17.12.1983
Efri deild: 35. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2039 í B-deild Alþingistíðinda. (1724)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Mér þykir svolítið miður að hv. 5. landsk. þm., frsm. í þessu máli, skuli ekki vera hér staddur vegna þess að ég er fyrst og fremst kominn í ræðustól vegna áskorana hans. Ég vildi frekar óska þess ef forseti er með fleiri á mælendaskrá að ég mætti bíða með mína ræðu. (Forseti: Forseti hefur þegar gert ráðstafanir til að náð verði til 5. landsk. þm.) Ég þakka fyrir hugulsemi forseta. En meðan að ég bíð ætlaði ég aðeins að tala við hv. þm. Tómas Árnason í sambandi við hans ræðu áðan, 4. þm. Austurl. (Gripið fram í: Vantar hann nú?) Já, hann vantar líka. (Forseti: Ég vil upplýsa hv. ræðumann um að 5. landsk. þm. ku vera á forsetafundi en gerðar hafa verið ráðstafanir til að ná í hv. 4. þm. Austurl.) Þakka fyrir.

En svo ég víki umræðu þessa máls burt frá því sem ég ætlaði að tala sérstaklega við þessa hv. þm. þá hafa það verið ein aðalrök flm. þessarar till. eða áhugamanna um stóra flugstöðvarbyggingu á Keflavíkurflugvelli að það hús sem núna er notað væri gamall og lélegur timburhjallur sem ekki héldi vatni og þar væri ekki hægt að uppfylla eðlilegar öryggiskröfur gagnvart starfsfólki né farþegum. Ég held að heilmikill sannleikur sé í þessum fullyrðingum en þessi lýsing nær yfir miklu breiðara svið í samgöngumálum okkar, því er verr og miður.

Við þurfum ekki að fara lengra en út á Reykjavíkurflugvöll. Flugstöðin á Reykjavíkurflugvelli er síst betri en sú flugstöð sem við notumst við á Keflavíkurflugvelli. Þó að vitaskuld sé áhugavert og sjálfsagt að byggja flugvöll á Keflavíkurflugvelli og það þjóni okkar samgöngukerfi og uppbyggingu í því kerfi held ég að uppbygging flugstöðvar á Reykjavíkurflugvelli sé ekki síður nauðsynleg.

Á sama tíma og verið er að lýsa yfir nauðsyn þess að komið sé upp góðri flugstöð, stórbyggingu á Keflavíkurflugvelli er strikað yfir fjárveitingu til að byggja yfir slökkviliðið á Reykjavíkurflugvelli. Eins og nú standa sakir eru ekki líkur á að hægt sé að halda áfram byggingu fyrir slökkvistöð á Reykjavíkurflugvelli en þar voru hafnar framkvæmdir. Ég geri ráð fyrir að það hljóti að vera alveg eins nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að hafa sæmilega aðstöðu fyrir slökkviliðið á Reykjavíkurflugvelli og fyrir farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll. Ef öryggiskröfum er ekki sinnt á Keflavíkurflugvelli liggur í augum uppi að það er ekki síður á Reykjavíkurflugvelli. Kannske er okkur svolítið nær að standa að því að öryggiskröfum gagnvart slökkviliði á Reykjavíkurflugvelli sé sinnt en að fara í þá stórbyggingu sem áætluð er á Keflavíkurflugvelli.

Ég vil undirstrika það og það hefur komið fram hjá Alþb.-mönnum sem tekið hafa þátt í þessari umr. fyrr í dag að við Alþb.-menn erum síður en svo á móti byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. (Gripið fram í: Ekki lengur?) Við höfum aldrei verið á móti byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli en ekki í þeirri mynd sem verið er að byggja þarna. Kannske er rétt að undirstrika líka að sú bygging sem slökkviliðið á Reykjavíkurflugvelli hefur til umráða og þarf að geyma sín tæki í og hýsa sitt starfsfólk fellur alveg undir þá lýsingu sem fram kom í umr. áðan hjá hv. 5. landsk. þm., að ef asahláka kemur þarf að vera með bala og fötur undir leka og ábyggilega dálítið meira en þarf fyrir sunnan. Ég geri ekki lítið úr því að aðstaða öll á Keflavíkurflugvelli er langt frá því að vera góð, en í samanburði við Reykjavíkurflugvöll tel ég að Reykjavíkurflugvöllur sé að mörgu leyti mun verr staddur. Það sem ég hafði áhuga á að nefna við hv. 4. þm.

Austurl. var yfirlýsing hans um að Framsfl. hefði verið sérstaklega duglegur í að fá aðskilið her og almenning á Íslandi. Ég skal svo sem taka undir það að vissu marki og verið er að boða okkur að með þessari byggingu sé verið að því. Ég hef nú því miður dálítið öðruvísi reynslu af þessum áætlunum Framsóknar um aðskilnað og rökum þeirra fyrir því að nauðsynlegt sé að girða herinn af o.s.frv. Ég hefði því litla trú á að stuðningur Framsfl. við flugstöðvarbygginguna byggist eingöngu á því að þarna sé verið að berjast fyrir aðskilnaði hers og almennings. Ég hef ekki fundið fyrir því. Mín tilfinning er miklu frekar sú að verið sé að binda samvistir Íslendinga og hersins með þessari byggingu. (Gripið fram í: Hvernig?) Hreinlega með því að lýsa yfir að þetta sé jöfnum höndum hernaðarmannvirki. (Gripið fram í: Jöfnum höndum.) Að það sé jöfnum höndum verið að byggja það upp sem hernaðarmannvirki og þjónustustöð eða flugstöð fyrir almenningsflug á Íslandi. Það er hrein yfirlýsing um að við hernaðarástand — og hvenær kemur að því að hernaðarástand verður? — skal herinn, varnarliðið okkar, taka þessa stöð yfir. Mín skoðun er sú að með þessu sé miklu frekar verið að fara í hina áttina, að binda saman þarfir okkar Íslendinga og hersins. Þetta fer því alveg í þveröfuga átt við það sem hv. þm. Tómas Árnason sagði áðan um aðskilnað okkar Íslendinga við herinn.

Það sem ég ætlaði að segja frá í sambandi við þessa stefnu Framsfl. var að þegar verið var að byggja upp Lóranstöðina á Gufuskálum höfðu framsóknarmenn og Alþfl.-menn ákveðna skoðun um uppbyggingu þeirrar stöðvar. Það var þessi skoðun að hafa aðskilnað hers og almennings. Það er nú svo merkilegt að þegar kom að því að fara átti að byggja þessa stöð voru það tillögur sveitarstjórnar á Hellissandi að hluti af þessari stöð yrði byggður inni á Hellissandi. En þetta fékk ekki náð fyrir augum valdamanna og það mun hafa verið stefna Framsóknar og Alþfl. sem réði þar.

Þetta var á árunum 1956–1957 og munu hafa fallið þar saman ráð Framsfl. og Alþfl. í utanríkisráðherrastólum. (Gripið fram í: Hvar er Alþb.?) Þetta var nú þarna vestur á Sandi. (Gripið fram í: Það var í stjórn.) Ekki þegar þetta var ákveðið. Þetta mun hafa verið ákveðið af dr. Kristni og svo punkturinn af Guðmundi Í. (Gripið fram í: Já.) Já. (Forseti: Ég vil benda hv. þdm. á að hér talar einn í einu.) Það er ósköp heppilegt, herra forseti, að menn geti svolítið spjallað saman, ekki kvarta ég sérstaklega undan því.

En þessir höfðingjar töldu af og frá að þannig ætti að byggja upp hernaðarstöð á Íslandi og voru með þessa skoðun sem við töldum alveg öfuga, því að þarna var okkur sagt að Íslendingar ættu að vera og þjóna og þess vegna ættu Íslendingar að vera innan um Íslendinga. (Gripið fram í: Þeir gera það.) Þeir gera það ekki. Þetta mun vera eina stöðin í allri veröldinni þar sem íbúðarhúsabyggingar eru innan um stöðvarhúsabyggingar.

Nú blasir við að Gufuskálastöðin er að verða úrelt og verður lögð niður. Þá sést þessi ágæfa skoðun Framsóknar og Alþfl. í þeirri mynd að ekki aðeins stöðvarbyggingar á Gufuskálum verða úreltar og gagnslausar þar sem þær standa heldur einnig allar íbúðarhúsabyggingar á svæðinu. Mér finnst þetta vera ákveðin mynd af því hvernig menn geta hugsað skakkt og búið sér til kreddur í kringum svona hluti.

Verið er að byggja stóra flugstöð á Keflavíkurflugvelli, ekki til að þjóna okkur Íslendingum og ekki til að þjóna þeim farþegum sem eiga að fara hér um, heldur til að þjóna hernum. En okkur er sagt hitt. Og ég get vel trúað að þeir trúi þessu jafnvel framsóknarmenn og kratar en útkoman verður ósköp svipuð. (Gripið fram í.) Ég trúi því ekki, nei, það er af og frá. En útkoman verður sjálfsagt svipuð, að það sem þeir trúa að eigi sér stað og muni eiga sér stað gengur ekki fram frekar en raunverulega á Gufuskálum. Þeir bjuggust ábyggilega við að þetta yrði herstöð þó þeir væru að segja okkur Íslendingum að það yrðu Íslendingar sem ættu að starfa þarna. Þess vegna gerðu þeir þetta, þess vegna byggðu þeir þetta hinsegin og búast við að þróunin verði sú eftir ekki langan tíma að á Keflavíkurflugvelli ráði ekki Íslendingar alveg þessari stöð, heldur snúist það á hinn veginn, að þetta verði fyrst og fremst herstöðvarmannvirki. Sem sagt, að þessir hlutir báðir snúist við þvert á þá kenningu sem þessir höfðingjar halda fram.

Hv. 5. landsk. þm., ég held að ekki sé neitt óeðlilegt að ég nefni mátflutning hans þó að ég sleppi því sem ég hefði viljað ræða sérstaklega við hann beint, taldi það vera eðlileg vinnubrögð að við alþm. fengjum ekki upplýsingar um hvað þessi stöð ætti að kosta, hvað einingarverð, rúmmetraverðið,í uppbyggingu þessarar stöðvar ætti að verða. Það væri eðlilegt að opinber stofnun þegði yfir þessu til að geta staðið frammi fyrir sínum verktaka, verið með leyndar tölur gagnvart verktaka. Hann sagði einnig að Vegagerð ríkisins gerði slíkt hið sama þegar hún byði út verk.

Mér er kunnugt um að Vegagerð ríkisins hefur boðið út tvö þó nokkuð stór verk á Vesturl. Bæði þessi verk voru það opinber að við þm. Vesturl. vissum upp á hár hver áætlun Vegagerðarinnar var. (Gripið fram í: Það er þá bara spilling.) Að það sé spilling að opinberar stofnanir láti alþm. vita um áætlaðan kostnað er merkilegur hugsunarháttur, hv. þm. Karl Steinar. Ef trúnaður er þannig á milli opinberra stofnana og alþm.alþm. séu ekki gefnar eðlilegar upplýsingar um kostnað framkvæmda á vegum ríkisins, þá finnst mér trúnaður vera farinn að bresta milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds. Það hlýtur að vera ein af grundvallarkröfum alþm. að embættismannakerfið búi sér ekki til trúnaðarkerfi sem er lokað fyrir alþm.

Hv. þm. Eiður Guðnason mótmælti því að flugstöðvarbyggingin á Keflavíkurflugvelli væri liður í vígbúnaðaruppbyggingu eða vígbúnaðarkeðju. Með því að tala um slíkt værum við jafnvel að tala um að leggja ætti Keflavíkurflugvöll niður og hann fílósóferaði dálítið út frá því. Vitaskuld er þetta liður í vígbúnaðaruppbyggingu og Keflavíkurflugvöllur allur. Ekki er hægt að skipta Keflavíkurflugvelli niður í neina sérstaka hluta. Og eftir að komin er svo myndarleg flugstöðvarbygging á Keflavíkurflugvelli sem verið er að tala um sem neyðarhernaðarmannvirki er þetta vitaskuld vígbúnaðaruppbygging og staðurinn verður álitlegra og eðlilegra skotmark eftir en áður.

Það var alveg hárrétt sem hv. 5. landsk. þm. sagði: Þeir sem standa í styrjaldarrekstri eru ekki að spyrja smáþjóðir ráða. Það er alveg satt. (Gripið fram í: Hverjir heldur þú að skjóti á Ísland?) Ja, við skulum spyrja. Ég hugsa að það verði hreinlega að leita að einhverjum vitrari til að svara þessu alveg klárt, hver það verður sem skýtur á Ísland ef einhvern tíma verður af því. Við skulum vona að það verði ekki, jafnvel þó að menn séu svo kampakátir við uppbyggingu hernaðarmannvirkja sem raun ber vitni um, en það hlýtur að vera beinlínis frekar hvati til að einhvern tíma verði skotið á staðinn sem við skulum þó vona að við verðum lausir við.

Það liggur náttúrlega alveg í augum uppi að um leið og varnarliðið óskar eftir að nota þessa stöð notar það hana. Jafnvel það getur búið sér til tylliástæðu um einhverja atburði sem eru að ske í Líbanon eða Ísrael, að nú sé að koma hernaðarástand og við þurfum að styrkja einhverja flutningalínu yfir Atlantshafið og þá þurfi menn að komast inn í flugstöðina. Það liggur í augum uppi. Styrjaldarþjóðir spyrja ekki smáþjóðir eins og okkur Íslendinga um slíkt þegar á þarf að halda.

Ég skal nú fara að láta máli mínu lokið. En mér þykir miður að hv. 5. landsk. þm. skuli ekki vera kominn. (Gripið fram í: Á að kalla í hann aftur?) Nei, það hefur þegar verið gert, en hann er upptekinn í öðrum störfum. Hv. 3. þm. Suðurl. Árni Johnsen benti á að það væri kostur við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli að þar væri yfirbyggður landgangur. Ég held ég geti upplýst hann um að það sé ekki einn, ég held þeir séu tveir, a.m.k. var það í einni teikningunni að þeir áttu að vera tveir þannig að við gætum verið með tvær vélar í einu, Þarna er því mikil framför. Jafnvel þó að flugstöðin á Keflavíkurflugvelli sé það vel búin að vera eina samgöngumannvirkið á Íslandi sem býður upp á að hafa yfirbyggða aðstöðu fyrir rútufarþega — það er eina samgöngumannvirkið á Íslandi sem býður upp á þá þjónustu sem er mjög góð líka — þá held ég að við gætum aðeins hugað að því fyrst við fáum tvo landganga eða a.m.k. einn yfirbyggðan á Keflavíkurflugvelli hvort ekki væri alveg eins nauðsynlegt að hafa yfirbyggðan landgang á Reykjavíkurflugvelli. Hvers eiga Íslendingar að gjalda, aðrir en þeir sem fara til útlanda, hvers eiga þeir að gjalda? Ekki er um það rætt að nauðsynlegt sé að hafa yfirbyggðan landgang fyrir þá. (VI: Það er allt í lagi að byggja yfir þá.) Eigum við að byggja yfir þá líka, hv. þm. Valdimar Indriðason? Það er gott að heyra. (VI: Það hlýtur að koma að því eins og öðru.) Kemur að því, en mætti það kannske ekki vera á undan þeirri framkvæmd sem þarna á sér stað, eða kannske jöfnum höndum vegna þess að við getum skipt þessu fé í tvennt, tekið helminginn á Keflavíkurflugvöll og helminginn hingað til Reykjavíkur og byggt ágætis flugstöðvar á báðum stöðum? (KSG: Þið eruð búnir að ráða samgöngumálunum í áraraðir og hafið ekkert gert í því.) Því er nú verr og miður að við höfum ekki ráðið samgöngumálum lengi.

Nú kemur að því að ég fer að geta lokið máli mínu. Ég vil undirstrika það að ég held að við eigum ekkert að skipta þarna upp gæðunum. Þegar við erum að tala um að nauðsynlegt sé að hafa yfirbyggðan landgang á Keflavíkurflugvelli þá sé ekkert síður nauðsynlegt að hafa hann á Reykjavíkurflugvelli. Jafnvel mættum við hugsa til Austfirðinga, Vestlendinga og Norðlendinga, að hafa yfirbyggða aðstöðu fyrir farþega sem eru að ferðast með íslenskum sérleyfishöfum. Nei, ekki er talin nein þörf á slíku, en það er alveg nauðsynlegt að hafa yfirbyggðan landgang í Keflavík. Og vitaskuld er hann nauðsynlegur svo að ekki rigni á okkar ágætu farþega sem eru að koma frá útlöndum og þeir finni ekki fyrir því hvað mikil rigning er hér á Íslandi fyrr en þeir koma hingað til Reykjavíkur, alveg yfirbyggt frá því þeir koma inn á flugstöðina í Keflavík, yfirbyggð rútuafgreiðslan svo að þeir finni ekki fyrir rigningunni fyrr en þeir koma hingað.

Ég er búinn að eyða miklu fleiri orðum um þetta mál en ég ætlaði, enda voru þeir félagar mínir búnir að tala og rökstyðja stefnu okkar Alþb.-manna í þessu máli. En eins og ég sagði í upphafi kom ég hér upp sérstaklega vegna beinnar óskar hv. 5. landsk. þm. Mér varð það á að ítreka yfirlýsingu hv. þm. þar sem hann lýsti því yfir að því miður kæmi engin skoðun fram í nál. meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. um afgreiðslu þessa máts. Það kom ekki fram í nál. hvort þeir vildu samþykkja þetta eða ekki. Ég lét þau orð falla að þetta væri óheppilegt og hv. þm. svaraði mér því til að ég gæti komið hingað upp og svarað honum af minni alkunnu hæversku. Ég þakka honum kærlega fyrir það tiltal.