20.12.1983
Efri deild: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2240 í B-deild Alþingistíðinda. (1933)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. minni hl. (Karl Steinar Guðnason):

Virðulegi forseti. Orðið er áliðið og sjútvn. hefur verið að störfum svo til samfleytt frá því kl. 6 í gærkvöldi. Eins og fram kom hjá meiri hl. sjútvn. náðist ekki samkomulag. Minni hl. sjútvn. skilar svofelldu áliti:

„Nefndin hefur fjallað um frv. en þó haft til þess takmarkaðan tíma. Áður en frv. var vísað til nefndar í Nd., en þar hefur frv. verið samþykkt óbreytt, voru haldnir sameiginlegir fundir sjávarútvegsnefnda beggja deilda og rætt við nokkra aðila. Í þeim viðtölum kom m.a. fram að erfiðleikar í sjávarútvegi voru af ýmsum orsökum, þ. á m. vegna skorts á skipulagningu veiða og vinnslu og aflabrests. Við umfjöllun um frv. á hinum sameiginlegu fundum sjávarútvegsnefndanna voru nm. sammála um að nauðsynlegt væri að grípa til ákveðnari aðgerða við stjórn fiskveiða heldur en gert hefur verið. Nokkrir nm., bæði úr flokkum stjórnar og stjórnarandstöðu, lýstu yfir andstöðu sinni við þau ákvæði þessa frv. sem hafa að geyma miklu ótvíræðari og víðtækari heimildir til handa sjútvrh. um stjórn og takmörkun fiskveiða en áður hafa þekkst eða finna má í gildandi lögum.

Við teljum það rangt að fela ráðh. að marka aðalatriði fiskveiðistefnu. Sú stefnumörkun á að vera Alþingis. Ef sérstakar ástæður og tímaleysi gera það nauðsynlegt að veita ráðh. slíkt vald á að binda ákvarðanatöku ráðh. skyldu til samráðs við nánustu hagsmuna- og sérfræðiaðila.

Við sem stöndum að þessu nál. teljum að þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við undirbúning og framlagningu þessa frv. séu mjög ámælisverð.

Í fyrsta lagi er frv. það seint lagt fram að ekki hefur gefist tími til að senda það til umsagnar, svo að efni þess og tilgangur fengi eðlilega og nauðsynlega umræðu meðal hagsmunaaðila og almennings — og á Alþingi.

Í öðru lagi bendir flest til þess að jafnvel þótt fattist sé á skoðanir sjútvrh., að Alþingi beri að afhenda honum allt það vald sem hann óskar eftir skv. þessu frv., sé ástæðulaust að gera það fyrr en síðustu daga janúar n.k. Undirbúningur þeirra stjórnunaraðgerða sem fyrirhugaðar eru er það skammt á veg kominn að Ijóst er að tillögum um þær verður ekki lokið fyrr en 1. febr. n.k.

Minni hl. sjútvn. lagði í nefndarstörfum höfuðáherslu á að ná samkomulagi um afgreiðslu málsins og óskaði eftir því við sjútvrh. að hann gæfi yfirlýsingu um að hann legði að loknu þinghléi fyrir Alþingi þáttill. um mótun og framkvæmd fiskveiðistefnu fyrir árið 1984. Eftir langt samningaþóf var þessari ósk, og þar með samkomulagi hafnað.

Undirritaðir nefndarmenn munu leggja fram brtt. til staðfestingar áðurgreindu samningstilboði.

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir sat nefndarfundi sem áheyrnarfulltrúi og er aðili að þessu áliti.“

Undir nál. rita Karl Steinar Guðnason, Skúli Alexandersson og Kolbrún Jónsdóttir.