13.12.1983
Sameinað þing: 31. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1734 í B-deild Alþingistíðinda. (1471)

1. mál, fjárlög 1984

Frsm. minni hl. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Þegar fjvn. hefur nú lokið störfum fyrir 2. umr. vil ég flytja meðnm. mínum, starfsmanni nefndarinnar og hagsýslustjóra þakkir fyrir gott og ánægjulegt samstarf og þá sérstaklega formanni fjvn., hv. 2. þm. Norðurl. e., Lárusi Jónssyni, sem hefur stjórnað störfunum af röggsemi, góðri skipulagningu og einstakri lipurð.

Tími til að sinna viðtölum við þá sem leita á fund nefndarinnar var knappari nú en á undanförnum árum þegar nefndin hefur hafið störf um mánaðamótin sept.-okt. og lokið viðtölum við sveitarstjórnarmenn fyrir þingsetningu. Þetta var unnið upp með mun meiri vinnu um kvöld og helgar og jafnvel á þingfundatímum.

Varðandi þær brtt. sem n. flytur sameiginlega er rétt að taka fram að við sem skipum minni hl. fjvn., fulltrúar Alþb., Alþfl., BJ og Samtaka um kvennalista, höfum tekið þátt í að gera tillögur um skiptingu fjárhæða milli einstakra framkvæmda innan þess heildarramma hvers framkvæmdaflokks sem meiri hl. n. hefur ákvarðað. Við höfum því áskilið okkur rétt til að flytja brtt. eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma.

Í því sambandi við ég leggja áherslu á að við erum sérstaklega ósammála þeirri ákvörðun meiri hl. n. að skerða raungildi framkvæmda til dagvistarheimila og þeirri ákvörðun að leyfa engar nýjar framkvæmdir við dagvistarheimili sem hafa þó áður fengið fjárveitingar á fjárlögum til undirbúnings framkvæmda og flytjum á þskj. 194 brtt. þess efnis að framlag til þessa málaflokks hækki um 20 millj. frá till. í fjárlagafrv.

Þegar fyrsta fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj. kemur til afgreiðslu eru ríflega fimm ár síðan sjálfstfl. skildi við stjórn ríkisfjármála eftir að hafa haldið þannig á þeim málum að útgjöld ríkisins sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu voru að meðaltali á fjórum stjórnarárum Sjálfstfl. hærri en á tímabili nokkurrar ríkisstj. sem áður hafði setið og metútgjöld miðað við þennan mælikvarða náðust undir stjórn Sjálfstfl. árið 1975 þegar þetta hlutfall varð hærra en það hefur nokkru sinni orðið fyrr eða síðar eða 30.4%. Málsvarar Sjálfstfl. hafa æðioft til að fela þessar staðreyndir kosið að miða fremur við hverjar tekjur ríkissjóðs hafi á stjórnarárum hans orðið sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, en það látið liggja á milli hluta að vegna þess hve lítt var um það sinnt á þessum árum, þegar Sjálfstfl. fór með stjórn ríkisfjármála, að hafa samræmi á tekjum og útgjöldum varð sá fjmrh. sem við tók að kljást við það verkefni að greiða niður þær stórfelldu skuldir ríkissjóðs sem eftir voru skildar.

Auk þess að afla tekna fyrir þeim útgjöldum sem til féllu á því tímabili sem við tók varð einnig að innheimta skatta af landsmönnum fyrir þeim útgjöldum ríkissjóðs sem efnt var til í tíð fjármálastjórnar Sjálfstfl. án þess að aflað hafi verið tekna fyrir þeim. Þær upphæðir, sem þannig varð að greiða í atborganir og vexti til Seðlabankans vegna óráðsíu í fjármálastjórn Sjálfstfl., námu á verðlagi í dag um 2500 millj. kr. en það jafngildir mótframlagi ríkissjóðs til framkvæmda sveitarfélaga í rúmlega sex ár miðað við þá fjárhæð sem nú er í fjárlagafrv. til þessara framkvæmda, þ.e. skólabygginga, hafnaframkvæmda, sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og dagvistarheimila. Greiðslur á þessari skuldasúpu, sem var undir stjórn Sjálfstfl. á ríkisfjármálum skilin eftir handa öðrum til að greiða, námu á núgildandi verðlagi um 54 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu. Þessi viðskilnaður var hin raunverulega útfærsla Sjálfstfl. á stefnumálum sínum um lækkun ríkisútgjalda, aðhald í ríkisrekstri og ábyrgð á meðferð opinbers fjár.

Nú hefur Sjálfstfl. aftur tekið við stjórn ríkisfjármála með tilstyrk Framsfl. Með leiftursókn gegn lífskjörum launafólks hafa þessir flokkar keyrt svo niður kaupgetu hjá almenningi að tekjur ríkissjóðs af neyslusköttum hafa stórlega minnkað og skuldasöfnunin hjá Seðlabankanum er hafin að nýju. Vextir af þeirri skuld eins og hún er áætluð um næstu áramót. en talið er að hún muni nema alls um 1100–1200 millj. kr., eru ekki einu sinni meðreiknaðir til útgjalda á fjárlögum næsta árs, hvað þá greiðsla á skuldinni sjálfri, enda ljóst að hún verður þess í stað enn aukin á næsta ári.

Ekki hafa fengist upplýsingar um hversu hárri upphæð þessir vextir af skuldinni um áramótin nemi á næsta ári, en til hliðsjónar má hafa að í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því að vextir af þeirri yfirdráttarskuld sem efnt verður til á næsta ári nemi 45 millj. kr. Hversu áreiðanleg áætlunin um vaxtaútgjöld ríkissjóðs á næsta ári er, en þau nema 840 millj. kr., ræðst svo að verulegu leyti af því hvernig fer um það markmið hæstv. ríkisstj. að halda gengisskráningu sem næst óbreyttri á næsta ári. Kunna ýmsir að draga í efa að það markmið sé raunhæft og þá um leið vaxtaupphæðin.

17 milljarða kr. fjárlagafrv. var lagt fram með 9 millj. kr. rekstrarafgangi. Í útgjaldahliðina vantaði þá eins og getið er um í grg. með fjárlagafrv. þau útgjöld til vegaframkvæmda sem fjármögnuð eru með lántökum og nú má ætla að geti numið um 340 millj. kr., miðað við þær forsendur sem hafa verið lagðar fram varðandi markaða tekjustofna Vegasjóðs og núgildandi áætlun um þjóðarframleiðslu á næsta ári, en samkv. forsendum fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að útgjöld til vegamála nemi 2.2% af þjóðarframleiðslu 1984. Auk þessarar upphæðar, 340 millj. kr., sem enn vantar inn í rekstrarútgjöldin, eru ýmis útgjöld ríkissjóðs vantalin. Má þar nefna framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs, sem er vantalið um 30 millj. kr., og samkv. nýframlögðu frv. um húsnæðismál er gert ráð fyrir því að útgjöld ríkissjóðs til húsnæðismála verði á næsta ári aukin og nemi um 240 millj. kr. umfram þá upphæð sem í fjárlagafrv. er. Verði sú upphæð tekin að láni til viðbótar við lán vegna vegamála, sem eru enn ekki komin inn í frv., gætu lántökur til A- og B-hluta fjárlaga orðið ríflega 70% hærri á fjárlögum fyrir árið 1984 en í núgildandi fjárlögum, á sama tíma og verðlagshækkanir eru áætlaðar 23%. Vitaskuld verða slíkar lántökur ígildi erlendrar skuldasöfnunar með Seðlabankann sem millilið eða þá að ríkissjóður ýtir öðru út af innlenda lánamarkaðinum, en í grg. með fjárlagafrv. stendur að meginatriðið sé að erlendar skuldir haldi ekki áfram að aukast.

Miðað við tekjuhlið fjárlagafrv. og þá afgreiðslu útgjaldaliliðar sem við blasir er ekki annað sýnt en að stefnt sé að hallarekstri á ríkissjóði á næsta ári. Endurmat á tekjuhlið hefur nefndin eða a.m.k. minni hl. hennar ekki fengið að sjá, þrátt fyrir að af hálfu minni hl. hafi margsinnis verið óskað eftir því að fulltrúar Þjóðhagsstofnunar kæmu eins og venja er til á fund fjvn. fyrir 2,. umr. til þess að gera grein fyrir tekjuáætluninni og hugsanlegum breytingum á forsendum hennar síðan hún var samin. Mér þykir slæmt að ekki skuli hafa verið talið fært að verða við þessum óskum, en það er þó nánast hið eina sem ég hef að athuga við það sem að minni hl. hefur snúið varðandi vinnubrögð í nefndinni.

Ég hef áður lýst því hvernig til tókst um stjórn Sjálfstfl. á ríkisfjármálum, þegar hann bar ábyrgð á þeim málum síðast, en þrátt fyrir þá sýnikennslu sem Sjálfstfl. stóð fyrir í eyðslustefnu og skuldasöfnun ríkissjóðs hefur hann þó ávallt síðan haldið á lofti stefnunni um að ríkisumsvif yrðu minnkuð í því skyni að þegnar þjóðfélagsins hefðu þeim mun meira fé til eigin ráðstöfunar. Það er þó ekki með þessum hætti, sem flokkurinn útfærir kenningar sínar þegar hann ræður ríkisfjármálunum á ný, heldur verður samdráttur í ríkisumsvifum knýjandi og þvinguð afleiðing af þeirri leiftursókn sem Sjálfstfl. og Framsókn hafa staðið fyrir gegn lífskjörum almennings, með þeim afleiðingum að kjör launafólks hafa skerst langt umfram rýrnun þjóðartekna. Jafnvel er nú komið í ljós að afleiðingarnar af svo stórskertum kaupmætti hjá almenningi eru svo afdrifaríkar á hag ríkissjóðs, að höfundar leiftursóknarinnar sjá ekki önnur ráð en hækkaða skattbyrði og hallarekstur ríkissjóðs, líklega í von um að einhverjir aðrir greiði skuldirnar seinna. Ríkisumsvifin minnka, en það kemur ekki fram í bættri stöðu ríkissjóðs — skuldirnar aukast. Ríkisumsvifin minnka ekki til þess að launafólk hafi meira fé til eigin ráðstöfunar heldur vegna þess að kjörin hafi verið skorin svo stórlega niður að það bitnar á tekjum ríkissjóðs. Og launafólk hefur ekki haft minna til ráðstöfunar jafnvel í áratugi.

Nú hefur þjóðin fengið að kynnast hinni raunverulegu aðferð Sjálfstfl. til þess að minnka ríkisumsvifin. Hún felst einfaldlega í því að með beinni kaupskerðingu, stórfelldum verðhækkunum vegna gengisfellingar, risahækkunum þjónustugjalda og banni við kjarasamningum hefur launafólk verið knúið til þess að draga saman neyslu sína. Svo harkalegar aðgerðir í því skyni að hafa hemil á innflutningi þarf að skoða í því ljósi að launafólk notar aðeins 1/3 hluta innflutningsins en 2/3 ráðast af innkaupum annarra og engar ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að hafa hemil á eyðslu þeirra. Eyðslugeta þeirra hefur þvert á móti verið bætt að því leyti sem þeir njóta góðs af lækkun launaútgjalda. Aðferð Sjálfstfl. til þess að koma fram því kosningaloforði að draga úr greiðslum atmennings til ríkissjóðs er sem sagt sú að losa fólk við að greiða söluskatt og önnur gjöld til ríkissjóðs af þeim vörum sem ríkisstj. hefur með stefnu sinni séð um að það geti ekki lengur keypt.

Ríkisstj. hefur látið í veðri vaka að sérstakar ráðstafanir hafi verið gerðar til þess að hlífa þeim sem við erfiðasta fjárhagsafkomu búa. Það er því rétt að huga sérstaklega að því hvernig stjórnarstefnan hefur leikið hag þess fólks. Ef skoðað er hversu mánaðargreiðslur ellilífeyrisþega með fulla tekjutryggingu duga í dag til kaupa á einstökum vörutegundum í samanburði við kaupmátt gagnvart þessum sömu vörutegundum og þjónustu á sama tíma í fyrra kemur eftirfarandi í ljós:

Ellilífeyrir og tekjutrygging nam 1. des. 1982 samtals 5188 kr. en 1. des. 1983 7018 kr. Eitt kg af smjöri kostaði 1. des. í fyrra 109.70 kr., í ár 200.40 kr. Einn lítri af nýmjólk kostaði 1. des. í fyrra 9.70 kr., í ár 17.10 kr. Eitt kg. af súpukjöti kostaði 1. des í fyrra 69.80 kr. en í ár 122.10 kr. Eitt kg af nýrri ýsu kostaði 1. des. í fyrra 18.80 kr., 36.20 kr. í ár. Fastagjald af síma í þrjá mánuði var 1. des. 1982 418.65 kr., 1. des. 1983 710.10 kr. Eitt tonn af heitu vatni hjá Hitaveitu Reykjavíkur kostaði 1. des. í fyrra 5.33 kr., í ár 12 kr. Ein kwst. af rafmagni á heimilistaxta í Reykjavík kostnaði 1. des. í fyrra 1.80 kr., í ár 3.46 kr.

Fyrir ellilífeyri + tekjutryggingu einstaklings fengust 1. des. í fyrra 47.2 kg af smjöri en 35 kg. nú. 1. des. 1982 fengust fyrir lífeyrinn 534.8 lítrar af nýmjólk en 410.4 lítrar 1. des. í ár. Í fyrra fengust 74.3 kg af súpukjöti fyrir ellilífeyrinn og tekjutrygginguna en 57.5 kg í ár. Ellilífeyrir og tekjutrygging dugðu í fyrra í 37.2 mánuði fyrir fastagjaldi af síma en í 29.6 mánuði í ár. Fyrir ellilífeyrinn og tekjutrygginguna fengust í des. í fyrra 2882 kwst. af rafmagni á heimilistaxta í Reykjavík en 2028 í ár. Og gamalmennunum dugði framlagið frá Tryggingastofnun ríkisins fyrir 973.4 tonnum af heitu vatni frá Hitaveitu Reykjavíkur í fyrra en fyrir 584.8 tonnum í ár. Þ.e. fyrir greiðsluna frá Tryggingastofnun ríkisins fékk gamla fólkið 1. des. í fyrra 34.8% meira af smjöri en í ár, 30.3% meira nýmjólk, 29.2% meira af súpukjöti, 25.7% meira magn símaþjónustu, 42.1% meira rafmagn til heimilisnota og 66.5% meira af heitu vatni frá Hitaveitu Reykjavíkur.

Þegar haft er í huga að þjóðartekjur á mann hafa lækkað um 4.9% á þessum sama tíma er naumast undur þó að spurt sé: Var þörf á því að ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. reiddi svo hátt til höggs gegn þeim sem verst eru settir í þjóðfélaginu og hafa nú um 7 þús. kr. til lífsframfæris á mánuði? Þegar svo hefur farið um kaupmátt hjá því fólki sem ríkisstjórnarflokkarnir telja sig hafa gert sérstakar ráðstafanir til að hlífa má geta nærri hver áhrif leiftursóknaraðgerðanna hafa verið hjá öðrum.

Áhrifin af þessari gríðarlegu skerðingu kaupmáttar á tekjur ríkissjóðs knýja að sjálfsögðu á um aukið aðhald í rekstri, og ég vil ekkert draga úr því að viðleitni í þá átt hafi verið við höfð þótt misjafnlega hafi til tekist. Það hefur ávallt reynst erfitt að fá ráðh. til að taka á í því skyni að draga úr útgjöldum þeirra stofnana sem heyra undir rn. þeirra og í því sambandi ekki skipt máli hvaða ríkisstj. hefur setið. Það er oft engu líkara en að ráðh. þyki vegur sinn aukast í réttu hlutfalli við aukin umsvif, fleira starfsfólk og meiri útþenslu og líti svo á að þeir standi sig ekki sem skyldi fyrir stofnanir sínar ef þeir verja ekki eyðsluna og standa ekki gegn tilraunum til að herða að rekstrinum. Sé það svo að þeir séu orðnir meðfærilegri til þess að veita stofnunum sínum fjárhagslegt aðhald má segja í sambandi við þrengingar ríkissjóðs í kjölfar kaupskerðingaraðgerðanna að fátt sé svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Hvernig svo tekst til í reynd á eftir að koma í ljós en fjvn. hefur ekki haft aðstöðu til þess að fylgjast með eða hafa áhrif á framkvæmd fjárlaga. Ég gerði aukafjárveitingar að umtalsefni við afgreiðslu fjárlaga í fyrra og eins og þá kom fram hefur n. í hæsta lagi — og fyrst í fyrra — fengið skýrslu um hverjar aukafjárveitingar hafa verið en ekkert haft um þær að segja né heldur nokkur annar aðili af hálfu Alþingis. Ég fagna því að hér er fyrirhuguð breyting á. Ég hygg að slík ráðstöfun gæti leitt til aukins aðhalds.

Við samningu fjárlagafrv. hefur verið gerð tilraun til að aðlaga áætlun um rekstrarútgjöld á næsta ári raunverulegum útgjöldum og það hvarflar ekki að mér að bera rekstrartölur úr fjárlögum árisins 1983 saman við hliðstæðar tölur úr fjárlagafrv. 1984 án þess að taka tillit til þess og halda því fram að ætlunin sé að auka útgjöld sem öllum mismuninum nemur eða jafnvel ríflega 100% í einstökum tilfellum. Það er sjálfsagt nóg til að deila um þó að látið sé vera að hasla sér völl á slíkum grundvelli.

Verulegur hluti tölulegrar hækkunar á öðrum rekstrargjöldum í fjárlagafrv. stafar af því, sem ljóst er, að fellt er í það bil sem í hverju tilfelli hefur orðið milli raunverulegra útgjalda og áætlunartalna á fjárlögum, án þess að í því einu felist raunverulega aukin útgjöld. Á hinn bóginn krefjast slíkar aðgerðir talsverðrar varkárni og nákvæms mats á því hvort allur raunverulegur kostnaður umfram þá áætlun sem gilt hefur í fjárlögum á að verða grundvöllur áframhaldandi fjárveitinga. Í ýmsum tilvikum getur hluti kostnaðar verið bundinn sérstaklega við tiltekið ár og ekki tilefni til að festa þau útgjöld í uppfærðri áætlun. Einnig er hætta á því að stofnanir sem hefur tekist að þrengja fram útgjöldum umfram áætlanir fái þau varanlega niður negld, en hjá öðrum sem hafa reynt að halda sig mest innan útgjaldaáætlana verði það aðhald haft til áframhaldandi viðmiðunar. Þannig gætu þeir notið upphækkunarinnar sem síst skyldi en þeir goldið sem síst ættu skilið. T.d. er það svo að við það að áætlanir um önnur rekstrargjöld stofnana eru aðlöguð raunverulegum útgjöldum þarf að hækka önnur rekstrargjöld tölulega hjá aðalskrifstofu landbrn. um 221.3%, hjá aðalskrifstofu utanrrn. um 174.8%, hjá aðalskrifstofu viðskrn. um 162.1% en hjá Hagstofu Íslands um 50.6%. Þetta skýrir e.t.v. nokkuð það sem ég hef verið hér að benda á.

Fjvn. hefur engan veginn gefist tími til að endurmeta þessa uppfærslu rekstrarútgjalda sem byggð er á niðurstöðu ríkisreiknings fyrir árið 1982. En það hefur, eins og ég átti von á, komið í ljós að í þeim tiltölulega fáu tilvikum þar sem hægt hefur verið að fá upplýsingar um hver yrðu raunveruleg rekstrarútgjöld stofnana 1983, en það ætti að vera nokkuð ljóst þegar ekki lifir nema mánuður ársins, hefur ýmsum af þeim stofnunum verið úthlutað í fjárlagafrv. meira rekstrarfé að raungildi á næsta ári en raunveruleg útgjöld verða á þessu ári. Þ.e. í stað þess að lækka liðinn Önnur rekstrargjöld eins og lýst er yfir að sé ein af meginforsendum fjárlagafrv. þá fá þessar stofnanir að eyða meira fé á næsta ári en í ár.

Ef beitt er forsendum fjárlagafrv. á raunveruleg útgjöld á árinu 1983 um verðbreytingar og 5% niðurskurð ætti liðurinn Önnur rekstrargjöld hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins t.d. að nema 6.8 millj. en er í frv. 7.3 millj., þar munar 1/2 millj. kr. Hjá Siglingamálastofnun ríkisins ættu rekstrarútgjöld að vera 4.1 millj. miðað við óbreytt umsvif en eru í frv. 6 millj., þar munar 1.9 millj. Hjá St. Jósefsspítala, Landakoti, ættu rekstrarútgjöld að vera 81 millj. en eru í frv. 86 millj., mismunurinn er 5 millj. Hjá Vita- og hafnamálaskrifstofunni ættu rekstrarútgjöld að vera 2.1 millj., eru 3.7 millj. í fjárlagafrv. og mismunurinn 1.6 millj. Hjá Orkustofnun ætti rekstrarútgjöld að vera 62.3 millj. en eru í frv. 70.9 millj. Þar munar 8.6 millj. kr. en þar gætu sértekjur einnig verið ofáætlaðar. Hjá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri ættu rekstrarútgjöld að vera 66.7 millj., eru í frv. 68.6 millj., þar munar 1.9 millj. Hjá Flugmálastjórn ættu rekstrarútgjöld að vera 37.3 millj., eru í frv. 39.8 millj., þar munar 1.5 millj. kr. Hjá aðalskrifstofu félmrn. ættu rekstrarútgjöld að vera 3.1 millj. en eru í frv. 3.7 millj., þar munar 600 þús. kr. Hjá aðalskrifstofu sjútvrn. ættu önnur rekstrargjöld að vera 3 millj., eru 3.9 millj., þar munar 900 þús. kr. Hjá aðalskrifstofu menntmrn. ættu rekstrargjöld að vera 12.4 millj. en eru í frv. 13.7 millj., þar munar 1.3 millj.

Eins og ég áður sagði hefur n. alls ekki gefist tími til að endurskoða áætlanir um önnur rekstrargjöld í frv., en á því hefði þó verið veruleg þörf ef ætlunin er að beita aðhaldi gagnvart stofnunum að því er varðar önnur rekstrargjöld, og slæmt að láta mislukkaða uppfærslu gjalda út frá ríkisreikningi 1982 valda því að óbreyttar till. í fjárlagafrv. verði í mörgum tilvikum grundvöllur til aukningar rekstrarútgjalda á næsta ári þvert ofan í yfirlýsta stefnu. Í örfáum þeirra tilvika þar sem í ljós hefur komið að í frv. er gert ráð fyrir hækkun rekstrarútgjalda en ekki lækkun hefur n. flutt till. um lagfæringar.

Þegar hagur ríkissjóðs hefur verið leikinn svo sem raun ber vitni með stórfelldum niðurskurði kaupmáttar hjá almenningi þá eru aðstæður með þeim hætti að naumast er grundvöllur til þess að standa þannig að fjárveitingum til félagslegra framkvæmda sem þörf er á. Mjög hörkulegar aðgerðir felast í skömmtun ríkisstjórnarflokkanna á fjármagni til verklegra framkvæmda þar sem nánast eru ekki leyfðar nýjar grunnskólaframkvæmdir og alls engar í dagvistarmálum og mjög skorið niður fjármagn til þeirra framkvæmda sem verið er að vinna að. Rökin fyrir þeim hörkulegu aðgerðum verða þó ekki mjög sannfærandi þegar haft er í huga að á sama tíma er lagt til að tekin séu erlend lán um 100 millj. kr á næsta ári til þess að hefja byggingu á allt of stórri flugstöð á Keflavíkurflugvelli, og er sú upphæð þó aðeins byrjunin því að ætlunin er að eyða rúmlega 600 millj. kr. í framkvæmdina á næstu árum en það jafngildir framlagi til allra framkvæmda á flugvöllum í landinu í 12 ár. Á sama tíma og nauðsynlegustu verklegar framkvæmdir hvarvetna um landið eru markvisst skornar niður veigra stjórnarflokkarnir sér ekki við að auka erlendar skuldir þjóðarinnar í að mínum dómi ótímabæra og allt of stóra framkvæmd sem jafnframt er þannig staðið að að ekki samræmist sjálfstæði þjóðarinnar. Slíkar ákvarðanir hljóta að gera þm. erfiðara fyrir um að sætta sig við svo harkalegan niðurskurð fjárveitinga til félagslegra framkvæmda sem hér er ætlunin að standa að við afgreiðslu fjárlaga, en sá niðurskurður bitnar á fétagstegri þjónustu um allt land.

Fjármagn í flugstöðina tel ég að mætti spara og nota tímann til þess að færa áætlaða stærð hennar í eðlilegt horf. Og það mætti víða draga úr liðnum önnur rekstrargjöld þar sem fjárveitingar verða greinilega hærri að raungildi á næsta ári en skv. reikningum í ár. Þessu fé öllu væri betur varið til þess að draga úr mestu hörkunni í niðurskurði á félagslegum framkvæmdum.

Við sem skipum minni hl. fjvn. viljum þó takmarka till. sem við flytjum sameiginlega um lagfæringu í þessu efni við eina einustu till., því að við teljum atmennt ekki efni til að flytja brtt. til hækkana á fjárlagafrv. umfram það sem n. gerir sameiginlega. Við leggjum til að fjárveiting til dagvistarframkvæmda verði hækkuð um 20 millj. kr., í 50 millj. Öllum er kunnugt um þá miklu þörf sem er fyrir hendi í hverju sveitarfélagi á úrbótum í dagvistarmálum. Víðast er verið að reyna að bæta úr í þessum efnum og framkvæmdir í miðjum klíðum eða hafa verið í undirbúningi. Fjárveitingar til þeirra framkvæmda sem nú er unnið að eru of knappar til þess að þær komi að gagni svo fljótt sem skyldi og í till. ríkisstjórnarflokkanna um fjárveitingar er gert ráð fyrir því að stöðva með öllu þær framkvæmdir sem hafa áður fengið fjármagn á fjárlögum til undirbúnings. Við leggjum til að á þessar undirbúningsframkvæmdir verði ekki lögð dauð hönd ríkisvaldsins og reynt verði að tryggja að það fjármagn sem ríki og sveitarfélög hafa þegar lagt í dagvistarheimili, sem eru í byggingu, komi sem fyrst að gagni. Það er í rauninni spurningin um nýtingu á fé sem þegar hefur verið bundið.

Niðurskurðarstefna ríkisstjórnarflokkanna bitnar á fleirum en sveitarfélögunum. Í kjölfar þess að Alþingi samþykkti lög um Framkvæmdasjóð fatlaðra, þar sem ákvæði er um að framlag úr ríkissjóði skuli á næsta ári nema 91 millj. kr. skv. forsendum fjárlaga, er fjárveiting á næsta ári einungis áættuð 40 millj. kr. Og af 40 millj. kr. erfðafjárskatti, sem á að renna í Erfðafjársjóð til ráðstöfunar fyrir Framkvæmdasjóð fatlaðra, er ætlunin skv. fjárlagafrv. að hirða 20.6 millj. kr. í ríkissjóð, þannig að framlag sem Framkvæmdasjóður fatlaðra fær til ráðstöfunar er einungis um 45% af því sem lög gera ráð fyrir.

Það hefur svo sem áður verið tekið fjármagn af erfðafjárskatti í ríkissjóð en ef meðferðin á Erfðafjársjóði nú er borin saman við ákvarðanir á þessu ári kemur í ljós að í fjárlögum í ár fóru 74.9% erfðafjárskatts í Erfðafjársjóð, en í fjárlagafrv. nú einungis 48%. Hlutur ríkissjóðs af skattinum hækkar um 280% en hlutur Erfðafjársjóðs einungis um 19.9%.

Vandamálin varðandi Byggingarsjóð aldraðra og framlag ríkissjóðs til elli- og hjúkrunarheimila hafa ekki hlotið afgreiðslu í fjvn. og bíða 3. umr.

Í umr. um tekjuskattsfrv. hæstv. ríkisstj. hefur rækilega verið sýnt fram á að skattbyrði gjaldenda mun að því er varðar beina skatta aukast á næsta ári. Það heildarfjármagn sem rennur í ríkissjóð af beinum sköttum mun aukast um 28% á næsta ári en vegin meðallaunahækkun milli áranna 1983 og 1984 er metin á 14.5–15% í forsendum fjárlagafrv.

Fjárlagaafgreiðslan felur í sér áframhaldandi kjaraskerðingu af hálfu ríkisstjórnarflokkanna á fleiri sviðum en þessum. Lækkun niðurgreiðslna mun valda hækkun á verðlagi brýnustu neysluvara almennings og varðandi óbeina skatta, neysluskatta, kom það m.a. fram í gögnum sem lögð voru fyrir fjvn. varðandi tekjur Vegasjóðs á næsta ári að ætlunin er að tekjur Vegasjóðs af bensíngjaldi hækki allt árið í samræmi við breytingar á byggingarvísitölu, enda þótt allar verðbætur á laun séu bannaðar fram á mitt ár 1985.

Skv. þessum fyrirætlunum verður heildarskattheimta af bensíngjaldi í Vegasjóð um 41.4% hærri á næsta ári en í ár þegar laun hækka um 14.5–15%. Fer þá lítið fyrir þeirri 2.3% lækkun á bensínverði sem verið er að sýna fólki nú fyrir jólin. Hækkun skattsins á hvern bensínlítra verður þó nokkru meiri eða 44.4% vegna minnkandi bensínsölu. Jafnframt mun þungaskattur verða 48.3% hærri á næsta ári en í ár. Á sama tíma er gert ráð fyrir því að beint framtag ríkissjóðs í Vegasjóð hækki um 13.3% frá því sem framlagið varð í ár.

Það er því öðru nær en að nú sé komið að því að efna fyrirheit Sjálfstfl. um að skattheimta af bensíni og þungaskatti renni að sem allra mestu eða öllu leyti til vegaframkvæmda en ekki í ríkissjóð.

Á sama tíma og horfið er frá fyrri fyrirætlunum um að á næsta ári verði varið til vegamála 2.3% af þjóðarframleiðslu og sú viðmiðun er færð niður í 2.2%, þá er einnig að því stefnt að ríkissjóður auki sínar eigin tekjur af tollum, tollafgreiðslugjaldi og söluskatti af bensíni um 295 millj. kr. eða 41.4% á næsta ári. Á árinu 1984 mun Vegasjóður skv. þessu fá í sinn hlut af sköttum af bensíni 663 millj. kr. en ríkissjóður á hinn bóginn 1008 millj.

Þegar hæstv. fjmrh. fær tækifæri til þess að fylgja eftir í verki þeirri lífsskoðun sinni, sem hann nefnir svo oft, að almenningur í landinu eigi að fá að halda eftir stærri hluta af tekjum sínum en til þessa og ríkissjóður að taka minna, þá eru efndirnar m.a. þær að þegar kaupið hækkar um 14.5–15% hækka skattgjöld af bensíni um 44.4% og ríkissjóður tekur í sinn hlut nærri 300 millj. kr. hærri upphæð á næsta ári en í ár. Hlutur ríkissjóðs hækkar hlutfallslega nær þrisvar sinnum meira en kaupið og nú hefur hæstv. ríkisstj. ákveðið að miða launaforsendur á næsta ári við 2% minni kauphækkanir en áður hefur verið reiknað með.

Til viðbótar allri þeirri skerðingu á kaupmætti launa og lífeyrisgreiðslna sem stjórnarflokkarnir hafa nú þegar knúið fram er það ætlun þeirra að draga úr tryggingabótum og sjúkraþjónustu svo að nemur 355 millj. kr. á næsta ári. Þetta er upphæð sem jafngildir 7600 kr. á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu svo að einhvers staðar mun hún koma við. Af ummælum þeirra sem fengnir voru til að koma til viðræðna við fjvn. um þessar fyrirætlanir er ljóst að þeir sem um fjalla telja engar líkur á því að um nokkurn raunverulegan sparnað sem einhverju nemi gæti verið að ræða í þessu efni, heldur hljóti ákvörðun um þessa lækkun útgjalda hjá ríkissjóði að koma fram t.d. í lækkun tryggingabóta og þó einkum í ákvörðunum um að sjúklingar greiði hærri hlut en nú af lyfjakostnaði og læknishjálp og þá ekki síst með ákvörðun um að sjúklingar greiði sjálfir hluta af sjúkrahúsvist sinni. Sérstök nefnd mun vera að fjalla um slíkar till. og nefndar hafa verið ákveðnar fjárhæðir sem einstaklingum yrði ætlað að greiða fyrir sjúkrahúsvist, og var reyndar staðfest hér í ræðu hæstv. formanns fjvn. áðan. En þrátt fyrir fyrirheit um að verða við óskum minni hl. n. um að þessi gögn yrðu send n. hafa þau ekki komið enn.

Ljóst er að með þessari fyrirætlun Sjálfstfl. og Framsfl. er markvisst verið að stíga fyrstu skrefin í þá átt að skerða þá lögbundnu tryggingu fyrir afkomuöryggi þegar veikindi ber að höndum sem hver og einn þegn þjóðfélagsins hefur notið á undanförnum áratugum vegna baráttu verkalýðssamtakanna og flokka þeirra. Þau skref sem stíga á í þessa átt marka tímamót við afgreiðslu fjárlaga og eru hvað ríkasti þátturinn í því að gera afgreiðslu fjárlaga athyglisverða þó að það komi fleira til.

En svo sem ég hef rakið áður bendir allt til þess að fjárlögin verði afgreidd með raunverulegum halla, framfaramál eru skorin niður og aðför er hafin að tryggingakerfinu.

Í ævisögu Eysteins Jónssonar segir söguritari Vilhjálmur Hjálmarsson um fjármálastjórn Eysteins Jónssonar í fyrstu ríkisstj. Hermanns Jónassonar með leyfi hæstv. forseta:

„Hér virðist gengið hreint til verks að því leyti að tekjur og gjöld skuli standast á, samþykkt eru framfaramál sem kosta peninga og tekjuöflun á móti.“

Hér er í stuttu mál lýst þeirri stefnu að þeir þegnar þjóðfélagsins skyldu njóta sem þurfa þess og þeir borga sem geta það. Það er fróðlegt og segir mikla sögu um þróun Framsfl. á ekki lengra tímabili en líður þar til sonur tekur við af föður að bera þessa stefnu saman við þá stefnu í ríkisfjármálum og þjóðmálum almennt sem ræður nú við afgreiðslu fyrstu fjárlaga ríkisstj. Steingríms Hermannssonar.

Nú stefnir í hallarekstur ríkissjóðs samtímis því að skattar þeirra sem betur mega sín eru léttir og fyrirheit eru gefin um sérstakar skattaívilnanir fyrir eigendur hlutafjár og fyrirtækja. Og nú eru ekki einungis framfaramál í verklegum þáttum skorin niður heldur er markvisst byrjað að höggva niður þau réttindi sem almenningi hafa verið tryggð af hálfu samfélagsins. Kynslóðabil birtist í ýmsum myndum og getur markað stjórnmálaflokka á afgerandi hátt.