31.01.1984
Sameinað þing: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2482 í B-deild Alþingistíðinda. (2166)

165. mál, sleppibúnaður björgunarbáta

Fyrirspyrjandi (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég þakka samgrh. svör. Mér finnst að þær upplýsingar sem koma fram hjá ráðh. undirstriki aðeins það sem ég hef sagt um þetta mái. Það kemur fram að 130 búnaðir, svokallaðir Sigmundsbúnaðir, eru komnir um borð í skip og það er eini búnaðurinn sem til er, eini búnaðurinn sem er á boðstólum sem býr yfir sjálfvirkum sleppibúnaði. Það er ekki hægt að skilja þarna á milli þótt embættismenn geri það og ég ætla ekki að greina frá af hvaða ástæðum ég tel að það sé. Það er um að ræða í einu samhengi öryggisbúnað sem á að vera til staðar, sem á að bjóða upp á og á ekki að, fara neitt á bak við hvað verið er að gera í þeim efnum. Það er undirstrikað í reglunum að í hverju skipi skal einn björgunargúmmíbátur vera með viðurkenndum sjóstýribúnaði og það eru komnir 265 búnaðir í íslenska flotann sem búa ekki yfir þessum möguleikum.

Ég hef ekki fengið svar við því hvers vegna leyfð er uppsetning á tæki sem býr ekki yfir þessum möguleika. Í skýringu ráðh. kom fram að það væri gert ráð fyrir að hægt væri að tengja sjálfvirkan sjóstýribúnað við þau tæki sem ekki hefðu þann möguleika í dag. En það er ekki búið að finna upp þann hluta tækisins sem ég ræði um. Það tel ég ekki aðeins hættulegt fyrir öryggi íslenskra sjómanna, heldur einnig undirstrika slæleg vinnubrögð þeirrar stofnunar sem á að hafa eftirlit með þessum málum, Siglingamálastofnunar.

Ég ætla ekki að ræða hér um gerð hvors tækisins fyrir sig. Það er fremur sérfræðinga að fjalla um slíkt. En ég vil benda á að þau 265 tæki, sem nú eru komin í flotann og eru reyndar samkv. upplýsingum sem fram hafa komið í blöðum og hjá fréttastofum nýlega dýrari en það tæki sem býr yfir meiri möguleikum, byggjast á að gormabúnaður sviptir gjörð af gúmbjörgunarbát og skýtur honum frá skipi. Löglegir gormar samkv. kröfum Siglingamálastofnunar hafa ekki fengist framleiddir erlendis og því hefur verið bráðabirgðalausn að sjóða saman tvo gorma úr Bronco-bifreiðum. Það vita allir hvað það þýðir í öryggisatriðum að sjóða saman gorma sem búa við ákveðna þenslu í langan tíma. Þannig eru mörg atriði sem mætti benda á í þessu máli og ástæða er til að benda á og fjalla um, því hér er um líf manna að tefla, og er ástæða til að hvetja til þess að tekið sé fastar á í þessum málum og af meiri ábyrgð en verið hefur.

Það má benda á að Sigmundsbúnaður losar loftventil um leið og hann fer í gang og gúmbjörgunarbáturinn byrjar að blásast upp á leiðinni frá skipshlið, en á svokölluðum gormabúnaði sem byggist þó á hugmynd Sigmunds Jóhannssonar að öðru leyti en því að það er belgur annars vegar en gormur hins vegar, þá þarf að kippa í spotta eftir að björgunarhylkið er komið á flot.

Það er ástæða til að fjalla um þetta. Það eru nú nokkur ár síðan þessi búnaður var reyndur. Það var engin hreyfing í þessu máli á síðasta ári og það komu fram rangar upplýsingar frá Siglingamálastofnun fyrir nokkrum vikum um að það væri afgreiðslufrestur á þessum tækjum. Þannig er ekki allt sem skyldi í þessum efnum. Ég vildi því vekja athygli á málinu og hvetja til þess að gætt sé hagsmuna sjómanna til hins ítrasta í öryggismálum.