20.12.1983
Sameinað þing: 35. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2253 í B-deild Alþingistíðinda. (1978)

Um þingsköp

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á 11. lið, um kosningu fjögurra manna í stjórnarnefnd ríkisspítalanna til fjögurra ára, frá 1. júní 1983 til 8. júní 1987. Ég hefði nú talið rétt að fella niður dagsetningar þarna. Samkv. lögum á að kjósa þessa nefnd til fjögurra ára. Ekki er rétt að mínum dómi að stjórn fari frá 8. júní því að þá er Alþingi yfirleitt ekki að störfum. Ég legg því til að þetta verði leiðrétt og í tilkynningu til þeirra sem kosnir verða komi fram að þeir verði kosnir til fjögurra ára.