06.12.1983
Sameinað þing: 29. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1453 í B-deild Alþingistíðinda. (1284)

112. mál, nýting ríkisjarða í þágu aldraðra

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 139 hef ég leyft mér ásamt hv. þm. Skúla Alexanderssyni og Steingrími J. Sigfússyni að bera fram svohljóðandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta fara fram könnun á þeim möguleika að nýta bújarðir (ríkisjarðir sérstaklega) í nánd þéttbýlisstaða með góða heilsugæsluaðstöðu sem dvalarheimili fyrir aldraða.

Dvalarheimilin yrðu byggð upp sem smáar einingar, þar sem búandfólk, sem flytja þarf af bújörðum sínum vegna aldurs eða heilsubrests, gæti haft smábúskap, sameiginlega eða út af fyrir sig undir ákveðinni yfirstjórn og með nauðsynlegri aðstoð og aðhlynningu.

Reynt yrði einnig að tengja slík heimili svo sem kostur væri við smáiðnað í sveitum.“

Ég skal ekki hafa langa framsögu um þetta mál. Grg. segir í raun allt sem segja þarf um tilurð þess, hugmyndina að baki og helstu möguleika þess að hrinda henni í framkvæmd. Mér þykir raunar að undarlegt tómlæti hafi ríkt hér um málið því að þessi till. hefur nokkrum sinnum verið flutt áður, en aldrei orðið útrædd, en hér hefur verið mikið talað um og mikið verið gert varðandi velferð aldraðra og möguleikana til að bera birtu og hlýju inn í líf þeirra á ævikvöldi. Trúlega stafar þetta af því að mönnum er hugmyndin framandi og þykir hún e.t.v. erfið í framkvæmd. En okkur flm. þykir sem svo horfi um þessi mál í heild sinni, svo margt sé þar ógert og svo ærinn vandi óleystur að einskis megi láta ófreistað að láta á það reyna hvort hugmyndin er þess verð að kanna hana til fullnustu.

Fyrst er þar til að taka að hugmyndin er frá þeim komin sem sjálfir hafa orðið að hætta búskap og flytjast í þéttbýlið við um margt framandi aðstæður með talsvert starfsþrek til margra verka en ónógt til þess að stunda einyrkjabúskapinn með öllu því erfiði sem honum fylgir. Það er bændafólkið sjálft sem hefur komið þessari hugmynd á framfæri og sú ófullkomna útfærsla hennar sem í grg. felst er sameiginlega frá því fólki og okkur flm. og til viðbótar ákveðin framkvæmd svipaðra hugmynda í Noregi sem vísir aðilar fræddu okkur á.

Við bendum á að víða eru bújarðir vel staðsettar og vel hýstar sem ekki þyrfti mikið fyrir að gera í viðbótar húsnæði og breytingum á húsnæði til að þjónað gæti þeim smáeiningum sem hér eru hugsaðar. Hinar smærri einingar eru nú í sókn, en fjöldastofnanir á undanhaldi sem betur fer.

Við bendum á að slík heimili sem við viljum kalla svo þurfa vissulega að vera í nokkurri nálægð við heilsugæsluþjónustu, ekki of mikið út úr, ekki of einangruð. Við bendum hins vegar á að einangrun og tilfinningin fyrir því að vera í rauninni týndur og yfirgefinn er ekki síður til staðar á fjölmennum stofnunum, þessa þekkja allir dæmi.

Við bendum á að hér gæfist þessu fólki ákveðinn möguleiki til starfs tengdu því lífshlaupi sem lifað hefur verið, viðbrigðin yrðu ekki eins mikil, aðlögunin að nýju umhverfi ekki eins erfið. Starfs- og tekjumöguleikar, sjálfsbjargarmöguleikar yrðu til staðar, í smáum stíl þó en nægir til að veita meiri fyllingu á síðkveldi ævidagsins.

Við bendum á að þar sem kynslóðaskipti eru ekki sjálfgefin býr margt búandi fólk lengi við óhæfar aðstæður án þess að megna það í raun, aðeins vegna óttans og kvíðans við óvissuna og þess að hafa að engu öðru að hverfa, þurfa að slíta sig frá starfi og umhverfi og setjast með öllu í helgan stein.

Vissulega hefur víða verið reynt að skapa hinum aldurhnignu verkefni við hæfi á dvalarheimilum og er það vel. Hér er fitjað upp á einni leið til að skapa þá aðstöðu. Iðjuleysi er þessu erfiðisfólki skapi fjærst, tómarúmið þarf að fylla þar sem annars staðar og ekki síður. Þeir sem mest tala um offramleiðslu á landbúnaðarvörum ættu að huga að því sem ég sagði áðan um fólkið með bústofninn sem það heldur í löngu eftir að það er í rauninni ókleift. En þetta er aukaatriði og útúrdúr.

Við sjáum þetta fyrir okkur og þannig var hugmyndin sett fram upphaflega að sex til tíu yrðu á heimili sem þessu, bæði hjón og einstaklingar, með eigin smábúskap eða aðra iðju þar sem starfskraftar nýttust við umhirðu og önnur störf. Ráðsmaður eða fyrirsvarsmaður sæi um það sem heimilisfólki væri ofviða, en starfsliði yrði stillt í hóf sem allra mest. Ýmist mætti hugsa sér matseld út af fyrir sig eða sameiginlega eftir aðstæðum. Önnur atriði svo sem þjónusta og fleira því um líkt hlytu að vera svipuð og á öðrum dvalarheimilum en trú okkar er sú að í engu yrðu þau útgjöld meiri en almennt gengur og gerist nema síður væri.

Eflaust þykir ýmsum þessi útfærsla ófullkomin og sumum kann að þykja óraunsæi fylgja og viss draumórakennd. Ég bendi þeim hinum sömu á að lesa grg. með þessari till. en ætla ekki að fara út í það hér, það er óþarfi, hún liggur frammi og hefur legið reyndar frammi á undanförnum þingum, því miður allt of mörgum.

Ég hef heyrt það að hér væri um draumórakennda hugmynd að ræða og það kemur mér eða okkur flm. ekki neitt á óvart, en bent er á að könnun á þessu er það eina sem till. fer fram á. Ég hef orð tveggja valinkunnra manna, sem fást við og hugsa mikið um málefni aldraðra, fyrir því að hugmyndin sé allrar athygli verð og freistandi að gera hana að veruleika. Báðir hafa bent á annmarka en báðir hafa talið kostina fleiri að athuguðu máli. Þessir menn sem ég hlýt að mega nafngreina eru Sigurður Magnússon hjá Rauða krossinum og Guðjón B. Baldvinsson. Orð þeirra urðu mér sem öðrum flm. hvatning til að láta enn reyna á hvort hugmyndin mætti fá hér einhvern hljómgrunn. Ég vísa að öðru leyti til grg. en hlýt þó í lokin að minna á að það ágæta fólk sem upphaflega gaf mér hugmyndina hefur ítrekað við mig ýmis þau rök sem uppi voru höfð þá. Þeirra orð skulu mín lokaorð, en þau voru eitthvað á þessa leið: „Við munum ekki njóta þessa, en vissa okkar er sú að ef vel tækist til mundu margir njóta þessa í framtíðinni með þakklátum huga.“ Ég bið því hv. þm. að hugleiða þessi orð með okkur flm. og legg til að að loknum þessum umr. verði till. vísað til hv. allshn.