19.12.1983
Sameinað þing: 34. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2178 í B-deild Alþingistíðinda. (1887)

1. mál, fjárlög 1984

Kristín S. Kvaran:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að fjölyrða svo mjög um fjárlagafrv. við 3. umr., það hefur verið gert við 2. umr., og mun ég því aðeins gera grein fyrir brtt. BJ svo og viðhorfum til þeirra efnahagsforsendna sem liggja að baki frv. ásamt þeim breytingum á forsendum sem fram eru komnar við launaútreikninga fyrir næsta ár. En fyrst vil ég alveg sérstaklega geta um hversu ánægjuleg breyting hefur orðið á einstökum liðum til batnaðar í meðförum fjvn. í síðustu umferð. Það hefur komið skýrt fram í máli formanns n. hverjir þeir liðir eru og ætla ég því ekki að fjölyrða nánar um þá, en vil jafnframt geta þess að því miður eru eftir margir óhreyfðir liðir sem að mínu mati eru mikilvægir. En það verður ekki við öllu séð.

Það virðist vera að við gerð þessa frv. hafi menn átt sér óskatölur, sem eiga sér litla stoð í raunveruleikanum til þess að byggja fjárlög næsta árs á. Það fer ekki mikið fyrir raunhæfni í frv., eins og þó hefur verið mikið hamrað á af hæstv. ríkisstj. og svo sem fram kemur í forsendum frv. Þetta segi ég vegna þess að það ber að taka inn í umr. og hafa í huga þær upplýsingar sem nú liggja fyrir um þjóðhagsáætlun, tekjuáætlun, verðbólgustig, kaupmátt launa og verðlagsforsendur. Þær þurfa bara alls ekki að vera réttar frá sjónarmiði okkar sem stöndum utan stjórnar og alls ekki að vera réttar né á rökum reistar miðað við þau ummæti sem hæstv. fjmrh. lét falla hér við 2. umr. fjárlagafrv., en þá sagði hæstv. fjmrh., með leyfi forseta: Ég sagði að við hefðum ekki réttar upplýsingar um ríkisfjármál þegar við fórum í kosningabaráttuna. Sum af kosningaloforðum okkar voru byggð á upplýsingum sem við héldum að væru réttar. Við höfðum þær ekki þegar við hófum okkar stjórnarmyndunarviðræður, fengum þær ekki fyrr en við sjálfir létum gera úttekt á ríkissjóði. Þetta eru mín orð.

Herra forseti. Svo mælti hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson við 2. umr. fjárlaga. Þetta er mikið alvörumál. Þessi ummæli segja okkur, ef staðfest verða, að stjórnin getur haldið réttum upplýsingum og sannleikanum um ríkisfjármálin frá þeim sem standa utan stjórnar á hverjum tíma. Hitt er þó mun alvarlegra mál, að með þessu er búið svo um hnútana að þeir aðilar sem hafa með að gera upplýsingar, áætlanir og ráðgjöf fyrir ríkisstjórn og fyrir hönd ríkissjóðs, eins og Þjóðhagsstofnun og fjárlaga- og hagsýslustofnun, eru nú sakfelldir. Þeir sem nú eiga sæti í hæstv. ríkisstj. og þeir hv. þm. sem styðja hana létu ekki svo fá orð falla í kosningabaráttunni um að allt væri komið í óefni í ríkisbúskapnum og að allt væri á hraðri leið til glötunar, svo ekki virðist að neitt hefði átt að koma þeim á óvart. Hafi þeir í því efni ekki haft réttar upplýsingar og ekki fengið þær fyrr en þeir sjálfir létu gera úttekt á ríkisbúskapnum vil ég fá svör og staðfestingu á því hér við þessa umr. frá hæstv. forsrh., sem að vísu er ekki í salnum núna, en ég vænti að hann ætli sér að vera viðstaddur fjárlagaumræðuna, og frá hæstv. fjmrh. hvort þetta eru réttmætar fullyrðingar og ef rétt reynist hvort ekki sé talið ófært að halda stofnunum sem slíkar upplýsingar veita uppi af almannafé til þess eins að því er virðist að spúa út röngum og villandi upplýsingum.

En hvort sem um er að ræða rangar og villandi upplýsingar eða réttar upplýsingar sem nú liggja fyrir, þá virðast mér meginforsendur frv. fremur hæpnar. Mér segir svo hugur um að það eigi eftir að koma fyrr í ljós en ráðgert er í dag af spám hve forsendum frv. er teflt á tæpasta vað. Nægir í því sambandi á þessu stigi að nefna gengið. Hætt er við að fyrr en varir þurfi að grípa til gengisfellingar og hvernig er þá komið fyrir forsendum frv.? Ég vil einnig vekja athygli á því, að frá því að frv. var lagt fram til 1. umr. hafa forsendur þess breyst — eða eins og formaður fjvn, sagði áðan „vegna fyrirsjáanlegs samdráttar þjóðartekna frá því sem reiknað var með“. Það eru tveir mánuðir síðan þetta var lagt fram. Á góðu getum við nú átt von á næstu tveimur mánuðum.

Það sem þó vekur einna helst athygli mína við þá umfjöllun sem átt hefur sér stað um frv. er að það er alls ekki sama hvort um er að ræða Jón eða séra Jón í áhersluþáttum þessa frv. Við umr. um A-hluta frv. var fengin staðfesting á því að það stranga aðhald sem boðað hafði verið að gæta ætti kom skýrt fram í niðurskurði á verklegum framkvæmdum að því er varðar félagslegar framkvæmdir og þjónustu, svo sem skóla og dagvistarheimili, — já og heilsugæslustöðvar, ekki má nú gleyma þeim. Í því sambandi vil ég sérstaklega taka þann lið til umræðu að því er varðar Reykjavíkurborg, sem fékk heilar 100 þús. kr. til heilsugæslustöðva. Það verður auðvitað þess valdandi að borgin getur af eðlilegum ástæðum ekki staðið við lögsamdar skyldur sínar um veitta heilbrigðisþjónustu, sem eru auðvitað alveg forkastanleg vinnubrögð.

Eins og ég gat um áðan er staðið við hin ströngu viðurlög um aðhald og engar nýjar verklegar framkvæmdir að því er varðar skóla, dagvistarheimili og heilsugæslustöðvar. Það er sem sagt Jón. Sama aðhaldinu er ekki að heilsa þegar kemur að honum séra Jóni eða ýmsum B-hluta fyrirtækjum ríkisins. Sú reiknitala sem þá er notuð og lögð til grundvallar hækkunar fellur ekki undir hin ströngu viðurlög eða þær forsendur sem gert er ráð fyrir í frv. Nægir þar að nefna að fjárfestingar Pósts og síma stefna í að verða um 40% hærri á næsta ári en nú. Áfram skal haldið og markvisst með þessu gengið á kaupmátt launa og niðurskurð félagslegrar þjónustu sem er orðið eitt af því sem ríkisstj. hrósar og hreykir sér af, samanber sparnaðinn í rekstri sjúkrahúsa sem eingöngu á að koma fram í því að sjúklingar eiga að borga þann sparnað sjálfir. Kjör almennings eru stórlega skert og það leiðir aftur til þess að minna kemur í ríkiskassann, eins og fram kom í ræðu formans fjvn., vegna þess að launafólk þarf að halda utan um hvern eyri og velta honum fram og til baka til að reyna að eiga fyrir helstu lífsnauðsynjum, sem þó hrekkur ekki til, og er fólk í unnvörpum farið að taka lán fyrir daglegum rekstri heimilanna.

Verst koma þó aðgerðir ríkisstj. fram í því að ekkert bendir til þess að huga eigi að því sem þó hlýtur að vera undirstaða efnahagslífs okkar í framtíðinni, en það er iðnaður, og þó verður iðnaðurinn að taka við því fólki sem kemur á næstu árum út á vinnumarkaðinn. Því fyrr sem markvisst verður gengið fram af alvöru í því að tryggja stöðu, þróun og framgang iðnaðar og tekið verður til við uppbyggingu hans, því betra. Það er ekki nóg að tala um þessa hluti af innlifun og hafa allan skilning á þeim til að bera í kosningabaráttunni. Það þarf að efna þau fyrirheit sem gefin hafa verið á þessu sviði, vegna þess að iðnaður verður innan tíðar að verða undirstaða efnahagslífs okkar. Brtt. BJ miða því nær allar að því að rétta hlut iðnaðar í frv. á kostnað t.d. yfirstjórnar rn. þar sem við viljum að markvisst verði miðað að endurskipulagningu á borði en ekki eingöngu í orði. En engra breytinga virðist þar að vænta á næsta ári miðað við fjárlagafrv. Hvorki er miðað að kerfisbreytingum né í sjónmáli uppskurður í stjórnkerfinu. Við leggjum einnig til að ýmis fyrirtæki í eigu eða á framfæri ríkisins verði lögð niður og niðurgreiðslur og útflutningsbætur verði í áföngum lagðar niður. Allt á þetta að miða að því að fá vægi iðnaðar metið hærra en hingað til. Ég lýsti því við 2. umr. að við erum ekki að fara fram á 1100 ára aðlögunartímabil fyrir iðnað, svo sem reyndin hefur verið í landbúnaði, og enn er ekki séð fyrir endann á þeirri fyrirgreiðslu sem þar á sér stað þegar miðað er við iðnaðinn sem verður að mestu eða öllu leyti að standa undir þeirri ráðgjafarþjónustu sem honum stendur til boða.

Auðvitað hljótum við að þurfa að veita hinum ýmsu iðngreinum sömu tækifæri og landbúnaður og sjávarútvegur hafa haft og hafa. Við þurfum að sjá til þess að iðnaðurinn fái gefinn upp boltann svo að þeir sem að iðnaði standa geti gripið hann og unnið að því að skila Íslenska þjóðarbúinu þeim arði sem hann vissulega býr yfir, en hefur aldrei haft nokkra möguleika til að koma fram í dagsljósið vegna ónógra tækifæra.

Herra forseti. Ég mun þá snúa mér að því að gera grein fyrir brtt. sem liggja fyrir á þskj. 267 við framlagt fjárlagafrv. það sem hér er til umræðu. Þessar brtt. eru frá Kristínu S. Kvaran, Stefáni Benediktssyni, Guðmundi Einarssyni og Kolbrúnu M. Jónsdóttur.

Lið 1 og 2 er hægt að líta á í samhengi vegna þess að það segir sig nokkuð sjálft að með þessum till. er einungis verið að undirstrika að það á ekki að vera álitinn lúxus að aka um á bifreið og eiga einungis að vera á færi hinna velmegandi.

Liður 3 er í samræmi við málefnagrundvöll BJ um að leggja niður Sölunefnd varnarliðseigna og að við sjáum okkur sóma í því að ætla ekki íslenskum ríkissjóði tekjur af amerísku skrani.

Liður 4, sem er um að sérstakt vörugjald af innlendri framleiðslu falli niður, er í takt við hugmyndir okkar um að efla íslenskan iðnað og leitast þar með við að styðja við bakið á innlendri framleiðslu.

Liður 5. Allt virðist nú geta orðið að tekjustofni fyrir ríkið og spurning um hvort ekki væri nær að stuðla að því að fólk sendi hvort öðru fleiri heilla- og hamingjuóskir. Ætli það veitti nokkuð af því á þessum krepputímum.

Liður 6 er um flugvallaskatt. Það er með hann eins og tímabundna vörugjaldið, að það tímabundna verður alveg tímalaust þegar allt kemur til alls. Þess vegna leggjum við til að flugvallaskattur falli niður.

Liður 7 er um að einkaleyfisgjald Happdrættis Háskóla Íslands falli niður. Það er dæmigert þegar fjármunir eru teknir upp úr öðrum vasanum og settir niður í hinn.

Liður 8 er um prófgjald iðnnema og er það sjálfsagt eina prófgjaldið sem er í fjárlögunum. Er alveg óþarft að ætla námsmönnum að bera þann hluta af fjárlögunum meðan ekki er staðið við gerða samninga við þá varðandi námslán.

Liður 9 er um yfirstjórn rn. Þar gildir sama röksemdin og ég gat um áðan, að við viljum láta fara fram endurskipulagningu og stefnubreytingu varðandi yfirstjórnir allra rn., en að nánar íhuguðu máli frá 2. umr. sleppum við menntmrn. og iðnrn., sem við álítum að veiti ekki af þeirri upphæð sem tilgreind er í frv. til að sinna þeim málaflokkum. Vegna nýrrar spár um samdrátt þjóðartekna lækkar launaliður frv. um 1.9%, eins og formaður fjvn. gat um áðan, en við höfum að sama skapi fært okkar till. nær hugmyndum frv. og lækkum útgjöld yfirstjórnar rn. um 8% í stað 10% áður. Þetta endurtekur sig við alla liði sem merktir eru rn.

Liður 10. Húsameistari ríkisins leggjum við til að verði felldur niður. Þetta embætti er að okkar áliti til óþurftar fremur en hitt.

Liður 11 og 12 falla undir þá röksemd sem ég hef þegar getið hér um vegna yfirstjórna í rn.

Liður 13 fellur undir þá skoðun okkar að landbúnaður hafi þegar haft nægan aðlögunartíma og geti farið að greiða fyrir þjónustu. Vegna þessa lækkum við framlag ríkisins til Búnaðarfélagsins, en hækkum á móti sértekjur þess.

Liður 14. Veiðistjóri. Hér fellum við niður embætti veiðistjóra og gerum það að till. okkar að jafnframt að sveitarfélögin taki að sér þetta verkefni.

Liður 15. Hér er um að ræða uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir. Við leggjum það til að þær lækki um 25%. Eins og ég gat um áðan er það í samræmi við málefnagrundvöll BJ að stefna að því að leggja útflutningsbætur niður í þrepum.

Liður 16. Yfirstjórn sjútvrn. Lækkun 8%.

Liður 17. Hér gildir sama röksemdin og við Búnaðarfélag Íslands. Sértekjur hækki, en framtag ríkisins lækki á móti. Það sama á við um næsta lið, lið 18, sem er Fiskifélagið.

Liðir 19 og 20 eru um lækkun yfirstjórnar rn.

Og þá er komið að lið númer 21, sem er Framkvæmdasjóður fatlaðra. Hér viljum við aðeins rétta af þann hlut sem lög gera ráð fyrir að sjóðurinn fái, en fjárlagafrv. gerir einungis ráð fyrir að hann fái 45% af því sem lög segja til fyrir um.

Liður 22. Ef halda á úti Þjóðhagsstofnun og sannað verður að hún veiti réttar upplýsingar, sem ég vonandi fæ svar við hér á eftir, er engin ástæða til þess að ríkið haldi uppi hagdeildum þeim sem frv. gerir ráð fyrir.

Liður 23 er lækkun yfirstjórnar svo og liður 24. Liður 25. Þar leggjum við til nýjan lið upp á 5 millj. kr. sem lið í baráttunni fyrir aðgerðum vegna smygls og dreifingar á fíkniefnum. Það þarf að bæta aðstöðu tollyfirvalda að mun, þannig að allflestar aðgerðir renni ekki að meira eða minna leyti út í sandinn eins og nú.

Liður 26. Við leggjum til að þessi skattstofn verði lagður niður, þ.e. Fasteignamat ríkisins, en að þær upplýsingar sem þegar eru fyrir hendi í sveitarfélögunum, svo sem brunabótamat, verði nýttar og hafðar fyrirliggjandi á hverjum stað og sendar þaðan til byggða- og áætlunardeildar Framkvæmdastofnunar sem vel getur gegnt hlutverki þessu.

Liður 27. Framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins. Við álítum hana vera til óþurftar við íslenskar framkvæmdir og leggjum til að hún verði lögð niður. Liður 28 er um lækkun yfirstjórnar.

Þegar komið er að Skipaútgerð ríkisins álítum við að vitaskuld þyrfti að hætta þeirri útgerð, en það verður væntanlega ekki gert á svipstundu. Þess vegna leggjum við til að dregið verði úr framlögum ríkisins, en að útgerðin geti farið að huga að því að standa undir sér þannig að þegar kemur að sölu þess fyrirtækis, eins og virðist standa til, verði fyrirtækið undir það búið þannig að væntanlegir kaupendur sjái sér hag að bjóða í það.

Liður 30. Nú viljum við fara að láta þörf iðnaðar fyrir þjónustu. Þess vegna höfum við engar sértekjur fyrir Iðntæknistofnun og leggjum til að öll framlög til iðntækniþjónustu og nýiðnaðarrannsókna verði hækkuð að mun.

Liður 31 stefnir í sömu átt: Nýr liður við Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, sem er almennur styrkur að upphæð 22 millj., og Rannsókn og kynning á orkusparnaði 10 millj. kr. Varla mun nú af veita.

Liðurinn 32, þ.e. iðja og iðnaður, framlög. Hér er verið að greiða fyrir iðnþróun og tækninýjungum, iðnþróunarverkefnum og að fjölga iðnráðgjöfum.

Liður 33. Með tilliti til þess að hægt sé að byrja á stærsta virkjunarmöguleika okkar, sem er orkusparandi aðgerðir, hækkum við framlög til orkusparnaðar úr 2.5 millj. í 15 millj. kr.

Liður 34 er um lækkun yfirstjórnar.

Liður 35. Í samræmi við málefnagrundvöll BJ leggjum við til að horfið verði frá niðurgreiðslum í áföngum og leggjum til lækkun á þessum lið um 25%.

Síðasti liðurinn, sem er liður 36. Við leggjum einfaldlega til að liðurinn falli niður og að hlutafélög greiði sjálf þann kostnað sem hlýst af því að skrá þau.

Ég hef rakið þessar brtt. í stuttu máli og held að þær þarfnist ekki nánari skýringa, en vil ítreka að þeim spurningum sem ég lagði fram áðan vonast ég til að fá svör við í þessari umr. frá hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. Þær voru varðandi þau ummæli sem hæstv. fjmrh. viðhafði í umr. s.l. þriðjudag.