25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

453. mál, dýpkunarskip

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil í tilefni af þessari umr. draga það fram, að hér hefur ekkert það komið í ljós í svörum hæstv. ráðh. sem bendir til þess að áætlanir um bætur vegna Blönduvirkjunar hafi farið eða fari fram úr því, eins og menn nú líta á málin, sem áætlað var þegar Alþingi tók afstöðu til þál. um virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu. Það kom glöggt fram í máli og upplýsingum hæstv. ráðh. að svo er ekki, heldur er jafnvel frekar að liðir sem þar eru sundurliðaðir sýni lægri tötur. Þó að vissir þættir hafi ekki komið inn í upphaflega áætlun, eins og t.d. kaupverð Eiðsstaða, byggingar þar o.fl., þá er þarna ekki um hærri heildartölu að ræða.

Ég hef áður lýst viðhorfum mínum til þess að talað sé um aukakostnað varðandi þessar áætluðu 237 millj. Ég tel ekki rétt að tala um aukakostnað við virkjanir sé átt við vegalagningu að virkjunarsvæði svo og lögn á raflínum inn á virkjunarsvæði, hvort tveggja forsendur fyrir því að ráðast í virkjunarframkvæmdir. Hitt er svo annað mál hver greiðir það, hvaða opinber aðili greiðir það, hvort það er virkjunaraðili eða Vegagerð ríkisins og RARIK. Það er annað mál. (Forseti hringir.)

Ég vil svo benda hv. alþm. á að rifja upp, ef þeir vildu verða nokkru fróðari um sjónarmið hæstv. iðnrh. til þessa máls, orð hans hér í umr., þá sem 3. þm. Austurl., þann 4. maí, þegar hann mælti fyrir nál. um þál. um virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu. Kannske gefst mér færi á að koma aðeins að því síðar. (Gripið fram í: Það var 82.)