06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1390 í B-deild Alþingistíðinda. (1226)

420. mál, efling kalrannsókna

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég mun reyna að blanda ekki Framsfl. í þetta mál meira en óhjákvæmilegt er. Ég er augljóslega ekki rétti aðilinn til að dæma um þekkingu mína á landbúnaði. Ég hef hins vegar áhuga á honum og er þó ekki í Framsfl.

Ég kom hingað upp fyrst og fremst til að skora á hæstv. landbrh. að gera ærlegan skúrk í þessum málum. Það má öllum vera ljóst, hvað sem þáltill. og fsp. líður, að þarna er heldur slælega að staðið, að helsti sérfræðingur þjóðarinnar á þessu sviði skuli ekki hafa nema sem svarar 1/4 af launum til að sinna þessu verkefni. Ég held að það væri alveg lágmark að hann gæti einbeitt sér að þessu og hefði sæmilega starfsaðstöðu eða boðlega. Ég held að það megi ljóst vera. Ég óttast jafnvel að það hafi orðið afturför á þessum sviðum frá því sem var þegar áðurnefndur maður vann að prófverkefni sínu og hafði til þess styrkveitingar að ég held frá Rannsóknaráði og fleiri aðilum og gat með þeim kostað nokkrar tilraunir og ferðalög og haft tilraunareiti hér og þar á hálendi og láglendi. Út úr tilraunum hans komu nokkrar niðurstöður, en síðan finnst mér að hafi verulega á það skort að hann gæti fylgt þeim eftir sem skyldi eða aðrir lagt honum lið. Ég skora á hæstv. landbrh. að gera hér bragarbót.