07.12.1983
Efri deild: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1470 í B-deild Alþingistíðinda. (1301)

133. mál, gjaldeyris- og viðskiptamál

Helgi Seljan:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í sambandi við þetta. Hér hefur orðið mikil breyting á. Ég kann vel sögu Búnaðarbankans í sambandi við leyfi til gjaldeyrisverslunar og þá þrautagöngu sem annar stærsti banki landsins var farinn að ganga til að fá heimild til þessa. Seðlabankinn hélt þarna fast um og viðskrh. sömuleiðis þangað til hv. þm. Tómas Árnason sá ástæðu til þess sem viðskrh. að veita þessa heimild. Ber að þakka honum fyrir að það var gert því að vitanlega var þetta ótækt með öllu. En einhvern veginn rámar mig í að þær viðbárur, sem Seðlabankinn og viðskrn. höfðu á sínum tíma gegn því að Búnaðarbankinn fengi slíkt leyfi, væru eitthvað tengdar auknum kostnaði í bankakerfinu, aukinni útþenslu og fleira starfsliði, sem bankarnir vitanlega mundu svo ná til sín aftur frá viðskiptavinum. Ég spyr því hæstv. ráðh. þegar það liggur fyrir að nú eiga allir viðskiptabankarnir að fá þetta og sparisjóðirnir einnig. Hver verður þróunin í þessum efnum? Hvað er líklegt að gerist í þessu efni? Eru viðskiptabankarnir t.d., þeir sem nú hafa ekki gjaldeyrisleyfi, komnir af stað með að fá sitt leyfi til þess arna aðrir en þeir þrír sem voru með þessi viðskipti? Ég er ekki nógu vel að mér til þess að vita það. Hér er um stórar bankastofnanir að ræða og ég veit það, af því að ég er kunnugur úti í Búnaðarbanka, að það kostaði talsvert mikið og var býsna dýrt, bæði í húsnæði og mannahaldi, að koma þessu á. Ég hef trú á því að það verði svo. Að sjálfsögðu vitum við að það eru ekki bankarnir sem borga þetta. Það verða viðskiptavinirnir sem borga þetta að lokum og kannske fyrr en seinna. Hver verður þróunin í þessum efnum, hæstv. ráðh.? Á að gefa allt frjálst nú þegar? Auðvitað hlýtur það að fara eftir óskum viðkomandi banka og viðkomandi sparisjóða. Það er auðvitað frumskilyrðið. En hvernig standa þessi mál í dag? Væri hægt að fá upplýsingar um hvaða bankar eða sparisjóðir eru með þetta í farvatninu hjá sér? Kannske sá sparisjóður sem hæstv. viðskrh. var einu sinni framkvæmdastjóri fyrir og er máske enn.