30.01.1984
Efri deild: 45. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2427 í B-deild Alþingistíðinda. (2130)

154. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Frv. þetta var lagt fram á síðasta Alþingi og þá samþykkt, en er nú endurflutt til staðfestingar eins og stjórnarskrá lýðveldisins gerir ráð fyrir. Frv. var á síðasta þingi flutt af formönnum þeirra fjögurra stjórnmálaflokka sem fulltrúa áttu á Alþingi, en talið var eðlilegt að forsrh. flytti málið nú til staðfestingar.

Um þetta mál var allítarlega rætt á síðasta þingi, m.a. í framsöguræðum formanna flokkanna, þótt segja megi að þá hafi verið fjallað meira um þær kosningalagabreytingar sem á þessu byggjast, en jafnframt var frv. reifað allítarlega í framsöguræðu formanns þeirrar nefndar sem með málið fór. Ég skal því ekki hafa um þetta mörg orð en rekja nokkur meginatriði.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því að á Alþingi eigi sæti 63 þjóðkjörnir þm. og er þeim þar með fjölgað um þrjá. Þetta er ein meginforsenda fyrir þeirri kosningalagabreytingu sem liggur nú fyrir hv. Nd. Fjölgun þm. hefur iðulega verið deiluefni. Margir hafa viljað komast hjá fjölgun og talið æskilegt að halda þeirri tölu sem nú er, en jafnframt hafa verið uppi hugmyndir um verulega meiri fjölgun en hér er gert ráð fyrir. Allt hefur þetta markast af þeirri viðleitni að ná meiri jöfnuði milli atkvæða, óháð því hvar á landinu er, og sömuleiðis meira jafnvægi á milli þingflokka. Eftir mjög ítarlega yfirferð og athuganir varð niðurstaðan sú að fjölga þm. um þrjá. Tel ég fyrir mitt leyti að ekki hafi verið unnt, ef ná átti þeim markmiðum sem samkomulag varð um og ég nefndi áðan, að hafa fjölgun þm. minni en hér er gert ráð fyrir.

Í þessari 1. gr. eru jafnframt talin upp kjördæmin og engin breyting þar á gerð, en jafnframt eru í a-lið talin upp þau þingsæti sem hverju kjördæmi ber að hafa og þau þannig ákveðin í stjórnarskrá lýðveldisins. Þar er nokkur breyting frá því sem nú er. Nú eru 11 uppbótarsæti eins og hv. þm. þekkja en 49 þingsæti bundin við kjördæmi. Þessu er fjölgað hér þannig að 54 þingsæti eru bundin við kjördæmi. Þannig eigi Reykjavíkurkjördæmi a.m.k. 14 þingsæti, Reykjaneskjördæmi 8 þingsæti, Vesturlandskjördæmi 5, Vestfjarðakjördæmi 5, Norðurlandskjördæmi vestra 5, Norðurlandskjördæmi eystra 6, Austurlandskjördæmi 5 og Suðurlandskjördæmi 6. Þeim þingsætum sem bundin eru við ákveðin kjördæmi er því fjölgað.

Jafnframt segir í þessari grein: „A.m.k. 8 þingsætum skal ráðstafa til kjördæma fyrir hverjar kosningar skv. ákvæðum í kosningalögum.“ Þessi þingsæti bætast að sjálfsögðu við þessi 54.

Og í c-lið segir: „Heimilt er að ráðstafa einu þingsæti til kjördæmis að loknum hverjum kosningum skv. ákvæðum í kosningalögum.“ Þessi nýju þingsæti sem við bætast eru því fyrstu jöfnunarsæti en jafnframt er ákveðið, eins og nánar er greint frá í kosningalögum, að nokkrum af þeim þingsætum sem bundin eru ákveðnum kjördæmum megi ráðstafa á milli flokka innan viðkomandi kjördæma til að ná þeim jöfnuði sem að er stefnt á milli flokka á Alþingi. Hér er þá aðeins um að ræða síðasta þingsætið í kjördæmum sem eru með undir 8 þingsætum.

Á 33. gr. stjórnarskrárinnar er gerð nokkur breyting með 2. gr. þessa frv. Mér þykir rétt að ég lesi 33. gr. eins og hún er nú í stjórnarskránni. Þar segir, með leyfi forseta:

„Kosningarrétt við kosningar til Alþingis hafa allir, karlar sem konur, sem eru 20 ára eða eldri þegar kosning fer fram, hafa íslenskan ríkisborgararétt og eiga lögheimili hér á landi. Þó getur enginn átt kosningarrétt nema hann hafi óflekkað mannorð og sé eigi sviptur lögræði. Kosningalög setja að öðru leyti nánari reglur um alþingiskosningar.“

Í frv. er þessi gr. þannig orðuð:

„Kosningarrétt við kosningar til Alþingis hafa allir sem eru 18 ára eða eldri, þegar kosning fer fram, og hafa íslenskan ríkisborgararétt. Lögheimili á Íslandi, þegar kosning fer fram, er einnig skilyrði kosningarréttar nema undantekningar frá þeirri reglu verði ákveðnar í lögum um kosningar til Alþingis.“

Hér er því í fyrsta lagi gert ráð fyrir því að kosningarréttur lækki úr 20 ára aldri í 18 ára aldur. Í öðru lagi er ákvæðið um ríkisborgararétt fortakslausara í gildandi lögum en hér er. Eins og ég las áðan segir þar: „Og eiga lögheimili hér á landi.“ Í 2. gr. frv. nú er fyrirvari um undantekningar frá þeirri reglu skv. ákvæðum laga um kosningar til Alþingis. Þessi undantekning er mikilvæg, alveg sérstaklega með tilliti til námsmanna erlendis, sem hafa eðlilega, ekki síst þeir sem eru á Norðurlöndum, sótt fast að eiga hér kosningarrétt þótt lögheimili sé af einhverjum ástæðum í því landi þar sem þeir eru við nám eða starfa tímabundið að námi loknu. Í þessari gr., eins og hún er nú orðuð, er þetta opnað miklu betur en nú er. Þannig skapast möguleikar til að ráða þessum málum til lykta í lögum um kosningar til Alþingis.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Ég legg til að að þessari umr. lokinni verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.