05.12.1983
Neðri deild: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (1198)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég lét þá skoðun og ósk í ljós, þegar rætt var um till. okkar sjálfstæðismanna varðandi afvopnunarmál, að ég teldi nauðsynlegt að við alþm. kæmum okkur saman um stefnumótun Íslendinga í afvopnunarmálum. Ég gerði mér vonir um að á grundvelli þeirra þriggja þáltill., sem fyrir Alþingi hafa verið lagðar, mætti finna samnefnara sem við alþm. gætum fylkt okkur um og það væri stefnumótun af hálfu okkar Íslendinga. Ég treysti því að þingmenn séu opnir fyrir þeirri leið og einbeita sér að því að ná niðurstöðu, en ég tek skýrt fram að ég tel ekki von til þess að ná þeirri niðurstöðu eða þeirri samstöðu sem í þessu væri fólgin á einni viku. Þetta eru það flókin mál og erfið við að glíma að lengri tíma þarf til, enda er okkur ekkert að vanbúnaði að einbeita okkur að þessu þótt lengri tíma taki. Hér er um svo mikilvæg mál að ræða að við skulum ekki hrapa að einu eða neinu í þeim efnum.