06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (1246)

404. mál, átak gegn útbreiðslu ávana- og fíkniefna

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Það mun ekki fara milli mála að útbreiðsla og neysla vímu- og fíkniefna hefur farið verulega vaxandi hér á landi að undanförnu. Það er margt sem bendir í þessa átt. Eitt af því er það magn sem rannsóknadeild fíkniefnadómstólsins hefur tekið í hendur sínar síðustu árin. Það magn hefur tvöfaldast á þessu ári, er orðið um 20 kg samtals. Það er þó fullljóst að margfalt meira magn er í umferð og hefur það verið áætlað frá hálfu og upp í eitt tonn, en enginn veit með vissu hvert magnið er. Sumir sem með þessum málum fylgjast telja að hér sé raunverulega um miklu meira magn að ræða.

Hér er þess skemmst að minnast er upptæk voru gerð 11.5 kg af hassi í togaranum Karlsefni og 2.5 kg í Lagarfossi og er slíkt magn einsdæmi í þessum efnum. Þau mál, sem hafa komið til kasta fíkniefnadómstólsins, eru um 250–280 alls á ári og flest þeirra eða um 80% eru afgreidd með sektum. Fjölgun þeirra hefur ekki verið áberandi síðustu árin, en orsök þess er sennilega fremur sú, að starfslið rannsóknadeildar fíkniefnadómstólsins er takmarkað fremur en neyslan hafi staðið í stað. Samkv. upplýsingum Ásgeirs Friðjónssonar, yfirmanns sakadóms í ávana- og fíkniefnamálum, virðist aðalbreytingin að undanförnu hafa orðið sú að veruleg aukning hefur átt sér stað í neyslu amfetamíns sem talið er mun hættulegra efni en kannabisefni.

Um neyslu heróíns er enn vart að ræða hérlendis og ekki dæmi um viðskipti með það efni að sögn Ásgeirs, hver sem þróunin kann síðar að verða. Nokkrum vandkvæðum er bundið að gera sér ljóst af fullri nákvæmni hve útbreidd neysla kannabisefna er meðal unglinga hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem enn skortir óyggjandi rannsóknir í því efni. Þær kannanir, sem fram hafa farið, benda þó til þess að a.m.k. 40% ungmenna á aldrinum frá 16 ára til þrítugs hafi neytt fíkniefna í einhverjum mæli. Könnun í 6 framhaldsskólum hér á höfuðborgarsvæðinu leiddi í ljós að 26% ungmenna á aldrinum 18–20 ára reyktu kannabis þótt ekki væri að staðaldri. Þótt þessar kannanir séu e. t. v. ekki gerðar af fyllstu vísindalegri nákvæmni gefa þær þó ótvíræðar vísbendingar í þessum efnum.

Hitt er ekki síður eftirtektarvert að í viðtali við Þórarin Tyrfingsson, yfirlækni hjá SÁÁ, þann 26. nóv. s.l. kemur fram að fullur þriðjungur innlagðra sjúklinga á meðferðarstofnunum SAÁ er háður kannabisefnum. Allt eru þetta vísbendingar um hver þróunin hefur orðið í þessum málum hér á landi og vitanlega væri það hinn mesti barnaskapur að gera sér það í hugarlund að vandi vímuefnanna gangi hjá garði okkar Íslendinga fremur en annarra þjóða og ástandið geti ekki orðið jafn alvarlegt hér og það er víða orðið annars staðar.

Hert eftirlit og bætt löggæsla er vitanlega nauðsynleg og sjálfsögð, en að mínu mati er hér annað mikilvægara. Það er áhrifarík og aukin fræðsla um skaðsemi þessara efna meðal ungs fólks fyrst og fremst. Reynsla annarra þjóða og raunar okkar eigin sýnir okkur að löggæslumönnum tekst aldrei að hafa upp á nema broti af því magni fíkniefna sem inn er flutt. Áhrifarík fræðsla er hér að sínu leyti mikilsverðari. Er skemmst að minnast sjónvarpsþáttar sem sýndi hörmulegar afleiðingar þess að ungur piltur hafði lyktað af límefnum. Slík dæmi gleymast ekki þeim sem þau sjá.

Áhrifamesti fjölmiðill er einmitt sjónvarpið eins og þetta dæmi sýnir, en þar hefur farið næsta lítið fyrir fræðsluefni um þessi mál. Á því þarf að verða breyting og ekki síður þarf að auka mjög fræðslu um þessi mál í grunnskólum og framhaldsskólum landsins, en þar hefur tiltölulega lítið verið um þessi mál fjallað. Að mati Ásgeirs Friðjónssonar sakadómara er hér um áhrifaríkustu ráðin að ræða til þess að koma í veg fyrir neyslu fíkniefna og það er því sem ég ber fram þessa fsp. til menntmrh. hvort menntmrn. hyggist gera ráðstafanir til þess að auka fræðslu í skólum landsins um skaðsemi fíkniefna vegna vaxandi neyslu þeirra meðal unglinga og í öðru lagi hvort ætlunin er að hefjast handa á næstunni um gerð hljóðvarps- og sjónvarpsefnis, þar sem fjallað er um það vandamál sem fíkniefnaneysla er orðin í íslensku þjóðfélagi.