19.10.1983
Neðri deild: 6. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

11. mál, launamál

Kristín Halldórsdóttir:

Afstaða Kvennalistans til þessa frv. er eindregin og við hefðum fegnar viljað koma henni á framfæri fyrr á hinu háa Alþingi. Við erum andvígar skerðingu verðbóta á þann hátt sem hér er lagt til. Við erum tilbúnar að fallast á að nauðsyn hafi borið til að gera breytingar á verðbótakerfinu á s.l. vori samhliða öðrum aðgerðum í efnahagsmálum. Og við teljum að almenningur hafi ekki verið andvígur því sjónarmiði, en við vildum hafa annan hátt á þeim breytingum.

Við töldum það meginatriði í efnahagsaðgerðum að vernda kjör hinna lægst launuðu, en í þeim hópi eru konur fjölmennar. Í þeim tilgangi bárum við fram tillögu um verðbætur á laun, sem við álitum að mundi nýtast best þeim sem lægst eru launaðir. Við kynntum þessa tillögu rækilega á s.l. vori og höfum orðið varar við stuðning margra við þessa tillögu okkar. Þjóðhagsstofnun reiknaði út fyrir okkur töluleg gildi þessarar tillögu og vil ég nú aðeins fara orðum um þá útreikninga.

Þetta eru sem sagt útreikningar frá því í vor. Þá voru meðallaun allra launþega, í ASÍ, BSRB og BHM, samkvæmt taxta 12 230 kr. Við lögðum til að 20% af meðallaunum, þ.e. þá 2446 kr., kæmu sem föst krónutala í verðbætur ofan á meðallaun og öll laun þar fyrir neðan. Síðan kæmi helmingur þeirrar krónutölu ofan á næsta fjórðung launa þar fyrir ofan, en engar verðbætur í efsta fjórðungi launastigans.

Þessi tillaga felur í sér skerðingu verðbóta á hærri laun, en veitir meira en fullar verðbætur þeim sem standa í lægstu þrepum launastigans. Samkvæmt þessari tillögu hefðu um 80% félaga í ASÍ og rösklega 60% allra launþega þarna notið fullra verðbóta eða meira. Heildarupphæð þessara verðbóta í júnímánuði, ef þær hefðu verið greiddar, var áætluð um 170–260 millj. kr. Til samanburðar má nefna að verðbætur samkv. brbl. ríkisstj. eru taldar hafa numið 180 millj. kr. í júnímánuði. Ef okkar tillögu hefði verið fylgt hefði heildarupphæð greiddra verðbóta verið mjög sambærileg við ráðstöfun ríkisstj., en dreifing fjárins mun réttlátari.

Í stað þess valdi ríkisstj: að gefa 8% verðbætur upp allan launastigann, sem viðheldur og eykur enn á þann launamismun sem þegar er orðinn of mikill. Þannig fengu þeir sem við lökust kjör búa tæplega þúsund króna uppbót 1. júní til að mæta þeim hækkunum sem orðnar voru á nauðþurftum eins og búvöru, en þeir sem höfðu t.d. 35 þús. kr, laun fengu 2800 kr. uppbót.

Þó að enginn fagni launaskerðingu eru menn sannarlega misvel í stakk búnir að mæta henni, og er það furðu skammsýn ráðstöfun ríkisstj. að þjarma svo illa að launafólki. Launafólk er að okkar dómi almennt reiðubúið að taka á sig skerðingu kaupmáttar vegna minnkandi þjóðartekna, en um það voru og eru að sjálfsögðu ekki allir jafnfærir. Ég nefni ellilífeyrisþega, öryrkja, námsmenn og lágtekjufólk. Það er fráleitt að ætlast til þess að þetta fólk taki á sig hlutfallslega jafnmikla skerðingu og heilsuhraust fólk með meðaltekjur og þaðan af meira. Það er fráleitt að ætla t.d. einstæðri móður með lágmarkstekjur að þola rýrnun kaupmáttar til jafns við ráðherra eða aðra hátekjumenn með 70–100 þús. kr. tekjur á mánuði. Þetta fólk hefur ekki af neinu að taka. Það getur ekki sparað, því það hefur alltaf þurft að spara. Það er beinlínis ósæmilegt að ganga frekar að þeim sem lægstar tekjur hafa. Og ég lýsi undrun minni á því að tillögum okkar í þessum málum var ekki betur tekið af stjórnmálamönnum. Þá var enginn stjórnmálaflokkur betri en annar, þrátt fyrir margendurteknar yfirlýsingar um að vernda þyrfti kjör hinna lægst launuðu.

Forsrh. sagði áðan að þessi leið væri erfið. Slík hækkun á lægstu laun kæmi venjulega fljótlega fram í efri þrepum launastigans. Við urðum þess raunar ekki varar í vor að viðtökur launafólks væru kannaðar, en vel má það vera. Við fengum svo sem ekki allt að vita sem gerðist þessar vikur í vor. Hins vegar höfum við orðið þess varar að almenningur telur tillögur okkar í þessum efnum mun réttlátari en þær sem urðu ofan á og kynntar eru í því frv. sem hér er til umfjöllunar. Og samkvæmt fréttum t.d. af þingi Verkamannasambandsins virðast launþegar nú leggja áherslu á að lægstu laun séu leiðrétt, en hærri þrepin bíði.

Ég vil einnig lýsa andstöðu Kvennalistans við því að samningsaðilar á vinnumarkaði séu sviptir rétti til samninga og þannig beinlínis vændir um að geta ekki borið ábyrgð á samningum. Ég vona að alþm. beri gæfu til að skila aðilum vinnumarkaðarins aftur samningsrétti sínum og fari þar að vilja alls þorra launþega, sem á margan hátt hefur komið fram, — nú síðast með undirskriftum þeim sem Alþingi geymir, vafalaust vandlega og af trúmennsku. Og ég vil lýsa hryggð minni yfir þeim viðtökum sem fulltrúar launþega fengu þegar þeir afhentu forsrh. og Alþingi þessa undirskriftalista. Athugasemd um vöntun heimilisfanga var ósmekkleg og bein móðgun við þá sem hlut áttu að máli. Þeir sem skrifuðu nöfn sín á þessa lista gerðu það til þess að mótmæla brbl. ríkisstj. en ekki til að fá einkabréf frá ráðh.

Ég lýsi samstöðu með þeim sem skrifuðu á þessa lista. Ég lýsi andstöðu við frv. sem hér er til umr. Ég hef lokið máli mínu.