06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í B-deild Alþingistíðinda. (1215)

108. mál, kreditkort

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Seinustu orð hv. þm. voru að núv. hæstv. viðskrh. og hæstv. fyrrv. viðskrh. sætu saman í ríkisstj. (GHelg: Já, ég tek það aftur.) Þm. tekur það aftur. Ég er viss um að fyrrv. viðskrh. er reiðubúinn að vinna að slíkum málum nú eins og áður, meðan hann gegndi viðskiptaráðherraembættinu.

Ég vil aðeins benda hv. þm. á að þau lánakortafyrirtæki sem í dag eru hér eru eign bankanna og bankarnir eru háðir bankaeftirlitinu. Að því leyti má segja að bankaeftirlitið hafi tækifæri til að koma að þessu máli eins og stendur. En ég er sammála því, sem hefur komið fram hjá hv. fyrirspyrjanda og hv. 10. landsk. þm., að um þetta þarf að setja lagaákvæði. Það er ekki svo að skilja að ég hafi ekki hugsað um málið, heldur taldi ég eðlilegast að sú lagasetning yrði samferða lagasetningu um seðlabanka, viðskiptabanka og sparisjóði, sem ég vænti að verði til meðferðar á Alþingi eftir að það kemur saman úr jólaleyfi.