagjalds þegar sumarbústaðaeigendur eiga í hlut. Er gjald þeirra þá orðið nokkuð á annað prósent.

Ég hef nokkuð fengið að fylgjast með starfi áhugamanna utan Alþingis sem hafa beitt sér fyrir hagsmunamálum sumarbústaðaeigenda á síðustu mánuðum. Til okkar alþm. hafa borist áskoranir og undirskriftir þúsunda skráðra eigenda slíkra húsa. Það er eftirtektarvert að þeir skrá ekki þá aðila sem auk þeirra sjálfra njóta þess að hverfa til náttúrunnar á þann hátt sem þeir helst óska eftir, er þeir ráðast í sínar sumarbústaðabyggingar, en það eru einnig börn þeirra og annað heimilisfólk sem þess nýtur og þar á meðal gamla fólkið úr viðkomandi fjölskyldum.

Áður en ég vitna í eftirtektarvert bréf, sem okkur alþm. hefur borist frá þessum aðilum um frv. það sem hér er til umr., vil ég leyfa mér að benda á orð sem einn af okkar fremstu ræktunar- og umhverfisverndarmönnum hefur látið falla um sumarbústaðaeigendur og þeirra starfa fyrir náttúruna og umhverfið. Hákon Bjarnason fyrrv. skógræktarstjóri sagði m.a. að sumarbústaðir væru prýði landsins vegna þess að í langflestum tilfellum væru lóðir þeirra perlur í landslaginu vegna þeirrar miklu ræktunar sem eigendurnir hefðu látið í té. Undir þessi orð hafa fleiri tekið.

Bréfið sem ég ætla að leyfa mér að vitna í barst okkur alþm. þann 27. okt. s.l. Þar segir m.a. með leyfi forseta:

„Með sívaxandi þéttbýlismyndun og mengun þeirri og hávaða sem henni fylgir óhjákvæmilega hefur þörf einstaklinga fyrir hvíld og hressingu í óspilltri náttúru aukist hröðum skrefum. Aðstaða til slíks er óumdeilanlegt velferðarmál allra þéttbýlisbúa og þá ekki síst barna sem þar alast upp og eiga þess fæst kost að dvelja á sveitabæjum yfir sumartímann eins og afar þeirra og ömmur og í mörgum tilfellum feður þeirra og mæður áttu. Við sem byggjum þetta land erum flestum eða öllum grannþjóðum okkar betur sett að því leyti að við eigum enn mikið af óspilltri náttúru með fjölskrúðugu dýra- og jurtalífi sem öllum er hollt að kynnast og njóta. stöðugt fleiri þéttbýlisbúar hafa því á undanförnum árum ráðist í að koma sér upp sumarbústöðum þar sem fjölskyldan dvelst yfir sumartímann þegar því verður við komið.

Enda þótt þessu fylgi umtalsverður kostnaður er það staðreynd að sumarbústaðaeigendur eru þverskurður af þéttbýlisbúum en ekki aðeins efnamenn. Fjöldi láglaunafólks hefur af miklum dugnaði og ómældri vinnu komið sér upp sumarhúsum, fegrað og prýtt umhverfi þeirra og skapað sér unaðsreit. Þegar til þess er litið og svo þess að nýtingartími þessara eigna er aðeins hluti úr árinu skýtur skökku við að fasteignaskattar af sumarbústöðum eru nú helmingi hærri en af íbúðarhúsnæði sem notað er allt árið. Enn óeðlilegra verður þetta að teljast þegar til þess er litið að þjónusta sú sem sveitarfélögin veita sumarbústaðaeigendum er hverfandi í samanburði við þá þjónustu sem veitt er þeim sem eiga íbúðarhúsnæði sem notað er allt árið.

Eins og fjárhæð gjaldanna er í dag eru þau beinlínis til þess fallin að hamla gegn þeirri þróun að þéttbýlisbúar skapi sér aðstöðu til sumardvalar í óspilltri náttúru og geta orðið þeim efnaminni í hópnum verulegur fjötur um fót. Í því sambandi skal á það bent að sum sveitarfélög hafa notað hækkunarheimild 3. mgr. 3. gr. laga nr. 73 frá 1980 til hins ýtrasta.

Hér má nefna,“ halda þeir áfram í bréfi sínu, „að tekjur af fasteignasköttum af sumarbústöðum dreifast mjög ójafnt á hin einstöku sveitarfélög og að sum þeirra sveitarfélaga sem hæstar tekjur hafa af þessu eru meðal þeirra sem mestar tekjur hafa af öðrum tekjustofnum. Kostnaður sveitarfélaganna af þjónustu við sumarbústaðaeigendur er hins vegar alls staðar mjög lítill eða enginn. Alþingi hafa þegar verið sendir undirskriftalistar fjölda sumarbústaðaeigenda og rétthafa sumarbústaðalóða þar sem skorað er á hið háa Alþingi að samþykkja á yfirstandandi löggjafarþingi breytingu á 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga þess efnis að fasteignaskattur á sumarbústaði verði aldrei hærri en sem svarar 0.25% af fasteignamati viðkomandi eignar sem við biðjum yður að kynna yður.“

Og í lok bréfsins segja þessi hagsmunasamtök: „Jafnframt vekjum við athygli á því að fjölskyldur undirskrifenda sem njóta góðs af bústöðunum standa að baki undirskriftunum þótt aðeins eigendur skrifi undir.“

Þetta var úr bréfi þeirra nærri tvö þúsund íslenskra kjósenda sem sumarbústaði eiga hér á Suðvesturlandi. Ætla ég ekki að ræða efni þessa bréfs né frv. frekar. Ég vil þó taka fram að lokum að að sjálfsögðu munu vera skiptar skoðanir um hvort fylgja eigi hugsanlegri hækkun á gjaldinu frá því sem þetta frv. kveður á um, ef brtt. kemur fram þar um eins og gerðist á síðasta þingi, eða reynt verði að fara einhvern milliveg frá því sem nú gildir.

Ég er einn þeirra þm. sem hafa talið öll þau ár sem ég hef setið hér, reyndar utan þings líka, að frekar bæri að leita eftir skynsamlegum samningum en að láta góð mál daga uppi. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það mikla stökk sem lagt var til á síðasta þingi, að láta þessa málamiðlun þýða helmingshækkun frá því sem þetta frv., sem ég er að mæla fyrir, kveður á um, eða úr 0.25% í 0.50%, sé óráðlegt, hafandi í huga það sem hér hefur verið sagt um nýtingu þessara eigna, og með þeirri till. sé of langt gengið.

Ef samkomulag gæti orðið þar um væri nær sanni að fara milliveg og segja 0.30 eða 0.35%. En slíkar brtt., ef fram koma, munu að sjálfsögðu verða ræddar í félmn. og mér finnst rétt að þeir sem hafa fylgt þessu máli á síðustu þingum hafi það í huga ef brtt. koma fram.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að kynna þetta mál frekar. Það er eldri þm. kunnugt og ég held að ég hafi nokkuð farið yfir sögu þess og efni, kannske ítarlegar en áður, einmitt vegna þeirra mörgu hv. þm. sem nú eiga sæti hér á Alþingi í fyrsta sinn.

Félmn. hv. deildar er skipuð nokkrum sömu hv. þm. og áttu sæti þar á síðasta þingi. Þeir þekkja málið og höfðu það til meðferðar fyrir nokkrum mánuðum þannig að ég vænti þess að nefndin leggist ekki nú á málið heldur afgreiði það hið fyrsta og að ekki gefist tækifæri til þess fyrir þá þm. sem ætla sér að nota sína pólitísku aðstöðu hér á þingi í nefnd eða öðrum embættum til að stöðva þetta mál, heldur láta það koma til afgreiðslu og greiða því atkvæði eða vera á móti því, en ekki láta það daga uppi eins og það er kallað á máli okkar þm.