19.12.1983
Sameinað þing: 34. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2223 í B-deild Alþingistíðinda. (1900)

1. mál, fjárlög 1984

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ætli það væri hægt að kalla í hæstv. heilbrh.- og trmrh., ef hann væri hér enn þá í húsinu, í tilefni af nokkrum orðum sem mér finnst ég eiga vantalað við hann eftir þá ræðu sem hann hélt áðan? (Forseti: Það skal verða athugað.) Þakka þér fyrir.

Í ræðu minni fyrr í kvöld ræddi ég nokkuð um þann skatt sem gengur undir nafninu „sjúklingaskatturinn“ og ég spurði hæstv. heilbr.- og trmrh. nokkurra spurninga í sambandi við þennan skatt jafnframt því sem ég lagði fyrir hæstv. ráðh. ýmsar aðrar spurningar, bæði varðandi B-álmu Borgarspítalans og nýja starfsemi á daggjaldaspítölum á næsta ári. Ég fékk hjá hæstv. ráðh. nokkuð skýr svör varðandi sumt af því sem ég spurði um, t.d. í sambandi við nýja starfsemi á daggjaldaspítölum á næsta ári. Í svari ráðh. kom fram hvaða stofnanir það eru sem ætlunin er að hefji starfsemi á næsta ári, þ.e. ein hæð í B-álmu Borgarspítalans, SÁÁ sjúkrastöðin í Grafarvogi og auk þess gamla sjúkrahúsið á Selfossi, sem nú hefur verið gert upp til að reka þar hjúkrunarheimili. Ráðh. greindi einnig frá því að það væru horfur á að hluti af þeim deildum sem tilbúnar eru á Landspítalanum yrði tekinn í notkun á næsta ári. Það var þó ekki alveg ljóst af máli ráðh. hvað það væri sem verður kannske látið standa autt hluta ársins, en það virtist vera eitthvað vegna þess að fjármuni skortir til að setja starfsemina af stað. En á Landspítalanum eru nokkrar deildir tilbúnar, þ.e. sú deild þar sem taugasjúkdómalækningar hafa verið á Landspítalanum, en flust út í geðdeildarhús. Þar er ætlunin að koma fyrir aðstöðu til bæklunarlækninga auk þess sem gert er ráð fyrir að iðjuþjálfun hefjist á Kópavogshæli á næsta ári.

Ég tel, að það sé sérstakt fagnaðarefni og ástæða til að undirstrika að það skuli vera komin iðjuþjálfun á þessum stað. Ég held að það sé í rauninni svo að við hefðum þurft að sinna Kópavogshælinu miklu betur á liðnum árum en gert hefur verið og það á jafnt við um mína tíð sem heilbrmrh. og annarra.

Hæstv. ráðh. vefengdi þær tölur sem ég var með í sambandi við Vegagerðina, en ég benti honum á að hlutfall í Vegasjóð af bensíntekjum á þessu ári væri 52.6% eða nokkru hærra en ríkisstj. hefur í hyggju að láta á næsta ári, þ.e. 50% eins og kom fram í yfirlýsingu hv. þm. Lárusar Jónssonar, og ég fullyrti að þarna væri um lækkun á hlutfalli að ræða. Hæstv. ráðh. taldi að þetta væri til komið vegna þess að ég hefði lært einhverja aðra tegund af prósentureikningi en hæstv. samgrh. Það er nú ekki. Ég tel að þarna hafi verið tekin með öll framlög ríkissjóðs á árinu 1983. Hugsanlegt er að þarna sé tekið með inn í myndina það framlag úr ríkissjóði sem veitt hefur verið núna undir lok ársins vegna veggjaldsins sem ekki var lagt á og það sé það sem raski þessum hlutfallstölum eða breyti, en allt um það hafði ég þessa tölu, um 52.6% á árinu 1983, eftir framsöguræðu fyrir minni hl. fjvn. sem hv. þm. Geir Gunnarsson flutti hér í dag, að það væri 52.6% af tekjum ríkisins af bensíni sem færu í Vegasjóð á þessu ári, en 50% á næsta ári. Ég hef ekki haft aðstöðu til þess að athuga þessar tölur nánar síðan ég fékk þær upp í dag. Ég held að þarna sé örugglega alveg rétt reiknað og ábyggilega ekki fengið með neinni annarri tegund af prósentureikningi en tíðkast almennt og margir hafa lært hér t.d. eftir Elíasi nokkrum Bjarnasyni, sem var sá maður sem fræddi flesta Íslendinga í reikningi fyrr á öldinni. (Gripið fram í: Og samdi námsbækur?) Og samdi nokkuð góðar námsbækur.

Síðan kom hæstv. ráðh. að B-álmu Borgarspítalans og ég tel ástæðu til að þakka honum fyrir þau svör sem hann þá gaf. Ég skildi hann þannig, að að vísu væri ekki hægt að gera ráð fyrir á þessu stigi hvaða upphæð þetta yrði nákvæmlega, en mér sýnist að fjárráð Framkvæmdasjóðs aldraðra séu þannig að unnt eigi að vera að koma nokkuð myndarlega til móts við B-álmuna á næsta ári. Ég ætla ekkert að þýfga hann um það frekar, enda tilgangslaust vegna þess að stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra hefur ekki komið saman. Hins vegar gat hæstv. ráðh. þess, að hann mundi bera það undir fjvn., eins og hann orðaði það, áður en gengið verður frá framlögum úr Framkvæmdasjóði aldraðra fyrir árið 1984. Ég tel að það sé góðra gjalda vert og það sé að mörgu leyti skynsamleg aðferð að hafa það svo.

Hæstv. ráðh. svaraði spurningum skýrt og vel í sambandi við samgrn., í sambandi við B-álmuna og í sambandi við nýja starfsemi á næsta ári og ég endurtek þakkir mínar til hans fyrir það. Hins vegar umhverfðist hæstv. ráðh. þegar kom að sjúklingaskattinum og varð reiður og sár. Ég skil óskaplega vel að hann skuli þota illa að talað sé um þennan skatt eins og efni standa til. Það bendir til þess að ráðh. hafði innra með sér komist að þeirri niðurstöðu að óeðlilegt sé og óheppilegt að leggja þennan skatt á. Ég vona þess vegna að hæstv. ráðh. athugi þessi mál betur núna yfir hátíðarnar og komist að þeirri niðurstöðu að þessi skattheimta eigi ekki að eiga sér stað vegna þess að hún sé bæði t.d. siðlaus og vitlaus, svo að notuð séu orð hv. 6. þm. Reykv. sem sæti á í fjh.- og viðskn. og hefur að vísu ekki sést í þinginu til þessa, en heitir Ellert B. Schram. Það er því ekki aðeins sá vondi maður sem hér stendur og sem ekki ætti að láta sjá sig á Alþingi, að því er mér skilst, og helst þá að skríða undir borðin, eins og hæstv. ráðh. orðaði það svo smekklega hér áðan, — það er ekki aðeins ég sem hef þessa skoðun, heldur margir aðrir. Og ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Hefur þessi sjúklingaskattur verið samþykktur í þingflokki sjálfstfl.? Hefur hann verið samþykktur í þingflokki Framsfl.? Ég vil fá um það upplýsingar hvort svo sé. Ég hygg að svo sé ekki og þess vegna eigi báðir þessir þingflokkar möguleika á að breyta ákvörðun í þessum efnum, þannig að það verði tekin stefna á eitthvað annað.

Ég held að það séu mjög margir sammála hv. 6. þm. Reykv. í þessu efni þegar hann segir í forustugrein Dagblaðsins fyrir nokkrum dögum, 16. des.: „Með þessari gjaldtöku, ef af verður, er brotið í blað í heilbrigðisþjónustu hér á landi.“ Og síðan segir hv. þm. í þessum leiðara að „sjúklingaskattur hvers konar væri ómanneskjulegur og ranglátur í sjálfu sér.“ Hann segir enn fremur: „Það er siðlaust að hafa sjúkt fólk að féþúfu og það er rangt að gera þá kröfu til tiltekins hóps í þjóðfélaginu, að hann borgi tvisvar fyrir þá heilbrigðisþjónustu sem allir eiga að hafa jafnan rétt og aðgang að.“ Síðan segir í þessum leiðara, með leyfi hæstv. forseta: „Ef Íslendingar vilja hafa jafnrétti og jafnræði í heiðri gengur sérstakur sjúklingaskattur þvert á alla réttlætiskennd.“ Og enn fremur: „Ef slíkur skattur er viðurkenndur má alveg eins búast við því að önnur almenn þjónusta, svo sem þjónusta strætisvagna, rafveitna, löggæsla eða til að mynda lánaviðskipti hjá ríkisbönkum, verði skattlögð sérstaklega þegar efnaðir þjóðfélagsþegnar eiga í hlut og hvað með skólana? Má ekki búast við að börn efnaðra foreldra verði látin greiða sérstakt gjald fyrir skólagöngu sína með sama hætti og sömu fjölskyldur eiga nú að greiða innlegugjald fyrir sjúkravist?“

„Nýr skattur á sjúklinga er brot á fyrirheitinu um lækkun skatta“, segir hér enn fremur.

Eins og ég hef bent á, m.a. í hv. fjh.- og viðskn. Nd., væri eðlilegast að reikna sjúklingaskattinn sem part af skattastefnu ríkisstj. á árinu 1984. Hv. fulltrúar Sjálfstfl. í þeirri nefnd hafa ekki viljað fallast á þetta sjónarmið. Hér er greinilegt að ég á bandamenn meðal nm. úr Sjálfstfl., þar sem er þessi leiðarahöfundur Dagblaðsins, sem hefur ekki sést hér á þingi enn þá en á sæti í hv. fjh.- og viðskn. Hann telur að þessi nýi skattur á sjúklinga sé brot á fyrirheiti um að greiðslubyrði skatta verði ekki aukin.

Síðan segir: „Ef stjórnvöld hyggjast svíkja loforð sín, með siðlausri skattlagningu á sjúkt fólk, er auðvitað mun heiðarlegra að ganga hreint til verks og hækka tekjuskatta sem þessu nemur.“ Undir þetta tek ég fyrir mitt leyti. — Þá segir í lok forustugreinar DV frá 16. des. s.l. um þennan sjúklingaskatt, að það að leggja hann á er, með leyfi hæstv. forseta, „bæði siðlaust og vitlaust.“

Ég held þess vegna að hæstv. heilbr.- og trmrh. þurfi að átta sig á því að hann á ekki allsherjarstuðning við þetta mál í sínum flokki samkv. þessari forustugrein og ég stórefast um að þm. Framsfl. hafi samþykkt í sínum þingflokki að leggja þennan sjúklingaskatt á. Ég hef ekki heyrt þess getið að svo sé og ég skora á hæstv. heilbr.- og trmrh., þó að hann sé reiður núna í minn garð vegna þeirra orða sem ég lét falla fyrr í kvöld, að endurskoða hugmyndir sínar um sjúklingaskattinn. Þær eru að mínu mati siðlausar, þær eru brot á þeim siðferðilega grundvelli sem allt okkar þjóðfélag, og sérstaklega þó almannatryggingalögin, hvílir á, eins og hér hefur verið rakið mjög vel t.d. af hv. þm. Kjartani Jóhannssyni.

Hæstv. heilbr.- og trmrh. var afar smekklegur í orðavali um margt sem hann tók eftir hér í þinginu. Get ég ekki tekið undir það með hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að ég hafi haft sérstaklega gaman af því að sjá ráðh. í þessum ham. Satt að segja fann ég til með ráðh. í þessu efni. Hæstv. ráðh. fullyrti að ég væri reiður og ég skammaðist mín fyrir síðustu ríkisstjórnina í landinu. Ég sá aðeins einn mann sem var reiður og sem skammaðist sín hér í salnum, þegar hæstv. ráðh. flutti sína ræðu, og það var hann sjálfur. Það finnst mér benda til þess að hann geti verið á réttri leið og einhvers staðar bærist með honum réttlætiskennd sem gæti dugað honum til að leiðrétta þá hroðalegu hugmynd sem hann er núna að bauka við að láta embættismenn sína í heilbr.- og trmrn. reikna út.

Hæstv. ráðh. orðaði þetta svo, að hann ættaði ekki að leggja þennan skatt á börnin. Skárra væri það nú. Þakka skyldi, hefði verið sagt. Og hæstv. ráðh. sagði einnig í reiðilestri sínum að hann ætlaði ekki að leggja þetta á aldraða og ekki heldur á þá sem ekki hefðu tekjur af fullri vinnu. Ég held að hæstv. ráðh. þurfi aðeins að átta sig á því hvernig þessir hlutir mega ganga fyrir sig. Á fólk sem leggst inn á sjúkrahús að afhenda skattaframtöl sín? Á það að leggja fram tekjuvottorð eða hvernig á fólk að sanna fátækt sína, svo að notuð séu orð sem fallið hafa í þessum ræðustól? Hæstv. ráðh. verður auðvitað að þola að þm. stjórnarandstöðunnar tali við hann fullum hálsi um siðlausar hugmyndir af þessu tagi. Og auðvitað verður hæstv. ráðh. að átta sig á því, sem víða hefur verið bent á, að reiðin er ekki góður ráðgjafi í þessum efnum. Það væri fróðlegt fyrir hann að renna t.d. yfir Jón Vídalín í tilefni jólanna, um reiðina og það hvernig reiðin getur afskræmt skynsemi mannanna. Ég held að það ætti að vera hollt fyrir hæstv. ráðh. að líta yfir um jólin hvernig svona lagað getur farið með hina bestu og greindustu menn. Ég held þess vegna að það að ráðh. var reiður og hann virtist skammast sín bendi til þess að hann sé á réttri braut og að baki jólum getum við mætt nýjum ráðh. með nýjar og betri og skynsamlegri hugmyndir en þær sem hann hefur hér lagt fram. Þá munum við þm. Alþb. a.m.k. fagna þeim sinnaskiptum og erum reiðubúnir að styðja ráðh. í því efni.