12.12.1983
Efri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1641 í B-deild Alþingistíðinda. (1415)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð um málið frekar.

Mér þótti vænt um að heyra á hæstv. fjmrh., sem ég reyndar ýjaði að í minni ræðu, að það væri þungbær ákvörðun að þurfa að gera þetta. Það er vissulega þungbært á þessum tímum, þegar menn verða að ákveða áherslur og forgangsverkefni, að taka þetta verk eitt út úr. En hitt þótti mér öllu merkilegra, að hann taldi þessa flugstöð einn veigamikinn þátt í því að styrkja varnir landsins sem allra mest. Þar fór heldur öðruvísi en hann sagði í upphafi um að þetta ætti ekkert skylt við neitt slíkt.

Ég ætla ekki að elta ólar við gamlar deilur um þessi mál, um það hvernig þessi flugstöð hefði átt að vera. Ég rakti það hér áðan að Alþb. lýsti ekki yfir andstöðu við flugstöð á Keflavíkurflugvelli, heldur vildi hafa hana öðruvísi, öðruvísi hannaða, jafnvel þannig að hún kæmist fyrr í gagnið og væri af viðráðanlegri stærð sem mætti þá stækka síðar. Þetta var gert meðan Alþb. átti sæti í ríkisstj. og þarf ekkert að rekja hér frekar.

Ég segi það bara að mig tekur sárt til hæstv. ráðh., sem verður núna að telja þessa frv.- ómynd sína þungbæra ákvörðun vegna þess hvernig ástandið er.

Meðal annars kom hann inn á að þetta ætti ekkert skylt við framkvæmdir í flugvallamálum úti á landi. Það er spurning um hvað verja á miklu fé til allra flugvalla á landinu. Af því að hér var talað um flugkot áðan af hv. 6. landsk. þm. vil ég geta þess að flugkotin eru býsna mörg úti um land. En þau eru ekkert á dagskrá því þetta gengur fyrir. Það er þess vegna spurning um það, þegar hart er í ári eins og við höfum viðurkennt, í hvað menn vilja þá leggja þá litlu peninga sem til ráðstöfunar eru. Hér hafa menn valið þessa flugstöð fram yfir annað, fram yfir það sem ég rakti hér áðan og ég endurtek að ég veit að eru áhugamál hæstv. fjmrh. Þetta hefur hann tekið fram yfir og þetta hefur hæstv. ríkisstj. tekið fram yfir, og verði henni að góðu, meðan svo stendur á sem nú í okkar fjármálum almennt.

Ég skal ekki hafa um þetta mörg orð nú, síst af öllu rifja upp þann ókennilega kýrhaus sem hæstv. ráðh. var að tala um að kæmi austan að. Ég vona að það eigi ekkert skylt við okkur hæstv. iðnrh. eða neitt því um líkt, að hann komi þaðan að austan. (Gripið fram í.) Nú, þá er það skýrt, en mig var farið að gruna að hann væri að tala um eitthvað í þá áttina.

En varðandi flugvellina held ég að það hafi verið mjög skynsamleg tillaga varðandi flugmálin í heild, sem Alþb. lagði einmitt til í þessum efnum, að gera heildaráætlun um framkvæmdir í íslenskum flugmálum þar sem þessi flugstöð, viðráðanleg flugstöð, væri felld inn í og hún fengi ekki neinn forgang heldur stæði jafnfætis öðrum framkvæmdum í okkar flugmálum.

Hæstv. fjmrh. þarf ekkert að vera undrandi á því þó að ég beri honum góða sögu sem flugráðsmanni. Ég ætla að vona að þó að hæstv. fjmrh. virðist ætla að verða vondur fjmrh. sé mér óhætt að sýna honum fulla sanngirni varðandi fyrri störf hans og gera það hér úr þessum ræðustól.