31.01.1984
Sameinað þing: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2469 í B-deild Alþingistíðinda. (2149)

146. mál, umhverfismál

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Það er ljóst að framtíð mannkyns veltur allmjög á því hvernig við umgöngumst náttúruna, hvernig við nýtum gögn hennar og gæði og hvort við berum gæfu til að spilla henni ekki svo mjög að ómögulegt verði úr að bæta. Því miður hefur maðurinn oft og víða gengið kæruleysislega um þá jörð sem hann hefur talið sig einan ráða yfir, eytt gróðri, blettað fagurt landslag með ósmekklegum mannvirkjum og spúð eitri yfir láð og lög. Auðlindaþurrð, eyðing lands og iðnaðarmengun steðja að okkur ef ekki er rækilega spyrnt við fótum. Við verðum að hætta að ganga í berhögg við lögmál náttúrunnar með ofnýtingu auðlinda, fyrirhyggjulausri mannvirkjagerð og óhóflegri umferð um viðkvæm landsvæði. Okkur er brýn nauðsyn að koma á jafnvægi á milli manns og náttúru. Til þess duga ekki orðin tóm. Við verðum að marka þessa stefnu með heildstæðri löggjöf um umhverfismál og nýtingu auðlinda.

Í upphafi þings var þm. birtur listi yfir þau mál sem ríkisstj. hygðist leggja fram á 106. löggjafarþingi. Þeirra á meðal var boðað frv. um umhverfismál á vegum félmrn. Til að ýta á eftir því máli lagði ég fram fsp. til félmrh. nokkru fyrir jólaleyfi þingsins. Hún er í þremur liðum á þskj. 196 og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Hvenær hyggst ráðh. leggja fram frv. um umhverfismál sem boðað var í upphafi þings?

2. Hefur verið skipuð nefnd til að yfirfara áður gerð frv. um umhverfismál eða semja enn eitt um þau mál?

3. Ef svo er, hverjir skipa þá nefnd og hvenær hyggst hún ljúka störfum?“

Nokkrum dögum eftir að þessi fsp. var lögð fram var dreift hér á þinginu frv. til l. um umhverfismál. Það er á þskj. 268, lagt fram af sex sjálfstæðismönnum, þar sem 1. flm. er Gunnar G. Schram. Þetta frv. er að verulegu leyti samhljóða frv. um sama efni sem tvisvar áður hefur verið lagt fram á Alþingi, þ.e. árin 1978 og 1981, en hlaut í hvorugt skiptið afgreiðslu. 1. flm. frv. sem nú liggur frammi átti mikinn þátt í samningu fyrra frv.

Um frv. þeirra sjálfstæðismanna er margt gott að segja þótt ég ætli ekki að fjalla um það núna. Það bíður síns tíma. En þessi atburðarás er býsna einkennileg. Ríkisstj. boðar í upphafi þings frv. um umhverfismál og liggur þá beinast við að ætla að samstarfsflokkarnir í stjórninni hyggist koma sér saman um stefnu í þeim málum. Þegar ekkert bólar á frv. er lögð fram fsp. til að ýta á eftir, en áður en henni er svarað og upplýst um framgang málsins kemur fram frv. þm. úr aðeins öðrum stjórnarflokknum. Ég hlýt að biðja félmrh. að skýra það í svari sínu við fsp. minni hvað hér er á ferðinni, hvort um er að ræða ósamkomulag á milli samstarfsflokkanna í þessum umrædda málaflokki og hvort einkaframtak sjálfstæðismannanna sex er líklegt til að tefja að einhverju leyti eða jafnvel koma í veg fyrir að samstaða náist um umhverfismál í náinni framtíð. Það væri að mínum dómi mikill skaði.