14.12.1983
Efri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1827 í B-deild Alþingistíðinda. (1528)

133. mál, gjaldeyris- og viðskiptamál

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir áhyggjur hv. þm. Skúla Alexanderssonar vegna þess ástands sem við blasir í sjávarútvegi og verið er að ræða núna í Nd. En ég held samt að það sé ekki alls kostar rétt að bera saman það mál sem þar er verið að ræða og það mál sem við erum að ræða. Í Nd. er verið að tala um þau vandræði sem við blasa í sjávarútvegi. Vitaskuld er hér um gjaldeyrisöflun þjóðarinnar að ræða. En málið er samt aðeins annars eðlis en það mál sem við erum hér að ræða, sem fjallar um það hvernig við getum á sem ódýrastan hátt afgreitt þann gjaldeyri sem síðan er til skiptanna. Ég mundi segja að það væri eðlismunur þarna á.

Ég tek ekki undir neitt hallelúja um skipan gjaldeyrismála hér á landi en ég stend að nál. hv. fjh.- og viðskn. vegna þess að á þennan máta held ég að við getum stemmt stigu við útþenslu bankakerfisins frekar en orðið er og sparað okkur þá frekar dýrmætar krónurnar.