26.01.1984
Sameinað þing: 39. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2386 í B-deild Alþingistíðinda. (2112)

89. mál, rekstrargrundvöllur sláturhúsa

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég get vissulega tekið undir nálega allt það sem komið hefur fram í þessari umr. og þar á meðal get ég tekið undir gagnsemi á flutningi þessarar till. Það ber þó að hafa í huga að hana verður að líta á sem ábendingu um vandamál á vissum stöðum og þá sérstaklega á þeim stöðum og kannske sérstaklega á einum stað, á Breiðdalsvík, þar sem rekstur sláturhússins stefnir í mikið óefni. Ég óttast nú að fyrri liður till. eins og hann liggur hér fyrir leysi ekki þau vandamál eða önnur slík. Það er alveg ljóst að þar verður m.a. á að líta að sláturhúsið var byggt á síðustu tímum, eftir að hin gómsæta verðtrygging gekk yfir fjárfestingu í landbúnaði, og er útkoman á sláturhúsinu á Breiðdalsvík góð vísbending um hvernig slík lánatilhögun leikur nú íslenskan landbúnað, íslenska bændur sem þess góðgætis hafa notið. Ég óttast að jafnvel þótt tækist að finna upp einhver ný vinnsluverkefni, m.a. í sláturiðnaði, gæti sú starfsemi ekki skilað miklu fjármagni til að bæta þennan veika rekstur. Það hlýtur að vera lausn í þessu máli að breyta skuldum og færa þær til lengri tíma og fá þannig frekari grundvöll undir reksturinn. Mér finnst ástæða til að þetta komi hér fram vegna þess að það er meginvandamátið í þessu sambandi.

Mér finnst ástæða til að vekja sérstaka athygli á því sem kemur svo fram í 2. lið þessarar till. Þar finnst mér vera um sérstaklega raunhæfa og gagnlega ábendingu að ræða, sem sé þá, að það sé lögð áhersla á að endurbæta eldri sláturhús svo að viðunandi sé og ekki þurfi að ráðast í nýbyggingar. Ég held að það sé rétt að undirstrika þessa ábendingu, því að menn hafa í þessum efnum, og þá tek ég undir orð frsm., verið fullákafir í því að kasta því sem fyrir hefur verið og leggja út í nýja fjárfestingu þess í stað.

Ég get líka tekið á margan hátt undir orð hæstv. landbrh., sem hann lét falla við þessa umr. Sannleikurinn er sá, að í sláturhúsarekstrinum er fjárfestingin ekki það þyngsta og ekki það erfiðasta.

Það er líka vert að undirstrika það sem kom fram í ræðu hjá hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni um erfið kjör bændanna í þessu landi. Það er kannske aðaltilefni þess að ég kvaddi mér hljóðs í framhaldi af því að verið er að fala um erfiðan rekstur sláturhúsa, sem ég held að hljóti að heyra til undantekninga. Þær undantekningar eru við svipaðar aðstæður og á Breiðdalsvík. En eins og við vitum er sláturhúsareksturinn í þessu landi í raun alveg gulltryggður. Það eru engar skyldur á sláturleyfishöfum í þá veru að þeir verði að skila framleiðandanum ákveðnu verði. Þegar ekki er til staðar nægilegt svigrúm innan álagningarkerfisins er farin sú leið að skita minna fjármagn til bændanna en verðlagsgrundvöllurinn kveður á um. Þannig m.a. er tryggður rekstur sláturhúsanna í þessu landi. Það er einmitt þetta sem hv. þm. Eyjólfur Konráð var að vekja athygli á í sinni ræðu. Núna í desembermánuði, kannske eitthvað fyrr, þegar haustuppgjör fór fram á kjötframleiðslu fyrir árið 1982, ekki fyrir árið 1983 heldur 1982, vakna menn upp við þann vonda draum að það vantar stórlega upp á að hægt sé að skila bændunum í þessu landi eðlilegu skítaverði fyrir framleiðslu ársins 1982. Það hafa ekki fengist enn þá skýringar á því vegna hvers þetta hefur orðið svo.

Við heyrðum hér nýlega miklar umr. um atvinnuleysi í landinu og erfiðleika hjá fólki í þeim efnum, og enginn skyldi úr því draga, en það má þá ekki gleymast að margir bændur á Íslandi, kannske langflestir sem stunda sauðfjárrækt, vöknuðu upp við þann vonda draum í desembermánuði s.l. að þá vantaði á launin sín fyrir árið 1982 upphæðir sem skiptu mánaðar- eða jafnvel margra mánaða launum. Og af hverju ætli þetta sé? M.a. vegna þess að það þarf að gulltryggja rekstur sláturhúsanna í landinu? M.a. vegna þess að það skiptir ekki svo miklu hvernig sláturhúsin í landinu ern. rekin. Það skiptir ekki svo miklu máli hvað þar er mikið vinnuafl og hvað þar er mikill tilkostnaður. Ef eðlilegar álagningarreglur nægja ekki er leiðin gulltryggð, þ.e. að taka af launatekjum bændanna í þessu landi til að standa undir þessum rekstri. Svona er þessi mynd um þessar mundir.

Ég tek svo undir það að lokum, sem hv. þm. Eyjólfur Konráð sagði hér áðan, að ekki er frekari ástæða að þessu sinni að fara út í almenna umr. um landbúnaðarmál, en stór þáttur, uppgjörsþátturinn frá s.l. hausti, verður náttúrlega ekki lengi lagður til hliðar í þessari umr. allri.