02.02.1984
Sameinað þing: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2540 í B-deild Alþingistíðinda. (2217)

104. mál, lækkun húshitunarkostnaðar

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það er ekki nema allt gott um það að segja að hér skuli vera komin á dagskrá till. til þál. um lækkun og jöfnun húshitunarkostnaðar, sem hæstv. fyrrv. iðnrh. er 1. flm. að. Ég get að sjálfsögðu fagnað því og þá ekki síst vegna þess að það er æskilegt að stjórnmálaflokkarnir leggi í það nokkra vinnu hér á Alþingi að skýra stefnu sína í einstökum málaflokkum.

Það er mikil saga, sem ég ætla ekki að ræða hér en kom hér fram í ræðu síðasta hv. ræðumanns, að fjalla um þróun orkuverðs á þeim fimm árum sem Alþb. fór með forræði þeirra mála. En til að bregða upp ofurlítilli mynd af þeim málum er vert að benda á að á þeim tíma þrefölduðust allir raforkutaxtar í landinu að raungildi til. Þetta segir ákaflega mikla sögu þótt í stuttu máli sé.

Það ber líka að hafa í huga í þessu sambandi, að í raun var af fyrrv. ríkisstj. og þá fyrir forustu fyrrv. iðnrh. tekin ákvörðun um hverjar gjaldskrár raforkuiðnaðarins skyldu verða með æðimiklum fyrirvara. Þannig vill til að fyrir liggur bréf sem fyrrv. iðnrh., hv. núv. 5. þm. Austurl., gaf út þann 23. apríl árið 1982 þar sem kveðið er svo á um að jöfnuði í framleiðslukostnaði og gjaldskrám skuli náð með jöfnum hækkunum á tveimur árum, þ.e. árinu 1982 og árinu 1983. Þær hækkanir, sem þá var gefið fyrirheit um og gjaldskrár tóku mið af á árinu 1982 og eins og þær áttu að verða á árinu 1983, hafa ekki komið til framkvæmda. Sú gjaldskrárhækkun sem miðað var við að yrði á árinu 1983 hefur ekki orðið. Það hefur ekki verið fylgt því hækkunarplani sem lagður var grundvöllur að með bréfi iðnrh. sem dags. er í apríl 1982.

Það ber að hafa í huga í sambandi við þessa till., og það vil ég undirstrika, að efnislega er ég þar sammála mörgu. Ég er t.d. sammála því að rjúfa þá viðmiðun sem hefur verið á milli raforkuverðsins og olíu eða hitaveitna, sem raforkuverð til húshitunar hefur tekið mið af allt fram að þessum tíma. Hér er lagt til, að því er ég hygg í fyrsta sinn, að höfð verði nokkuð til viðmiðunar í þessum efnum kjör fólksins í landinu. Þessu er ég alveg sammála. Það er ekki ósvipuð viðmiðun sem var æði mikið notuð í störfum orkuverðsnefndar. Nú er talað hér um að ná fram ákveðnum árangri á árinu 1984, þ.e. 6 vikna launaviðmiðun miðað við hitun 400 rúmmetra húsnæðis. Það er athyglisvert, eins og ég hef nú sagt hér áður á Alþingi, hvernig þessi tala er fundin. Þetta er nefnilega meðaltalstala á húshitunarkostnaði frá árinu 1970 til ársins 1978. Ég hygg að það muni hafa verið 61/2 vika. Flm. fer því aftur fyrir sitt ráðherratímabil til að finna viðmiðun. Það er hyggilegt.

Í 2. lið till. talar flm. um vegið meðattal hitaveitna og töluna 21/2. Ef við þetta yrði miðað mundi raforkuverð til húshitunar hækka frá því sem nú er, en ekki lækka. Ég hygg að þessi tala sé ekki mjög langt frá tveimur núna. Þá geta talnaglöggir menn séð hverju Alþb. reiknar með í þessum efnum. Hér hefur hæstv. félmrh. sagt frá því að þegar hafi verið gripið til aukinna aðgerða í húshitunarmálum. Þá þykir mér ekki ólíklegt að miðað sé við þá viðmiðun sem orkuverðsnefnd er með í sínu frv., sem er 1.8. Ef við miðum við hús sem er bærilega einangrað — ég sakna þess nú að hv. þm. Karvel Pálmason skuli ekki vera hér einhvers staðar nær — þá erum við ekki neitt mjög langt frá sjö vikna verkamannslaunum miðað við 400 rúmmetra húsnæði. Þessar tölur verður væntanlega hægt að fara nákvæmar yfir bráðlega, en við erum samkv. þeim upplýsingum sem félmrh. gaf hér áðan ekkert fjarri því að vera staddir á svipuðum slóðum og hæstv. iðnrh. telur að væri æskilegt í árslok 1984. Þetta er hins vegar ekki það sem skiptir sérstöku meginatriði í þessum efnum, heldur hitt, að menn eru nú hér með þessi mál í umr. á ekki svo mjög ólíkum nótum og það er mjög mikilvægt í þessu máli.

Í 3. lið till. er svo fjallað um stórátak til orkusparnaðar. Ég held að mjög mikil ástæða sé til að undirstrika þetta og félmrh. hefur líka skýrt það mál hér í umr. Það hefur verið unnið að því á milli tveggja ráðuneyta eftir að við skiluðum okkar skýrslum. Það hefur kannske eitthvað tafið málið, en það verður þá þeim mun betur undirbúið. Þetta er vert að benda á í sambandi við ræðu hv. þm. Karvels Pálmasonar þar sem hann talaði um 9000 kr. mánaðargreiðslu vegna upphitunar í Bolungarvík. Auðvitað fer þm. með réttar tölur, enginn skyldi efa það, en það sem skiptir sérstöku máli hér er að það er stór hluti af húsakostinum í landinu með þeim hætti að ekki er hægt að ná fram bærilegu verðlagi í húshitun með öðrum hætti en að laga húsnæðið. Það er ekki nokkur einasti vafi á að það sem hér er tilgreint af hv. þm. Karvel Pálmasyni er ekki vandað íbúðarhúsnæði. Mér sýnist fljótt á litið að þetta mundi spara í kringum sem svaraði 40–50 þús. kwst. á ársgrundvelli, en miðað er nú gjarnan við, og við höfum farið mjög rækilega yfir það mál, að hús sem hafa verið byggð á allra síðustu árum þurfi ekki nema liðlega 30 þús. kwst. á ársgrundvelli. Þetta sýnir gífurlegan mun. Og það er einmitt það sem er lögð áhersla á í þessu sambandi að reyna að laga og bæta úr þessum mikla mismun. Það er reyndar mjög í sama anda og kom fram í málflutningi og tillöguflutningi frá Bandalagi jafnaðarmanna, sem umr. fór fram um í þessari virðulegu deild.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál. Það er að sjálfsögðu líka hægt að taka undir og undirstrika 4. lið till. um sérstaka ráðgjafarþjónustu í þessum efnum. Ég vil hins vegar segja það sem mína skoðun að þar legg ég þó meira upp úr að farið verði í þessi mál og menn einbeiti sér að því að ná þar árangri í aðgerðum. Ég held að það sé nokkuð ljóst að menn vita hvar skórinn kreppir að og að árangri verður ekki náð nema með mjög markvissum aðgerðum.

Ég get tekið undir það sem hefur komið fram hjá öðrum hv. þm. að út af fyrir sig harma ég það að orkuverðsfrv. skuli ekki vera komið fram. Ég minni hins vegar á það sem fram kom í ræðu iðnrh. hér á dögunum við umr. um till. Bandalags jafnaðarmanna, að frv. yrði lagt fram öðru hvoru megin við mánaðamótin núna. Eins og menn vita er iðnrh. staddur erlendis og hygg ég að það hafi átt sinn þátt í því að frv. hefur ekki komið fram. En víst er um það að þar gefst gott tækifæri til að taka þessi mál til enn ítarlegri umfjöllunar og ég held að mér sé óhætt að segja að ég geti glatt minn kæra vin hv. þm. Karvel Pálmason með því, að þar kemur í ljós að við okkar kosningaloforð í þessum efnum verður staðið.