19.12.1983
Efri deild: 38. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2118 í B-deild Alþingistíðinda. (1818)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. meiri hl. (Valdimar Indriðason):

Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Vesturl. gat þess í upphafi ræðu sinnar áðan að ekki hefði verið leitað eftir því að fá þessari umr. frestað af minni hálfu. Það er rétt. Á óformlegum fundi sem sjútvn. hélt kl. 9 í morgun kom til umr. hvort slíkt væri mögulegt. Ég gat þess þar að ég teldi það óeðlilegt þar sem málið væri ekki komið til n. formlega enn þá. Þó að við höfum verið að fjalla um þetta óformlega, má segja, því að allir vita hvað hefur verið á spýtunni undanfarna daga fór ég ekki fram á þessa frestun. Ég vil að það komi hér skýrt fram enda fannst mér hv. 4. þm. Vesturl. hafa nóg að segja við þessa 1. umr. En ég tek það skýrt fram að þó að þessari umr. sé frestað legg ég höfuðáherslu á það sem nefndarformaður að við getum náð samstöðu í nefndinni um afgreiðslu þessa máls þó að þar séu skiptar skoðanir. Á það skulum við láta reyna nú að lokinni 1. umr.

Aðeins ein aths. við ræðu hv. þm. þegar hann talaði um fulltrúa á Fiskiþingi. Rétt er að þar átti Vesturland tvo fulltrúa en ekki fjóra. Deildin á Akranesi var nefnilega endurvakin s.l. vetur og það var fulltrúi þaðan og einnig úr Grundarfirði svo að þeir voru tveir af Vesturlandi þannig að það komi fram sem réttara reynist. Þannig voru þessir fulltrúar kjörnir.

Fyrst ég er hingað kominn verð ég að fara nokkrum orðum um það frv. sem hér er til umr. Mikið er rætt í þjóðfélaginu um sjávarútvegsmál almennt síðustu vikur og er það vel. En umr. þessi hefur ekki stafað almennt af sérstökum áhuga fyrir atvinnugreininni, heldur því að hjá þessum atvinnuvegi eru komin upp slík vandamál að atvinnugreinin riðar og þjóðfélagið er að byrja að gera sér ljóst að þangað verður ekki sóttur sá ómældi auður sem verið hefur undirstaða þeirrar velmegunar sem hefur einkennt þetta þjóðfélag undanfarin ár. Nú er svo komið að sú náma sem sótt hefur verið í og lengi hefur verið talið að væri óþrjótandi er að láta undan. Þeir fiskistofnar sem við höfum gengið í meira af kappi en forsjá eru komnir í verulega hættu. Við verðum því að nema staðar og hugsa okkar ráð. Þetta er að mínu áliti meginástæðan fyrir því að þetta frv. er fram komið. Um þetta held ég að flestir séu sammála. En þá kemur vandinn. Hvernig skal framkvæma þá stjórnun sem upp verður að taka? Hvernig er slíkt framkvæmanlegt svo það valdi sem minnstri röskun frá hinu þekkta? Hvernig verður þessi samdráttur framkvæmdur á veiðunum þannig að hann komi sem jafnast niður á skip og byggðarlög og þar af leiðandi á atvinnu fólks sem við sjávarútveg vinnur? Þannig er spurt og er það mjög eðlilegt.

Frv. það sem hér er til umr. boðar ekki stórfelldar breytingar — það vil ég undirstrika — á veiðiheimildum í fiskveiðilögsögunni þó að þær séu nokkrar. Aðalbreytingin er sú að lögfesta yfirstjórnun veiðanna í hendur sjútvrh. eins og fram kemur í 1. gr. frv. Margir draga mjög í efa að rétt sé að löggjafinn veiti einum manni svo mikið vald í stórmáli sem þessu og kom það greinilega fram hér í ræðu hv. 4. þm. Vesturl. áðan. En við skulum líta nokkru nánar á málið.

Um áraraðir hefur tíðkast að sjútvrh. hafi leyfi til þess lögum samkvæmt að hafa uppi verulega stjórnun fiskveiða í fiskveiðilögsögunni. Ef við lítum á lög nr. 81 frá 31. maí 1976 ásamt breyt. á þeim lögum nr. 42 frá 13. maí 1977 getum við glögglega séð þess dæmi. skal ég benda þar á nokkur, með leyfi hæstv. forseta.

Í 5. gr. áðurnefndra laga segir t.d.:

„Ráðherra er heimilt að skipta veiðisvæðum milli veiðarfæra og takmarka þannig veiðiheimildir þær sem veittar eru í lögum þessum með því að banna notkun ákveðinna gerða af veiðarfærum á tilteknum veiðisvæðum í takmarkaðan tíma.“

Í 10. gr. sömu laga segir:

„Þegar rökstutt álit Hafrannsóknastofnunar liggur fyrir um það að einstakir fiskstofnar séu hættulega ofveiddir og viðkoma þeirra séu í yfirvofandi hættu getur ráðh. í samráði við hana og að fenginni umsögn Fiskifélags Íslands sett reglur um hámark þess afla sem veiða má af hverri fisktegund á tilteknu tímabili, vertíð eða heilu ári.“

Hvað felur þessi grein í sér? Hún ákveður nánast fullt vald til sjútvrh. um algera stjórnun þessara fiskveiða. Eins og þorskstofninum er komið t.d. núna hefur hann í hendi sér skv. lögum sem eru fyrir hendi heimild til algerrar stjórnunar.

Í 12. gr. sömu laga segir:

„Ráðherra setur reglur um hvað eina sem snertir framkvæmd laga þessara, svo sem um gerð, útbúnað og frágang veiðarfæra, um lágmarksmöskvastærðir netja og um lágmarksstærðir þeirra fiskitegunda sem landa má.“

Þetta skulum við allt gera okkur ljóst þegar við fjöllum um þessi lög. Hvað er þegar fyrir hendi og hverju eigum við að breyta?

Í 14. gr. segir:

„Veiðar á rækju, humri, síld, loðnu, spærlingi og kolmunna í botnvörpu og flotvörpu skulu háðar sérstökum eða almennum leyfum ráðh. Ráðh. getur bundið leyfi þessi eða úthlutun þeirra þeim skilyrðum sem nauðsynleg þykja. Ráðh. getur einnig ákveðið í reglugerð að aðrar veiðar á tiltekin veiðarfæri skuli háðar sérstökum eða atmennum leyfum.“

Með því að vitna í þessar áðurnefndu greinar núgildandi laga vil ég aðeins vekja athygli á því mikla valdi sem — (Gripið fram í.) — Ég er að vekja athygli á því hvað stendur í þeim lögum sem við höfum í dag. Ég er að vekja athygli á því mikla valdi sem hv. Alþingi veitti sjútvrh. með lögunum frá 1976. Frá því að þessi lög voru sett eru, að mig minnir, búnir að sitja a.m.k. þrír sjútvrh. Auðvitað deila menn alltaf um hvernig farið skuli með lög og reglur sem á að framkvæma, en ég hef ekki heyrt neina alvarlega ásökun á þessa menn fyrir að þeir hafi haft þar uppi afleita stjórn á þeim málum. Þó að ég sé ekki flokksmaður hæstv. núv. sjútvrh. vil ég aðeins undirstrika að ég tel enga ástæðu til að halda að hann beiti þessum lögum verr en þeir aðrir ráðherrar sem á undan hafa setið og eru, að ég held, úr þremur flokkum, Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl. Við skulum gæta að þessu þegar við erum að deila á það mikla vald sem ráðh. er hugsanlega fengið í hendur með þessum breytingum á lögunum. Þetta hefur verið fyrir hendi og ég tel mjög vafasaman áróður að halda því fram að sá sem situr í ráðherrastóli núna eða ráðherrar yfirleitt í framtíðinni verði mun hættulegri en þeir sem setið hafa í þessum stólum áður.

Eftir að hin „svarta skýrsla“ kom í haust er sest á rökstóla og farið að reyna að leita ýmissa ráða til að stjórna veiðunum. Þetta vitum við öll. Ég stytti mál mitt í það að mótmæli hafa verið höfð uppi síðan ég man fyrst eftir mér á LÍÚ-þingum um að taka alls ekki kvóta. Ég get sagt ykkur eins og er að mér brá í brún þegar ég heyrði núna eftir þingið á Akureyri að þeir samþykkja þar að meiri hluta að unnið verði að því að taka upp kvótaskiptingu á veiðum. Mælirinn heldur áfram og fyllist á Fiskiþingi. Þar virðist nást nokkurn veginn samstaða. Ég er ekki að gera lítið úr þeim fulltrúum sem þar eru þó að þeir tali ekki fyrir hvern einstakan aðila í hverjum hagsmunasamtökum. Þar kemur líka fram áskorun um að taka upp kvótaskiptingu, það eru 3 atkv. á móti, og þær reglur sem eru á fskj. með þessu frv. eru að stærstum hluta byggðar á þeirra óskum að því er virðist vera. Þetta skulum við gera okkur ljóst.

Við höfum staðið saman í sjávarútvegsnefndunum um að kalla saman fólk og aðila og ég vil taka fullt mark á þessum mönnum. Við kölluðum saman fulltrúa frá LÍÚ. Þeir voru sammála um að taka þetta upp. Komið hefur bréf til okkar, mótmælabréf frá Félagi ísi. botnvörpuskipaeigenda. Þeir eru á móti kvótaskiptingu. Þeir voru einnig kallaðir til nefndanna til að skýra sín mál. Við kölluðum saman ASÍ-fólk eða fulltrúa þaðan og við kölluðum saman Sjómannasambandið og alla þessa aðila og ég held að nm. geti verið mér sammála um að allir þessir aðilar fundu ýmsa vankanta og neyðarúrræði við kvótakerfið. En enginn þeirra mælti á móti því að undanskildum fulltrúanum frá Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda, Þórarni Helgasyni. Hinir sögðu: Við verðum að taka upp einhvers konar stjórnun. Og það kom ekki fram hjá neinum hvað væri betra en það sem í loftinu lægi.

Við stöndum kannske í svipuðum sporum hér á Alþingi að vissu leyti. Það sem við skulum gera okkur grein fyrir og það sem mér finnst að sé harðast leitað eftir í þessari umr. og eftir því sem ég gat fylgst með í Nd. er óttinn um það hvernig þetta kemur niður á einstök skip og einstök byggðarlög. Hvernig fer minn maður? Hvernig fer mitt pláss út úr þessu? Það er sá ótti sem ríkir mest hjá mönnum. (EgJ: Sérhvert pláss.) Sérhvert pláss, segir þar, sem er með útgerð. Óttinn hjá þm. sem öðrum sem um þetta hafa fjallað er þessi: Hvernig fer minn staður út úr málinu atvinnulega séð og á ýmsan annan hátt?

Ráðh. er þegar með ráðgjafarnefnd í þessu máli. Hún er komin inn í lögin í samráði við sjávarútvegsnefndir Alþingis og hagsmunaaðila sem eru þar nefndir í grg. Ég trúi ekki að við fáum öllu betra form á það mál en þarna sé unnið í þessum nefndum. Ég trúi því ekki á neinn ráðh. að hann gangi í algert berhögg við álit þessara aðila sem um málið fjalla og gangi til stjórnunar gegn sterkum mótmælum frá aðilum sem þarna eru til nefndir.