31.01.1984
Sameinað þing: 41. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2501 í B-deild Alþingistíðinda. (2181)

162. mál, vegáætlun 1983--1986

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég hef raunar ekki miklu við það að bæta sem hér hefur komið fram, en vil aðeins drepa hér á örfá atriði, fyrst varðandi ræðu hæstv. samgrh. Ég er út af fyrir sig ekkert undrandi á því þó að ráðh. fari geyst og sé skorinorður í þessum málaflokki, því að þeir sem þekkja til þess persónuleika sem hann hefur að geyma vita að þar sem hann tekur á tökum, þar er vel tekið á. Ég fer ekki í neinar grafgötur um það. Verði einhvers staðar dragbítar á því að vinna vel að framgangi vegamála, og þá vegáætlunar í þessu tilfelli, fyrir næstu árin, þá koma þeir dragbítar ábyggilega annars staðar frá en frá hæstv. samgrh. Þetta má hann eiga frá mér og þetta má hver sem er hafa eftir mér hvar sem er í hans garð. Nóg er annað sem við hann er að athuga á öðrum sviðum þó að hann njóti þessa.

En aðeins í sambandi við það sem hér hefur komið fram. Auðvitað tel ég almennt og menn eru nokkuð sammála um það að einhverjar arðbærustu framkvæmdir sem hægt er að fara í í þeim efnum séu vegaframkvæmdir, hvað sem minn flokkur kann að segja um það að öðru leyti. Það má líka hafa eftir mér hvar sem er.

En varðandi upptalninguna sem ráðh. var hér með, áðan vil ég aðeins nefna eitt dæmi í viðbót. Við höfum líka Álftafjörð, það veit ég að ráðh. veit, en ég ætla ekki sérstaklega að tala um hann. En ég veit að ráðh. hefur bara gleymt því að nefna Breiðadalsheiðina. Hann hefur örugglega ætlað að gera það og ég vil koma því hér á framfæri til viðbótar þeim upptöldu verkefnum sem eru auðvitað miklu fleiri en bæði hæstv. ráðh. talaði hér um og aðrir sem komið hafa inn á önnur atriði. Það eru ótæmandi verkefni sem þarna er um að ræða að því er varðar framkvæmdir í vegum, sem eru nauðsynlegar framkvæmdir og geta í raun og veru skipt sköpum um það hvort áframhaldandi byggð verður á mörgum þeirra svæða sem um er að ræða þarna eða ekki.

Í sambandi við viðlegukostnaðinn þykir mönnum það kannske koma úr hörðustu átt að ég fari að tala um þá hluti hér, að þar sé kannske einum um of langt gengið. Ég er þó þeirrar skoðunar að það ætti að skoða, hvort það er ekki orðið óeðlilegt hlutfall í viðlegukostnaði þegar það er orðið næstum því eins mikið og launakostnaður. En Alþingi hefur sett þessar reglur. Þetta er eitt af því sem lögfest hefur verið á Alþingi að ég best veit. En ég er þeirrar skoðunar að það mætti hugsanlega koma þessum málum miklu betur og skynsamlegar fyrir báða aðila með minni tilkostnaði ef farnar væru aðrar leiðir í þessum efnum. Ég held að það geti verið, a.m.k. er það þess virði að það verði skoðað, miklu hagkvæmara beinlínis að kosta flutning þessara manna á tilteknum tímum til síns heima en láta þá liggja úti, án þess að ég ætli á nokkurn hátt að draga úr því að auðvitað er þessum mönnum nauðsynlegt að hafa sem bestan aðbúnað. En ég hygg að það sé vægt til orða tekið að nokkuð hafi verið gengið út í öfgar í þessum efnum.

Varðandi útboðin hef ég verið talsmaður þess að rétt væri a.m.k. að leiða hugann frekar í þá átt að bjóða út. Ég er þó sömu skoðunar og hér hefur komið fram að ég held hjá flestum ræðumönnum að það þurfi a.m.k. að hafa þar gát á. Ég veit dæmi úr mínu kjördæmi frá s.l. ári þar sem mikill styrr kom upp í sambandi við slíkt. Og ljóst er að það eru ýmis verkefni, ég tala nú ekki um á þessum samdráttartímum, sem nauðsynlegt er að heimaaðilar geti fengið að vinna á viðkomandi svæðum en ekki utanaðkomandi aðilar. Utanaðkomandi aðilar, segi ég og þá er ég að tala um aðila sem eru búnir að byggja sig upp til þessa. Það er fyrst og fremst hér á Reykjavíkursvæðinu sem slíkir aðilar eru fyrir hendi og geta í mörgum tilfellum, kannske flestum undirboðið.

En það er annað í þessu máti og ég vildi gjarnan beina spurningu til hæstv. ráðh. um það. Er það rétt, sem margir halda fram, að sá verktaki sem sá um framkvæmdir við Ólafsvíkurennisveginn sé um margt miklu samkeppnisfærari en nokkur annar vegna þess að hann fær allt innflutt án tolla og aðflutningsgjalda, öll tækin sem hann vinnur með? Ef það er rétt, þá er hér ekki um neinn samanburð að ræða. Þá er slíkum aðila gefið það mikið forskot til að vinna verkin fyrir miklu minna fjármagn en öðrum að það liggur við að þar sé um einokun að ræða. Þetta hefur verið fullyrt við mig og ef hæstv. ráðh. veit um þetta þætti mér vænt um að hann segði til um það. Ég þykist vita að fleiri þm. hafi borist þetta til eyrna. Um sannleiksgildi þess veit ég ekki og því er spurt.

Um Ó-vegina er það að segja að til þeirra framkvæmda var ætluð sérstök fjárveiting og sé hægt að vinna þar á þann veg að eitthvað sparist í þeim tilteknu fjárveitingum, þá tel ég að það eigi að fara í einhvern annan Ó-veg, ekki að flytjast í aðra þætti. Ó-vegaframkvæmdirnar og fjármagnið sem til þeirra er ætlað á einvörðungu að vera þar. Ég skil það a.m.k. svo og ég treysti samgrh. til að sjá um að halda vel utan að þeim peningum sem hugsanlega kunna að sparast í Óvegaframkvæmdunum einhverjum og láta það ekki fara til einhverra annarra þátta í vegagerðinni. Þó að sparist á einum staðnum á Ó-vegunum, þá eru nóg verkefni fyrir hendi og vantar fjármagn á hina staðina til þess að flýta þar framkvæmdum.

Ég skal ekki, herra forseti, lengja þetta frekar. En mér þætti vænt um það, ef hæstv. ráðh. veit eitthvað um þessar fullyrðingar sem ég hef heyrt varðandi verktakann við Ólafsvíkurenni, hvort þær fá í raun og veru staðist, að hann gæti gefið upplýsingar þar um.