06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (1242)

113. mál, Námsgagnastofnun

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Lög um Námsgagnastofnun ríkisins voru sett 1979 fyrir tilstuðlan þáv. menntmrh. Ragnars Arnalds. Það var í tíð fyrrv. ríkisstj. reynt að hlúa að þessari stofnun og mér er ekki kunnugt um umr. hér á Alþingi um fjárhagsmál hennar, eins og hæstv. ráðh. var að láta liggja hér að, þó að auðvitað hafi stofnunin vakið athygli með bréfum á fjárþörf sinni. Þurfti þó hæstv. ráðh. að fara aftur til ársins 1980 til að nefna dæmi þar að lútandi, varðandi frágang á Víðishúsinu svonefnda, sem stofnunin hefur nú komið starfsemi sinni fyrir í.

Ég vildi að þetta kæmi fram. Einnig þótti mér heldur koma í bakseglin í ræðu hæstv. ráðh. hér áðan, þar sem hann var að láta í það skína að við mættum eiga von á einhverju í formi útboða í sambandi við gerð kennsluefnis fyrir grunnskóla. Ég vona að þetta sé misskilningur, en reynslan á eftir að skera úr um það, nema hæstv. ráðh. vilji skýra hér nánar mál sitt.