24.10.1983
Efri deild: 8. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

31. mál, kosningar til Alþingis

Ragnar Arnalds:

Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni frv. sem ekki er ástæða til að fjölyrða mikið um, enda heyrir það liðinni tíð til og hefur engin áhrif á gang mála hér eftir. Hitt er annað mál, að veðurfarið sem var á vordögum, aðallega þó áður en kosningar fóru fram, minnir okkur á hversu erfitt er að standa fyrir kosningum víðs vegar um landið þegar enn er vetur og mátti svo sannarlega ekki miklu muna að illa tækist til í þetta sinn. En það fór nú svo að stytti upp — það má segja daginn fyrir kjördag — og allt fór því vel að lokum.

En í sambandi við mál sem varða kosningar til Alþingis er kannske rétt að minna á að þar er nokkurt verk óunnið enn. Í fyrsta lagi á Alþingi að sjálfsögðu eftir að ganga frá stjórnarskrárbreytingunni sem samþykkt var hér á s.l. vori og í því sambandi að fjalla um kosningalög, en í öðru lagi er starfi stjórnarskrárnefndar enn ólokið og þar voru vissir þættir enn óræddir og þá fyrst og fremst það sem lýtur að þingstörfum og þingsköpum Alþingis. Í því sambandi langar mig til að bera fram fsp. til hæstv. forsrh. og hafði óskað eftir því að kallað yrði á hann, en hann er kannske ekki nærstaddur. (Forseti: Hann er því miður upptekinn í umr. í Nd. Ég hef gert ráðstafanir til að fá hann hingað, en hann hefur ekki tök á því eins og er.) Já, það væri þá kannske í lagi að umr. yrði frestað um skeið og ég fengi að bera fram fsp. þegar betur stendur á.